Vaxtasamningur fyrir höfuðborgarsvæðið tekur til 8 skilgreindra verkefna sem öll lúta að vinnu sem ætlað er að treysta og efla undirstöður og skilyrði atvinnulífs á höfuðborgarsvæðinu.  

1. Hagkerfi höfuðborgarsvæðisins - Í samvinnu við Hagstofu Íslands ofl. verður lagður grunnur að því að greina þátt höfuðborgarsvæðisins í hagkerfinu og vinna spár um þróun þess til framtíðar. Sérstaklega verður hugað að því að setja framtíðarþróun höfuðborgarsvæðisins mælanleg markmið sem verði undirstaða þess að meta framvindu vaxtarsamnings höfuðborgarsvæðisins.

2. Greining og stefnumótun í nýsköpun og samkeppnishæfni - Nýsköpun er grundvöllur vaxtar og atvinnusköpunar – skoðað verður betur hvernig má skapa vaxtarumhverfi og samkeppnishæfni svæðsins. Greiningu og upplýsingar um atvinnulíf þarf að bæta. Stefnt verður að sameiginlegri framtíðarsýn, tímasettum markmiðum og aðgerðaráætlun.

3. Skattalegt umhverfi - Unnin verður úttekt á skattalegu umhverfi fyrirtækja og sveitarfélaga höfuðborgarsvæðissins í alþjóðlegu samhengi, m.a. út frá stefnu sveitarfélaga um fjölbreyttari skattstofna og samkeppnishæfni svæðins. Þá verður lagt mat á hugmyndir um að sveitarfélögin verði virðisaukaskattskyld. Stefnt verður að sameiginlegri framtíðarsýn, tímasettum markmiðum og aðgerðaráætlun.

4. Framtíð samgangna - Samhliða vinnu við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verður lagt mat á valkosti í framtíðarsamgöngum og umferðarkerfi höfuðborgarsvæðisins, kostnað og hagkvæmni mismundi leiða. Hluti vinnunar verður að draga saman þær athuganir sem fyrir liggja um nýja kosti, s.s. léttlestar/hraðvagna á helstu stofnleiðum innan höfuðborgarsvæðisins og lestartengingu til Keflavíkur. Stefnt verður að sameiginlegri framtíðarsýn, tímasettum markmiðum og aðgerðaráætlun.

5. Framtíð og fjárfestingarþörf í ferðaþjónustu - Lagt verður mat á framtíðarþróun og mögulegan vöxt í ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu, ásamt styrkleikum og veikleikum greinarinnar til framtíðar. Sérstaklega verður hugað að uppbyggingarþörf á gistirými, skilgreiningu þess í skipulagi og mati á fjárfestingu á því sviði. Stefnt verður að sameiginlegri framtíðarsýn, tímasettum markmiðum og aðgerðaráætlun.

6. Áhersla á skapandi greinar og græna hagkerfið - Í ljósi styrkleika höfuðborgarinnar sem menningarhöfuðborgar Íslands á höfuðborgarsvæðið verður lögð áherslu á skapandi greinar í atvinnusköpun og styrkingu sérstöðu á alþjóðlegum samkeppnismarkaði. Sóknarfæri skapandi greina og græna hagkerfisins verður kortlögð. Stefnt verður að sameiginlegri framtíðarsýn, tímasettum markmiðum og aðgerðaráætlun.

7. Vísindagarðar og þekkingargreinar - Efnt verður til sameiginlegrar vinnu með HÍ, HR og Landsspítalanum til að draga fram sóknarfæri í því að vísindagarðar og þekkingariðnaður rísi í Vatnsmýri. Greind verður staða þekkingargreina og mikilvægustu þættir í vexti þeirra skilgreindir. Stefnt verður að sameiginlegri framtíðarsýn, tímasettum markmiðum og aðgerðaráæltun.

8. Lítil og meðalstór fyrirtæki - Unnar verða tillögur sem beinast sérstaklega að því að hlúa að vexti og þörfum lítilla og meðalstórra fyrirtækja, í ljósi mikilvægis þeirra sem uppsprettu nýsköpunar og nýgengis í fyrirtækjaflóru.