Leiðarljós 1 úr svæðisskipulagi
Hagkvæmur vöxtur höfuðborgarsvæðisins
Vaxtarmörk marka skýr skil milli þéttbýlis og dreifbýlis. Nýrri byggð
verður fyrst og fremst beint á miðkjarna og samgöngumiðuð þróunarsvæði. Samgöngu- og þróunarásar tengja sveitarfélögin saman og
leggja grunn að nútíma almenningssamgöngum.
SKÝRINGARMYND 4
SAMGÖNGU- OG ÞRÓUNARÁSAR
Síðustu áratugi hefur vöxtur höfuðborgarsvæðisins leitt til dreifðari byggðar og aukinna vegalengda íbúa að þjónustu, störfum og afþreyingu. Byggðaþróun og uppbygging þjónustu hefur á köflum verið ómarkviss og stutt illa við markmið um sjálfbærni (Fylgirit 1B). Höfuðborgarsvæðið 2040 leggur megináherslu á að fyrirsjáanlegri fólksfjölgun verði mætt þannig að byggðin dreifi ekki óhóflega úr sér. Leiðarljós 1 styður sveitarfélögin við að ná fram hagkvæmum vexti í þróun byggðar og draga þar með úr útþenslu og óhagkvæmri uppbyggingu sem hefur neikvæð áhrif á umhverfi og lífsgæði íbúa og takmörkuð jákvæð hagræn áhrif.
Samgöngu- og þróunarás er hryggjarstykkið í Höfuðborgarsvæðinu 2040 og verður langtíma verkefni á samstarfsvettvangi sveitarfélaganna í útfærslu og þróun. Í stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 eru stigin fyrstu skref í skilgreiningu þróunarássins og mörkun viðmiða fyrir áframhaldandi greiningu á endanlegri legu, sem verður tekin að undangenginni ítarlegri kostnaðar- og ábatagreiningu fyrir sveitarfélögin og notendur. Samgöngu- og þróunarásinn mun tengja sveitarfélögin saman og liggja um kjarna þeirra sbr. töflu 2, bls.32. Samgöngumiðuð þróunarsvæði skulu tengjast við samgöngu- og þróunarás með vistvænum samgöngum með háu þjónustustigi. Við ákvörðun um legu hágæða almenningssamgangna – Borgarlínu – mótast samgöngu- og þróunarás endanlega. Mikilvægt er að uppbygging Borgarlínu verði samhliða þéttingu núverandi byggðar (Fylgirit 6).