SSH og Samfés undirrita samstarfsyfirlýsingu - forvarnarstarf fyrir ungt fólk á tímum Covid-19.

SSH Samfes undirritum frett

Victor Berg Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samfés, Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH og Inga María Hjartardóttir, verkefnastjóri Samfés

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Samfés, landssamtök félagsmiðstöðva og ungmennahúsa á Íslandi hafa tekið höndum saman um verkefnið SamfésPlús eða PLÚSINN. Markhópur verkefnisins er ungt fólk á aldrinum 10-25 ára. Aðkoma SSH að Plúsnum, er hluti af Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024.

Marmiðið með starfsemi Plússins er m.a. að tryggja samræmt faglegt og margþætt forvarnarstarf til að draga úr neikvæðum langtímaafleiðingum Covid-19 á líf og heilsu ungs fólks. Í Plúsnum verða ungmennum veittar upplýsingar, boðið upp á fræðslu, vakin athygli á jákvæðum fyrirmyndum á samfélagsmiðlum og í hlaðvarpi. Plúsinn verður einnig vettvangur óformlegs náms þar sem faglegri þekkingu er safnað saman og verkefni þróuð til að efla hæfileika og hæfni starfsfólks sem vinnur með ungu fólki.

Með því að nýta sérstöðu Samfés, landssamtaka félagsmiðstöðva og ungmennahúsa, ásamt breiðum hópi samstarfsaðila sem vinna með ungu fólki, er ætlunin að Plúsinn verði miðstöð hugmynda og þekkingar. Samfés mun koma að verkefninu á virkan hátt ásamt fulltrúum ungmennaráða Samfés. Þá er hafið samstarf um Plúsinn við Bergið Headspace, Félags fagfólks í frítímaþjónustu, Rannís og verið er að vinna að samstarfi við fleiri aðila sem koma að starfi með ungu fólki.