Skrifstofa SSH verður vettvangur virks samstarfs um þróun höfuðborgarsvæðisins
Samvinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um svæðisskipulagið verður á vettvangi SSH sem aðstoðar við samræmingu aðalskipulagsáætlana við stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 (Fylgirit 12).
Svæðisskipulagsnefnd hefur yfirumsjón með umsýslu svæðisskipulagsins. Skrifstofa SSH annast stjórnsýsluhluta svæðisskipulagsins, reglulega uppfærslu upplýsinga, tölfræðilega úrvinnslu, framfylgd skipulagsins, miðlun upplýsinga og samstarf við skipulagsyfirvöld í sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og aðliggjandi sveitarfélögum. Skrifstofa SSH skal fylgjast með framþróun skipulagsins og gera tillögur að leiðréttandi hegðun eða breytingum á því ef þarf (Fylgirit 12). Lykilatriðið í framfylgd svæðisskipulagsins er gerð fjögurra ára þróunaráætlunar að loknum sveitarstjórnarkosningum. Með henni er lögð áhersla á að samræma áætlanir sveitarfélaganna um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, samgöngu-framkvæmdir auk annarra aðgerða. Í þróunaráætlununum munu einnig koma aðgerðir um þá skipulagsþætti sem hafa mikið svæðisbundið gildi en niðurstaða liggur ekki fyrir við samþykkt Höfuðborgarsvæðisins 2040. Þar er um að ræða skipulagsþætti á borð við staðsetningu innanlandsflugvallar, legu samgöngu- og þróunaráss ásamt Borgarlínu og mannvirkjabelti á vatnsverndarsvæðum.
Ferli við vinnslu fjögurra ára þróunaráætlunar birtist í skýringarmynd bls. 86 og skal áætlunin liggja fyrir samhliða gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélaganna að loknum kosningum. Mikilvægt verður að skapa og viðhalda öflugum gagna- og upplýsingagrunni til að fylgjast með þróun höfuðborgarsvæðisins og tryggja að bestu upplýsingar hverju sinni styðji við skipulagsákvarðanatöku.
Mynd 12 -Ferli fjögurra ára þróunaráætlunar
Aðgerðir tengdar markmiði
Svæðisskipulagsnefnd og SSH
6.1.1 Svæðisskipulagsnefnd hefur yfirumsjón með svæðisskipulaginu. Skrifstofa SSH hefur umsjón með rekstri svæðisskipulagsnefndar með skilvísri stjórnsýslu.
6.1.2 SHH viðheldur, í samvinnu við sveitarfélögin, lifandi kortagrunni með tilvísun til samkomulags sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þar að lútandi.
6.1.3 SSH viðheldur gagnagrunni svæðisskipulags, þar sem lykiltölur um þróun byggðar eru uppfærðar reglulega, í það minnsta árlega.
6.1.4 SSH aðstoðar svæðisskipulagsnefnd við gerð fjögurra
ára þróunaráætlunar í samvinnu við sveitarfélögin sem taka mið af uppfærðum mannfjöldaspám. Markmið þróunaráætlana er að stuðla að markvissri uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins sem styður við markmið Höfuðborgarsvæðisins 2040. Þróunaráætlanir verða unnar að afloknum sveitarstjórnarkosningum.
Sveitarfélög og byggðarsamlög
6.1.5 Sveitarfélögin standa að starfi skrifstofu SSH og svæðisskipulagsnefndar og fela henni aukið stefnumótandi hlutverk í góðu samstarfi við skipulagsnefndir þeirra og önnur stjórnvöld m.a. við:
• Gerð fjögurra ára þróunaráætlana fyrir höfuðborgarsvæðið að loknum sveitarstjórnarkosningum.
• Samráð við gerð aðalskipulags aðildarsveitarfélaga.
• Samráð við ríkisvaldið um gerð og framfylgd landsskipulagsstefnu.
6.1.6 Svæðisskipulagsnefnd viðheldur kortagrunni svæðisskipulags. Sveitarfélögin skuldbinda sig til að skila inn gögnum með markvissum og öruggum hætti, í það minnsta árlega.
Aðkoma og aðgerðir annarra
6.1.7 Samráð verði haft við viðeigandi stofnanir um gögn sem snerta lykiltölur um þróun byggðar: Hagstofu, Þjóðskrá, Vegagerðina, Byggðastofnun, RSK og Landmælingar Íslands.