Á stjórnarfundi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sl. mánudag, 6. mars, var svohljóðandi bókun samþykkt: 

"Þann 1. janúar 2023 tóku gildi lög um breytingar á lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir nr. 38/2018. Breytingarnar fólust annars vegar í því að innleiðingartímabil notendastýrðar persónulegrar aðstoðar (NPA) var framlengt til ársloka 2024 og hins vegar í fjölgun samninga með framlag úr ríkissjóði í allt að 145 samninga á árinu 2023 og allt að 172 samninga á árinu 2024.

Í bréfi félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins til sveitarfélaga, dags. 23. febrúar 2023, kemur fram að þar sem um töluverða aukningu sé að ræða muni ráðneytið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga, móta verklag um móttöku og vinnslu umsókna um framlag vegna nýrra samninga. Þar sem gerð slíkra verklagsreglna er ekki lokið sé þá ekki tryggt að nýir samningar sem þegar hafa verið gerðir um NPA hljóti ríkisframlag.

Stjórn SSH áréttar að svo unnt verði að festa NPA þjónustu varanlega í sessi verði að tryggja mótframlag frá ríkinu. Stjórn SSH hvetur ráðuneytið til að ljúka gerð umræddra verklagsreglna sem allra fyrst til að eyða óvissu í málaflokknum og ítrekar nauðsyn þess að ríkið standi við skuldbindingar sínar um þátttöku í nýjum samningum um NPA.

Þá lýsir stjórn SSH þeirri afstöðu sinni að það þurfi að endurskoða upphæðir meðalsamninga sem nema í dag 30 milljónum, enda leiði þær til þess að sveitarfélögin beri mun meiri kostnað af NPA samningum en gert var ráð fyrir við gildistöku laga nr. 38/2018.“