Áskorun SSH til ráðherra varðandi aukna kostnaðarhlutdeild Úrvinnslusjóðs
Samkvæmt tilskipun ESB nr. 2018/851 og 2019/904 skal framlengd framleiðendaábyrgð m.a. fjármagna söfnun og aðra meðhöndlun úrgangs sem ber framlengda framleiðendaábyrgð og berst í söfnunarkerfi sveitarfélaga. Tilskipunin var færð í íslensk lög með svokölluðum Hringrásarlögum (nr. 103/2021) og Úrvinnslusjóði ætlað að fjármagna sérstaka söfnun sveitarfélaga á úrgangi sem ber framlengda framleiðendaábyrgð. Tilgreint var í greinagerð með lagafrumvarpinu að heildaráhrif á sveitarfélögin væri metinn sem lítil og óveruleg.
Til samræmis við ákvæði laganna stendur innleiðing breytts fyrirkomulags sérstakar söfnunar nú yfir hjá sveitarfélögunum. Sveitarfélögunum er skylt að innheimta gjöld af íbúum til samræmis við raunkostnað, en breyttar lagaskyldur leiða óhjákvæmilega til aukins kostnaðar við meðhöndlun úrgangs. Þó nokkuð vantar upp á að fjármögnun Úrvinnslusjóð sé til samræmis við lögin og mun það að óbreyttu leiða til frekari álaga á heimilin. Nokkur atriði skipta vegamiklu máli í þessu samhengi.
- Róður fulltrúa sveitarfélaga í stjórn Úrvinnslusjóðs að sækja fyrrgreindar greiðslur hefur verið þungur þar sem Samband íslenskra sveitarfélaga á tvo fulltrúa á móti fjórum fulltrúum atvinnulífsins og hallar því nokkuð á sveitarfélögin þegar hagsmunir tilnefningaraðila fara ekki saman.
- Gjaldskrá fyrir sérstaka söfnun sem þegar hefur verið ákveðin af stjórn Úrvinnslusjóðs er of lág og stendur ekki undir kostnaði sveitarfélaga við meðhöndlun á úrgangi sem heyrir undir sjóðinn.
- Úrvinnslusjóður hefur ákveðið að miða greiðslur til sveitarfélaga vegna sérstakrar söfnunar við úrtakskannanir á úrgangsstraumum sem í eru vörur sem bera framleiðendaábyrgð, svo sem pappír og pappa og plast. Ekki virðist stuðst við þekkta aðferðarfræði við framkvæmd kannananna og þær ekki framkvæmdar með sama hætti um land allt. Ákvörðun Úrvinnslusjóðs um hversu stórt hlutfall pappírsefna sem ber framlengda framleiðendaábyrgð af heildarsöfnun á pappír og pappa sem safnað er byggist á ófullnægjandi aðferðafræði og þarfnast endurskoðunar. T.a.m. er gert ráð fyrir að hlutfallið sé 90% á Akureyri en 55% í Reykjavík.
- Ekki hefur verið skilgreint hvaða úrgangsflokki úrgangur sem ber framlengda framleiðendaábyrgð tilheyrir. Sem dæmi eru fernur, sem hafa verið mikið í umræðunni og erfitt er að endurvinna, skilgreindar sem pappír og úrvinnslugjald greitt m.v. það þó þær geti allt eins fallið undir plast. Eins eru vörur á markaði sem eru alls ekki endurvinnsluhæfar og geta því einungis flokkast sem blandaður úrgangur. Verið getur að virði endurvinnslustrauma, t.d. pappírsefna í tilfelli ferna, séu minni en ella og því mikilvægt að fá úr því skorið hvað nákvæmlega getur talist til pappírsefna og hvað til plastefna og ætti að flokkast sem slíkt.
- Endurgjald fyrir sérstaka söfnun er ekki greitt af vörum og umbúðum sem bera framlengda framleiðendaábyrgð og enda af einhverjum ástæðum í blönduðum úrgangi, jafnvel þótt greitt hafi verið úrvinnslugjald af þeim. Það hvetur til að vörur og umbúðir séu samsettar, erfiðar í flokkun og illendurvinnanlegar sem stríðir gegn markmiðum laga um meðhöndlun úrgangs og laga um úrvinnslugjald. Æskilegt væri að greitt væri einnig fyrir vörur og umbúðir sem bera framlengda framleiðendaábyrgð og enda í blönduðum úrgangi, enda búið að greiða úrvinnslugjald af þeim vörum. Einnig að þrepaskipt gjöld verði innleidd sem fyrst, eins og heimilt er í lögum um úrvinnslugjald, sem myndi skapa hagræna hvata til að slíkar vörur fari síður á markað.
- Gjaldskrá Úrvinnslusjóðs fyrir sérstaka söfnun hefur ekki verið skilgreind fyrir alla úrgangsflokka sem sveitarfélögum er ætlað að safna og Úrvinnslusjóður á að fjármagna.
Úrvinnslugjald Úrvinnslusjóðs þarf samkvæmt lögum að standa undir sérstakri söfnun og annarri meðhöndlun á vörum og umbúðum sem bera framlengda framleiðendaábyrgð eins og stefnt var að með Hringrásarlögunum sem tóku gildi sl. áramót svo lækka megi álögur á íbúa en sveitarfélögunum er skylt að innheimta gjöld til samræmis við raunkostnað þjónustunnar.
Frekari upplýsingar um málið veitir Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH í síma 821-8179.