Niðurstöður ferðavenjukönnunar 2019 fyrir landið allt hafa verið birtar á vefsíðu samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Ferðavenjukönnun samgönguráðs og SSH er umfangsmesta könnun á ferðavenjum Íslendinga sem gerð hefur verið.

Í fyrsta sinn nær ferðavenjukönnunin til alls landsins en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar fjórum sinnum áður fyrir höfuðborgarsvæðið. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, Samgöngustofa, Isavia og Vegagerðin stóðu að könnuninni fyrir hönd samgönguráðs ásamt Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Gallup framkvæmdi könnunina sem fór fram í október og nóvember 2019 og byggði á 22.790 manna úrtaki. Svarhlutfall var 42,1% sem þykir góð niðurstaða fyrir jafn umfangsmikla könnun og stórt úrtak.

Í könnuninni voru ferðavenjur fólks mældar fyrir alla samgöngumáta og niðurstöður teknar saman fyrir landið allt, einstaka landshluta, sveitarfélög og hverfi þar sem það á við. Þar sem könnunin nær til alls landsins í fyrsta sinn er nú hægt að bera saman landshluta.

Hægt er að nálgast niðurstöður eftir landshlutum/sveitarfélagöum/einstaka hverfum á  sérstakt vefsvæði könnunar hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Í myndbandi um ferðavenjukönnunina fjalla sérfræðingar og áhrifafólk um helstu niðurstöður könnunarinnar. Þátttakendur eru: Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og formaður samgönguráðs, Dr. Haraldur Sigþórsson, samgönguverkfræðingur, Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH og Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar.

 

Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH:
„Ferðavenjukönnunin sýnir að við erum á réttri leið miðað við markmið í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins en einnig hvað varðar markmið samgöngusáttmálans sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og ríkið gerðu haustið 2019. Það er þó enn nokkuð langt í land en með bættum samgöngum fyrir alla ferðamáta og stórefldum almenningssamgöngum munu ferðavenjur taka breytingum. Þannig getum við stuðlað að því að ná öllum markmiðum sem samgöngusáttmáli og svæðisskipulag fela í sér."