Fara í efni

Samstarf sveitarfélaga á suðvesturhorninu um hagkvæma byggðaþróun verður eflt

Mikilvægt er að gott jafnvægi sé í búsetuskilyrðum og þróun atvinnulífs á landinu öllu. Mörg mál sem snerta atvinnulífið og byggðaþróun krefjast að leitað sé hagkvæmra leiða sem ná út fyrir mörk höfuðborgarsvæðisins við úrlausn þeirra s.s. sorpmál og vöru- og fólksflutningar.

Horfa þarf heildstætt á samspil höfuðborgarsvæðisins við suðvesturhornið og landið allt. Mikilvægt er að ríkið styðji í sínum stefnum við farsæla uppbyggingu á þeim svæðum
landsins sem eru í örum vexti og leggi þannig sitt af mörkum til farsællrar byggðaþróunar á suðvesturhorninu. Ríkið og stofnanir þess þurfa ásamt sveitarfélögum að leita leiða til að viðhalda gagnagrunni lykiltalna sem nær yfir allt suðvesturhorn landsins. Einnig munu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leita hagkvæmra lausna í samstarfi við nágrannabyggðir um úrlausn sorpmála, efnistöku og -losunar og annarra mála sem lúta ekki landfræðilegum mörkum.

Skilvirkar og öruggar samgöngur eru lykilatriði þegar sá hópur sem sækir vinnu á höfuðborgarsvæðið frá nágrannabyggðum fer stækkandi. Á meginstofnvegum sem tengja höfuðborgarsvæðið við nágrannabyggðir þarf að viðhalda greiðu og öruggu flæði einka- og þungaumferðar. Gert er ráð fyrir að hægt verði að auka afkastagetu meginstofnvega sem tengjast höfuðborgarsvæðinu þ.m.t. Hvalfjarðarganga. Auka þarf hlutdeild almenningssamgangna og samspil þeirra við nýtt hágæða almenningssamgöngukerfi – Borgarlínu.

Í Reykjavík og Hafnarfirði eru mikilvægar hafnir eins og í nágrannabæjunum Akranesi, Reykjanesbæ, Sandgerði, Grindavík og Þorlákshöfn. Á Grundartanga er vöruflutningahöfn sem þjónar þeirri starfsemi sem þar er. Ef kemur til aukinna hafnarumsvifa, t.d. vegna nýrra verkefna, verður þörf fyrir nýja hafnaraðstöðu endurmetin í takt við breyttar aðstæður. Mikilvægt er að náið samstarf verði við ríkið og nágrannabyggðir um framtíðarstaðsetningu slíkrar hafnar til að nýta innviði sem best.

Urðun á Álfsnesi verður hætt á skipulagstímabilinu, eigi síðar en 2020 eins og kveðið er á um í samkomulagi eigenda Sorpu frá 25. október 2013. Ekki er gert ráð fyrir nýjum urðunarstað innan höfuðborgarsvæðisins. Lögð verður áhersla á að minnka þörf fyrir urðun sorps með aukinni meðhöndlun s.s. gasgerð, endurnýtingu og endurvinnslu. Mikilvægt er að auka samvinnu sorpsamlaga á suðvesturhorninu til að nýta betur þau úrræði sem eru þegar til staðar og samræma betur meðhöndlun úrgangs frá öllu svæðinu.

Í nágrenni höfuðborgarinnar eru jarðhitavirkjanir sem hafa áhrif á umhverfi sitt. Síðustu ár hefur verið aukning á brennisteinsvetni í andrúmslofti á Íslandi vegna aukinnar nýtingar jarðhita. Nauðsynlegt er að samráð eigi sér stað milli sveitarfélaga um áhrif núverandi nýtingar og frekari nýtingar til framtíðar til þess að tryggja að búsetuskilyrði aðliggjandi byggðar sé ekki ógnað sökum hás gildis brennisteinsvetnis í andrúmslofti. Er þetta í samræmi við reglugerð um styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti nr. 514/2010 með síðari breytingum.

Mikilvægt er að birtar séu upplýsingar um loftgæði á aðgengilegan og skiljanlegan hátt að höfðu samráði við Umhverfisstofnun og tryggt sé að almenningur sé ætíð upplýstur um líklega útbreiðslu brennisteinsvetnis á áhrifasvæðum jarðhitavirkjana í samræmi við upplýsingaskyldu sbr. 6. grein reglugerðar 514/2010.

Við útfærslur sorpurðunar á höfuðborgarsvæðinu í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.

Þemakort

Kort 6 -Megin grunnkerfi og atvinnusvæði á suðvesturhorninu

Aukin alþjóðleg samkeppnishæfni

Aðgerðir tengdar markmiði

Svo að markmið 3.2 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH

 

3.2.1 SSH kalli eftir að stofnað verði til formlegs samráðs landshlutasamtaka á suðvesturhorni landsins, um þróun byggðar, samgöngur, sorpmál, efnisvinnslu, efnislosun og önnur sameiginleg hagsmunamál.


3.2.2 SSH safnar og miðlar lykiltölum um þróun byggðar og samgangna á suðvesturhorninu.


3.2.3 Svæðisskipulagsnefnd metur áhrif fyrirhugaðrar fólksfjölgunar á suðvesturhorninu við gerð fjögurra ára þróunaráætlunar. 

3.2.4 Sorpa bs. fylgir eftir tillögum og markmiðum sem sett eru fram í svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs í því samstarfi sem nú er í gildi milli sorpssamlaga á Suðvesturlandi.


3.2.5 Kanna til hlítar möguleika og hagkvæmni þess að tengja nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna við Keflavíkurflugvöll.

 

Aðildarsveitarfélög og byggðasamlög

3.2.6 Sveitarfélögin tryggja rými í aðalskipulagsáætlunum fyrir öruggt og gott flæði bílaumferðar á meginstofnvegum sem tengja höfuðborgarsvæðið og aðliggjandi svæði. Sveitarfélögin taka frá rými í skipulagsáætlunum fyrir nýjar útfærslur meginstofnvega sbr. aðgerð 2.4.6.

3.2.7 Strætó bs., í samstarfi við landshlutasamtök á aðliggjandi svæðum, vinni að því að gott samræmi sé milli almenningssamgangna sem mynda stærra leiðanet.  

 

Aðkoma og aðgerðir annarra

3.2.8 Ríkið, í samráði við svæðisskipulagsnefnd, taki skýrt á viðfangsefnum sem tengjast hlutverki höfuðborgarsvæðisins gagnvart öðrum landshlutum og tækifærum svæðisins ásamt nágrannabyggðum til að auka samkeppnishæfni landsins alls. Tryggja þarf að þessi viðfangsefni skili sér alltaf í landsskipulagsstefnu og byggðaáætlun.


3.2.9 Þátttaka landshlutasamtaka á suðvesturhorni landsins í uppbyggingu sameiginlegs gagnagrunns um þróun byggðar á suðvesturhorni landsins.


3.2.10 Ríkið taki skýrt á viðfangsefnum sem tengjast hlutverki höfuðborgarsvæðisins gagnvart öðrum landshlutum og tækifærum svæðisins ásamt nágrannabyggðum til að auka samkeppnishæfni landsins alls. 

Tryggja þarf að þessi viðfangsefni skili sér alltaf í landsskipulagsstefnu og byggðaáætlun.


3.2.11 Hafnir á höfuðborgarsvæðinu auki samvinnu með það að markmiði að auka hagkvæmni nýtingar hafnarmannvirkja og hafnsöguskipa og að tryggja nægt framboð af lóðum fyrir hafnsækna starfsemi.


3.2.12 Hafnir á höfuðborgarsvæðinu skoði áfram kosti fyrir framtíðar aðalinnflutningshöfn landsins sem gæti tekið við af Sundahöfn í lengri framtíð.