Fara í efni

Samspil og virkni velferðarþjónustu

Skerpa á stuðningi, úrræðum og áskorunum á milli ríkis og sveitarfélaga í velferðamálum

Velferðarmál eru annar umfangsmesti málaflokkur seitarfélaganna. Mikilvægt er að verkaskipting og ábyrgð aðila sé skýr. Löggjöf í velferðarmálum á víðum grunni hefur tekið stórstígum breytingum undanfarin misseri, og ýmsar nýjar þjónustuleiðir, s.s. í þjónustu við aldraða, hafa verið teknar upp. Þessi þróun veitir notendum þjónustunnar ný og aukin réttindi en leggur samhliða auknar skyldur og kostnað á þjónustuveitendur. Þá hefur þessi þróun að einhverju leyti leitt til óskýrra skila milli þjónustukerfa.

Markmið þessa verkefnis er að greina nánar umfang þjónustunnar, að hvaða leyti hún hafi breyst á undangengnum árum, hvort þjónustþörf hafi aukist, og hvort fjármögnun hennar sé trygg þannig að ekki leiði til þjónustufalls. Verður ábyrgð og verkaskipting þá sérstaklega skoðuð og nánari greining framkvæmd á því hvort, og þá í hvaða tilvikum, notendur upplifi sig „á milli kerfa“. Ljóst er að gagnvart notendum er mikilvægt að ábyrgðarskipting sé skýr og boðleiðir og samskipti einföld. Sérstök áhersla verður lögð á þjónustu við einstaklinga með fjölþættan vanda og samspil heilbrigðis- og fötlunarþjónustu en einnig verður framkvæmd greining á því hvort ábyrgðarskipting sé nægilega skýr þegar kemur að nýjum hópum og þjónustuleiðum, og hvort fjölgun innan einstakra hópa sem njóta velferðarþjónustu hafi leitt til breytinga þegar kemur að ábyrgð og kostnaðarskiptingu. Þá verði skoðað hvaða áhrif fyrirhuguð lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks hafi á umfang þjónustu.

Lokaafurð verkefnisins verður í formi samantektar sem greinir verkaskiptingu milli þjónustukerfa og dregur sérstaklega fram hvað hefur breyst í veðferðarþjónustu á víðum grunni undangengin ár, hvað varðar t.a.m. umfang og þjónustuþörf.