Fara í efni

Áfangastaðurinn höfuðborgarsvæðið

Áfangastaðurinn höfuðborgarsvæðið

Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hafa undirritað samning um stofnun samstarfsvettvangs sveitarfélaga og atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið.

Samningurinn byggir á Framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 sem unnin var í samvinnu ríkis, sveitarfélaga og hagaðila.

Að sögn Lilju miðar samningurinn að því að settur verði á fót samstarfsvettvangur sveitarfélaga og atvinnulífs um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið. Þannig verði stutt við þróun áfangastaðarins í átt að sjálfbærri framtíðarsýn og aukinni samkeppnishæfni. Áhersla verði á þróun og kynningar- og markaðsstarf ásamt samlegð og samtali hagaðila í ferðaþjónustu og tengdra aðila. Unnið verði að því að samstarfsvettvangurinn verði við árslok 2022 að áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins.


Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH og Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála

Undirbúningur að stofnun áfangastaðastofa í öllum landshlutum hefur verið í gangi um nokkurt skeið. Búið er að undirrita samninga um stofnun áfangastaðastofa í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu en þessi samningur er liður í því að áfangastaðastofur verði í öllum landshlutum. Það er liður í því að efla stoðkerfi ferðaþjónustunnar og stuðla að jákvæðum framgangi ferðaþjónustu á starfssvæði samtakanna.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hófu undirbúning og framkvæmd við mótun samstarfs um áfangastaða- og markaðsstofu fyrir höfuðborgarsvæðið með þátttöku stjórnvalda, sveitarfélaga, atvinnulífsins og annarra hagaðila á árinu 2021. Verkefnið var sett fram í sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins á árinu 2020 þar sem skoða átti þörf fyrir áfangastaðastofu fyrir höfuðborgarsvæðið með það að markmiði að efla samstarf og nýsköpun. Samhliða var að störfum ráðgjafahópur í samstarfi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þá var nýlega gengið frá ráðningu verkefnastjóra sem halda mun utan um áframhald verkefnisins en undirbúningur fyrir næstu skref verkefnisins er nú í fullum gangi.

Að sögn Páls Björgvins er mikilvægt fyrir sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu að móta stefnu til framtíðar um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið í samstarfi við atvinnulífið. Innlendir og erlendir ferðamenn munu sækja höfuðborgarsvæðið í auknum mæli heim til þess að njóta mannlífs, menningar og útiveru. Því er mikilvægt að svæðið bjóði með samræmdum hætti fram þá möguleika sem í boði eru, þó þannig að séreinkenni og áherslur hvers sveitarfélags séu dregin fram. Þannig mun höfuðborgarsvæðið eflast enn frekar og samkeppnishæfni þess aukast gagnvart öðrum svipuðum svæðum erlendis.

2022 02 Afnagastadurinn hbsv 1m
Ráðgjafahópur um áfangastaðinn höfuðborgarsvæðið:
Talið frá efri röð frá vinstri.
Jón Kjartan Ágústsson svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðissins, Hulda Hauksdóttir upplýsingastjóri Garðabæjar, Andri Ómarsson verkefnastjóri menningar- og markaðsmála Hafnarfjarðar, Þórir Garðarson formaður ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins, Rannveg Grétarsdóttir f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs, Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Björn H. Reynisson verkefnastjóri áfangastaðarins höfuðborgarsvæðið, Hugrún Ósk Ólafsdóttir verkefnastjóri í þjónustu- og samskiptadeild Mosfellsbæ, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs og María Björk Óskarsdóttir sviðsstjóri þjónustu- og samskiptasviðs Seltjarnarnes. Á myndina vantar Andrés Magnússon f.h. Samtaka verslunar og þjónustu.

 

 Sjá einnig frétt hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu