Fara í efni

4.1 Íbúar höfuðborgarsvæðisins eiga aðgang að fjölbreyttum útivistarsvæðum sem hvetja til reglulegrar hreyfingar, náttúruupplifunar og jákvæðra, félagslegra samskipta

Á höfuðborgarsvæðinu eru fjölbreytt náttúruleg svæði og mótuð útivistarsvæði sem nýta skal til útivistar, fræðslu, náttúruupplifana og endurnæringar fyrir íbúa. Vefur útivistarog verndarsvæða er mótaður úr Bláþræðinum um strandlengju höfuðborgarsvæðis, Græna treflinum um heiðar og fell ofan byggðar, grænum geirum milli strandar og heiða og bæjar- og borgargörðum innan byggðarinnar. Nánari greiningar á náttúru og umhverfi höfuðborgarsvæðisins er að finna í fylgiriti 8.

Bláþráðurinn um strandlengju höfuðborgarsvæðisins býður upp á einstaka útivistarmöguleika. Fjölbreytt landslagið birtir nýjar myndir oft á dag í samspili við síbreytileika árstíðanna, veðráttunnar, sólargangsins, fuglalífsins og sjávarfallanna. Þar er endalaus uppspretta upplifunar, fróðleiks og hollrar útivistar. Fjölbreytileiki strandlengjunnar birtist í melgresisgrónum sandhólum, nesjum, víkum og vogum, hraunbreiðum í sjó fram, sjávartjörnum, malarfjörum, hafnarmannvirkjum og sjóvarnargörðum. Búsetuminjar og fornar götur er þar að finna og minna á horfna lífshætti. Með Bláþræðinum er skírskotað til þess að möguleiki á samfelldum strandstíg hangir á nokkrum stöðum á bláþræði vegna landnotkunar, eignarhalds eða staðhátta. En Bláþráðurinn táknar ekki síst hina hárfínu og síbreytilegu línu þar sem sjór mætir landi. Strandlengjan verði gerð eins aðgengileg og kostur er með samfelldum hjóla- og göngustígum, fjölbreytilegri útivistaraðstöðu og áningarstöðum. Hjáleiðir um nærliggjandi byggð verði skilgreindar þar sem landnotkun og eignarhald takmarkar aðgengi.

Græni trefillinn er sameiginlegt og samfellt útivistarsvæði við efri jaðar borgarbyggðarinnar. Trefillinn teygir sig frá Esjuhlíðum í norðri til Helgafells í suðri og tengist þannig fjalllendi Esjunnar, Bláfjallafólkvangi og jarðvangi Reykjanesfólkvangs. Græni trefillinn fléttar saman skógarteiga, hraun, vötn og fell. Áhersla er lögð á verndun sérstæðs landslags og lífríkis. Þar er aðstaða til fjölbreyttrar útivistar svo sem athafnasvæði hestamanna og golfvellir sem og fjölbreytt náttúra, hraunbreiður og votlendi, ræktaður skógur og náttúrulegt kjarr. Í treflinum skal skógrækt stunduð í sátt við sérkenni landslags og náttúrufars, til skjóls og yndisauka, til bættra útivistarskilyrða, til að hefta ösku- og jarðvegsfok og bindingar kolefnis og svifryks frá umferð. Græni stígurinn, samfelldur gönguog hjólastígur, tengir öll sveitarfélögin saman og liggur eftir treflinum endilöngum og áfram til norðurs og suðurs. Lega stígsins og staðsetning mikilvægustu aðkomusvæða kvarðast í aðalskipulagi sveitarfélaganna. Hesthúsahverfi skulu samtengd með reiðstígum milli sveitarfélaga. Unnið verður að frekari stefnumörkun, samræmdum aðgerðum og rekstri útivistaraðstöðu í Græna treflinum og Græna stígnum.

Grænir geirar liggja frá Græna treflinum eftir stórum landslagsdráttum s.s. um dali, meðfram hraunjöðrum, ám og lækjum, niður að strandlengjunni. Hér má nefna umhverfi Varmár og Korpu, Elliðaárdal, Fossvogsdal og umhverfi lækja og hraunjaðra í í Garðabæ og Hafnarfirði. Tryggja skal samfellu þessara svæða milli Bláþráðarins og Græna trefilsins. Innihaldsríkir borgargarðar gegna mikilvægu hlutverki í þéttri byggð, stuðla að andlegri vellíðan og góðri lýðheilsu. Í borgargörðum er aðstaða til leikja, samkomuhalds og daglegrar endurnæringar. Tækifæri til ræktunar matjurta í almenningsrýmum verði aukin til muna, í formi skólagarða og almennra matjurtagarða. Laugardalur, Hljómskálagarður, Vatnsmýri, Klambratún, Öskjuhlíð, Kópavogsdalur, Víðistaðatún og Ullarnesbrekkur eru dæmi um garða með þetta hlutverk. Kirkjugarðar verða með tíð og tíma friðsælir og gróðurríkir almenningsgarðar og verða hluti af græna vef höfuðborgarsvæðisins.

Við útfærslur strandstígs, Græna trefilsins, Græna stígsins, grænna geira, borgargarða og kirkjugarða í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.

Þemakort

Kort 7 -Náttúra og útivist

Heilnæmt umhverfi og heilbrigt líf

Aðgerðir tengdar markmiði

Svo að markmið 4.1 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH

4.1.1 Svæðisskipulagsnefnd setur fram leiðbeinandi viðmið um útfærslu sameiginlegra útivistarsvæða og stíga. Sérstök áhersla verði lögð á græna geira, græna stíginn og strandstíginn.


4.1.2 Svæðisskipulagsnefnd viðheldur virkum kortagrunni og upplýsingaöflun um þróun Græna trefilsins og sameiginlegra útivistarstíga í útmörk og með ströndinni. 

Sérstök áhersla verði lögð á græna geira, græna stíginn og strandstíginn.


4.1.3 Svæðisskipulagsnefnd vinni fjögurra ára þróunaráætun, þar sem dregin verða fram áform um framkvæmdir á sameiginlegum útivistarsvæðum.

 

Aðildarsveitarfélög og byggðasamlög

4.1.4 Sveitarfélögin móti frekari stefnu og mögulegar aðgerðir til verndunar umhverfis og reksturs útivistaraðstöðu í Græna treflinum. Leitað verði samráðs og samstarfs við skógræktar-, náttúruverndar- og útivistarfélög.


4.1.5 Sveitarfélög útfæri í aðalskipulagsáætlanir aðgerðarmarkmið 4.1 og geri sérstaklega grein fyrir útfærslu sameiginlegra útivistarsvæða s.s. Græna trefilsins og helstu aðkomusvæða, græna stígsins, grænna geira og strandstígs. 

4.1.6 Sveitarfélögin tryggi samræmt aðgengi að helstu útivistarsvæðum og net göngu-, hjóla- og reiðstíga sem tengja sveitarfélögin saman.


4.1.7 Sveitarfélögin koma á reglubundnum samstarfs - vettvangi umhverfis- og garðyrkjustjóra sveitarfélaganna sem hafi það að markmiði að samræma þróun sameiginlegra útivistarsvæða.

 

 

Aðkoma og aðgerðir annarra 

4.1.8 Skógræktarfélag Íslands, Skógræktarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Skógrækt ríkisins aðstoði SSH um viðhald upplýsinga um skóga í Græna treflinum.

4.1.9 Svæðisnefnd Landssambands hestamanna og Vegagerðin aðstoði SSH um viðhald upplýsinga um reiðvegi.