Fara í efni

Þróunaráætlun 2024

Lykilatriðið í framfylgd svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 er gerð fjögurra ára þróunaráætlana. Með þróunaráætlun er lögð áhersla á að samræma áætlanir sveitarfélaganna um uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis, samgönguframkvæmdir, auk annarra aðgerða til að ná fram markmiðum svæðisskipulags um þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Þróunaráætlun hefur einnig það gildi að miðla upplýsingum um uppbyggingaráform út í samfélagið. 

Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2024 er þriðja þróunaráætlunin sem unnin er á grunni Svæðiskipulags höfuðborgarsvæðisins: Höfuðborgarsvæðið 2040, en áður hafði SSH látið vinna þróunaráætlun fyrir tímabilin 2015-2018, 2020-2024 og stöðutöku árið 2022. Þróunaráætlunin er vettvangur til að samræma áætlanir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í húsnæðis- og samgöngumálum. Þróunaráætluninni er einnig ætlað að miðla upplýsingum um stöðuna og uppbyggingaráform og eru helstu tölur þróunaráætlunar nú settar fram á aðgengilegan og skýran máta á nýrri vefsjá. Nýjar áherslur í þróunaráætlun 2024 eru skoðun á aldri skipulagsheimilda á höfuðborgarsvæðinu, hlutfalli samþykktra skipulagsheimilda á byggingarhæfum lóðum, eignarhaldi lóða og húsnæði án hagnaðarsjónarmiða.

Í nýrri þróunaráætlun 2024 eru dregin fram eftirfarandi atriði:

  • Í gildandi aðalskipulagsáætlunum er gert ráð fyrir uppbyggingu 57.700 íbúða
  • Staðfest deiliskipulag er fyrir 12.000 íbúðir
  • Í vinnslu eru deiliskipulag fyrir 11.000 íbúðir til viðbótar
  • Mögulegt er að koma á markað að meðaltali 3.375 íbúðum á ári næstu fjögur ár


Í greiningu Þróunaráætlunar, sem unnin var af VSÓ ráðgjöf, kemur fram að rúmar skipulagsheimildir eru fyrir hendi til að auka uppbyggingu á höfuðborgasvæðinu. Bæði liggur fyrir staðfest deiliskipulag fyrir 12.083 íbúðum og deiliskipulag fyrir 11.038 íbúðum til viðbótar er í vinnslu. Því er rými til að byggja meira en hefur verið gert að meðaltali síðustu ár, ef horft er til skipulagsheimilda: Mögulegt væri að hefja uppbyggingu á 3.375 íbúðum að meðaltali á ári, næstu fjögur árin, að því gefnu að fjármögnun, mannafli og tækjakostur standi til boða.

Fjölgun íbúa – vöxtur í íbúðauppbyggingu

Gert er ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um á bilinu 6-16 þúsund fram til ársins 2027.

Áætlanir sveitarfélaga um íbúðauppbyggingu falla ágætlega að þeirri þróun en sem fyrr segir eru 12.083 nýjar íbúðir í staðfestu deiliskipulagi sem gætu rúmað allt að 30.000 íbúa, miðað við núverandi meðaltal íbúa í íbúð.

Þá má ætla að heildarfjöldi skipulagsheimilda í aðalskipulagi sveitarfélaganna geti hýst allt að 142.000 manns til viðbótar við núverandi íbúafjölda en þar er gert ráð fyrir uppbyggingu 57.700 íbúða. Til samanburðar er núverandi fjöldi fullbúinna íbúða á höfuðborgarsvæðinu 97.958 og heildarfjöldi íbúða á Íslandi er 156.084.

Öll fyrirliggjandi uppbygging á sér stað innan gildandi vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins og af áætlaðri uppbyggingu er 71% innan áhrifasvæðis Borgarlínu á samgöngu- og þróunarásum eins og þeir eru skilgreindir í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

28% byggingaheimilda eru 5 ára eða eldri

Búið er að úthluta 70% byggingarréttar (byggingarheimilda) þeirra íbúða þar sem deiliskipulag er samþykkt. Það samsvarar rétt um 8.500 íbúðum. Í einhverjum tilfellum er nokkuð langt síðan byggingarrétti fyrir ákveðna lóð var úthlutað en framkvæmdir hafa ekki hafist. Greining á aldri deiliskipulagsheimilda sýnir að 54% íbúðarheimilda (6.566 íbúðir) voru samþykkt á síðustu tveimur árum. Um 18% heimilda voru samþykkt í deiliskipulagi fyrir 3-4 árum og 28% heimilda eru 5 ára eða eldri.

 


Afmörkun og flokkun áætlaðra uppbyggingareita á höfuðborgarsvæðinu.

Staðan

Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins - Stöðutaka

Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins - Stöðutaka

Stöðutaka á þróunaráætlun 2022

Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020 - 2024

Umsögn svæðisskipulagsstjóra

Gögn

Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024

Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024

Fyrirvari: Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) veita aðgang að gögnum án ábyrgðar á áreiðanleika eða öðrum eiginleikum þeirra. Allar tölur eru birtar með fyrirvara um villur. SSH ábyrgist heldur ekki neinar afleiðingar sem kunna að hljótast af notkun gagnanna. Um er að ræða lifandi skjöl sem geta tekið breytingum eftir því sem nýjar upplýsingar berast. Heimilt er að afrita, endurnýta og birta gögnin að vild, enda sé getið heimildar, t.d. með orðunum „Byggt á gögnum frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH)“. Ábendingar um það sem betur má fara sendist til ssh@ssh.is.

Skapalón

Helstu nýmæli í þróunaráætlun 2020-2024 er svokallað „skapalón“ húsnæðisuppbyggingar sem VSÓ þróaði fyrir SSH. Um er að ræða töflureikni (excel) sem bætir stafræna umgjörð fyrir áætlaða húsnæðisuppbyggingu sveitarfélaganna fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæði. Markmiðið er að gera sveitarfélögum betur kleift að áætla tímasetningar á nýju framboði húsnæðis út frá fyrirliggjandi skipulagi og öðrum upplýsingum, þ.e. áætla hvenær nýtt byggingarmagn skilar sér á markað, per ár. Forsendur sem koma fram í töflureikni eru byggðar á mati skýrsluhöfunda og skipulagsfulltrúa sveitarfélaga og ber að túlka sem viðmið miðuð við bestu mögulegu upplýsingar hverju sinni.


Skapalón uppfærð mars 2022 (excel töflureiknir):


Kort með þróunaráætlun 2020 - 2024

Greiningarskjöl