Fjárlagafrumvarp ársins 2023 er nú til meðferðar Alþingis. Að venju hafa SSH sent umsögn um frumvarpið og var henni fylgt eftir á fundi fjárlaganefndar 12. október sl.

Í umsögnum sínum leggja SSH áherslu á að fjalla um þau atriði sem eru efst á baugi og varða samtökin mestu hverju sinni og að þessu sinni voru þau eftirfarandi:


Fjármögnun þjónustu við fatlað fólk

Fjármögnun þjónustu við fatlað fólk er mikið áhyggjuefni en greiningar á vegum starfshóps félags- og barnamálaráðherra hafa leitt í ljós að halli á rekstri málaflokksins hjá öllum sveitarfélögum landsins var um 8,9 milljarðar kr. á árinu 2020 og hefur verið áætlaður um 12 til 13 milljarðar kr. á árinu 2021. Ljóst er að stærstur hluti hallans, eða um 87% sé miðað við árið 2020, fellur til hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Þjónusta við fatlað fólk er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríkisins og vegur það að möguleikum sveitarfélaga til að ná sjálfbærni í rekstri. Enginn ávinningur er af því fyrir ríkið og samfélagið í heild að sveitarfélög reki verkefni með halla eða taki að sér ný verkefni sem ekki eru fjármögnuð.


Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu - fjárhagsstaða Strætó bs. vegna Covid-19

Fjárhagsstaða Strætó bs. er óviðunandi og samkvæmt nýrri fjárhagsgreiningu KPMG þarf um 1,5 milljarða kr. inn í rekstur Strætó bs. til að félagið sé fjárhagslega sjálfbært. Eins og fram hefur komið í umræðum um málið hafði Covid-19 mikil áhrif á reksturinn. Er áætlað að ef tekjustreymi Strætó bs. hefði verið sambærilegt og fyrir heimsfaraldurinn væru uppsafnaðar tekjur um 1,7 til 2,0 milljörðum hærri vegna áranna 2020 til 2022 en raunin er. Lagt hefur verið til við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að þau leggi 520 milljónir kr. til Strætó bs. og í sumar flýttu sveitarfélögin greiðslum sínum til Strætó bs. Hagrætt hefur verið 650 milljónir kr. í rekstri Strætó bs. frá árinu 2019 og 1. október sl. hækkuðu gjaldskrár fargjalda um 12,5%. Þess ber að geta að ítarleg erindi um áhrif Covid-19 á rekstur Strætó bs. voru send fjárlaganefnd með bréfum í október og desember 2020. Var erindunum fylgt eftir með fundum m.a. með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Þó fjárhagsleg staða Strætó bs. hafi á þeim tímapunkti þótt ásættanleg, lá ljóst fyrir að áhrif af faraldrinum myndu hafa skaðleg áhrif á fjárhag félagsins, og hefur það nú raungerst. Í bréfi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra 13. janúar 2021 kom m.a. eftirfarandi fram:
„Líkt og fram hefur komið er afleitt tekjutap vegna áhrifa Covid-19 umtalsvert og getur óhjákvæmilega haft afleiðingar í för með sér m.a. í skertri þjónustu og minni fjárfestingu í umhverfisvænum farartækjum til reksturs almenningssamgangna. Slíkar ráðstafanir væru þvert á vilja sveitarfélaganna enda myndi það vinna á móti sameiginlegum markmiðum ríkis og sveitarfélaga í því verkefni að efla almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu og þeim markmiðum sem unnið er að í þeim efnum m.a. er varðar loftslags- og lýðheilsumál. Eins og fram hefur komið hefur Strætó bs. staðið vaktina í Covid faraldrinum og haldið uppi svo til fullri þjónustu við farþega þó eftirspurnin eftir þjónustu hafi minnkað og þá til að gera farþegum kleift að viðhalda fjarlægðarmörkum í strætisvögnunum og stuðla þannig að því að íbúar höfuðborgarsvæðisins þ.m.t framlínustarfsmenn gætu komist til og frá vinnu á öruggan hátt.“

Þá er í umsögninni fjallað um mikilvægi framlags ríkisins til almenningssamgangna til framtíðar. Farið er yfir samfélagslegan ábata s.s. minni umferðatafir, mikilvægi breyttra ferðavenja og jákvæð áhrif á loftslagsmarkmið ríkisins.

SSH leggja því, í umsögn sinni, ríka áherslu á að frekara framlag verði lagt til Strætó bs. vegna áhrifa Covid-19 auk þess sem fullnægjandi framlög frá ríkinu til eflingar almenningssamgangna verði tryggð og þeirra skýrt getið í fjárlögum. Ekki síst út frá því meginsjónarmiði að ríkið ber mikla ábyrgð á því að vel takist til í þeim verkefnum sem framundan eru, m.a. úr frá markmiðum um sjálfbært og kolefnishlutlaust borgarsamfélag.


Önnur mál

Í lok umsagnarinnar er farið yfir rekstrarframlög frá ríkinu vegna yfirfærslu vega sem og mikilvægi þess að framlag til sóknaráætlana landshluta verði ekki skert eins og boðað hefur verið.

Frekari upplýsingar gefur Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH í síma 821-8179.

pdf button  Umsögn Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við frumvarp til fjárlaga