Fara í efni

Metnaðarfullt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið liggi fyrir á hverjum tíma þar sem sett er fram sameiginleg stefna um hagkvæma og sjálfbæra byggðaþróun

Höfuðborgarsvæðið 2040 er virk skipulagsáætlun og tekur mið af gildandi landsskipulagsstefnu. Einnig munu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu beita sér fyrir að landsskipulagstefna og aðrar áætlanir ríkisins taki mið af framtíðarstefnumörkun höfuðborgarsvæðisins. Svæðisskipulagið er einn af lykilþáttum sóknaráætlunar  höfuðborgarsvæðisins og er viðvarandi verkefni, unnið í samráði við ríkið.

Sveitarfélögin ætla að tryggja að ávallt liggi fyrir metnaðarfullt svæðisskipulag þar sem sett er fram sameiginleg stefna um hagkvæma og sjálfbæra borgarþróun, sem meðal annars felst í sameiginlegri sýn fyrir íbúaþróun og þjónustuframboð, skilgreina landnotkun og samgöngur með áherslu á virka og vistvæna ferðamáta, og vinna sameiginlega að þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu með tengingu við næstu nágranna (Fylgirit 12).

Við samþykkt Höfuðborgarsvæðisins 2040 skuldbinda sveitarfélögin sig til að endurskoða aðalskipulagsáætlanir sínar og tryggja samræmi við stefnu svæðisskipulagsins.

Eins og fram hefur komið er stefna Höfuðborgarsvæðisins 2040 ekki sett fram á skipulagsuppdrætti. Áherslur og efnisatriði verður engu að síður að útfæra í aðalskipulögum sveitarfélaga og fá þar skipulagslega bindingu á uppdrætti. Skipulagsþættir hafa verið flokkaðir niður og fer málsmeðferð þeirra eftir svæðisbundnu mikilvægi. Þegar sveitarfélög útfæra skipulagsþætti sem hafa mikið svæðisbundið gildiþarf málsmeðferð að vera eins og um svæðisskipulagsbreytingu sé að ræða. Svæðisskipulagsnefnd fjallar um þær útfærslur og þurfa allar sveitarstjórnir að afgreiða samþykktir nefndarinnar. Þegar sveitarfélög útfæra skipulagsþætti sem hafa lítið svæðisbundið gildi er það gert í aðalskipulagi með umsögn svæðisskipulagsnefndar. Aðrir skipulagsþættir eru háðir mati svæðisskipulagsnefndar hverju sinni hvort þeir hafa mikið eða lítið svæðisbundið gildi. Flokkun skipulagsþátta og málsmeðferð er sýnd í töflu 3.

Árangursríkt samstarf um þróun höfuðborgarsvæðisins

Aðgerðir tengdar markmiði

Til að markmið 6.2 nái fram að ganga munu sveitarfélögin vinna að eftirfarandi aðgerðum og/eða beita sér í samstarfi með eftirnefndum aðilum.

Svæðisskipulagsnefnd og SSH

6.2.1 Svæðisskipulagsnefnd og Skrifstofa SSH fylgjast með framfylgd skipulagsins og benda sveitarfélögum á misræmi við aðalskipulagsáætlanir ef þörf er á.


6.2.2 Skrifstofa SSH hefur yfirumsjón með stjórnsýsluhluta svæðisskipulagsins, sér um reglulega uppfærslu upplýsinga, tölfræðilega úrvinnslu, framsetningu skipulagsins, miðlun upplýsinga og samstarf við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og á suðvesturhorninu. 

SSH hefur frumkvæði að því að leita til hagsmunaaðila og félagasamtaka við framfylgd stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 hverju sinni, til dæmis við mótun leiðbeininga.


6.2.3 Svæðisskipulagsnefnd skal eftir skipun hennar í upphafi nýs kjörtímabils sveitarstjórnar leggja fram verk-, tímaog kostnaðaráætlun. Ávallt skal meta hvort þörf sé á að endurskoða svæðisskipulagið. 

 

Aðildarsveitarfélög og byggðasamlög

6.2.4 Sveitarfélögin skuldbinda sig til að umgangast staðfest svæðisskipulag af festu og virðingu og innleiða í gildandi aðalskipulagsáætlanir.

6.2.5 Við gerð aðalskipulags aðildarsveitarfélaganna og endurskoðun þeirra skal byggja á stefnumörkun svæðisskipulagsins.

 

Aðkoma og aðgerðir annarra

6.2.6 Skipulagsstofnun veitir leiðsögn um framfylgd, viðhald og endurskoðun svæðisskipulagsins ef þörf er á.