Verkefnastjóri svæðisbundins farsældaráðs á höfuðborgarsvæðinu
Hanna Borg Jónsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri farsældar á höfuðborgarsvæðinu.
Hinn 6. mars 2020 samþykkti stjórn SSH sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið 2020–2024.
Sóknaráætlun er stefnuskjal sem felur í sér stöðumat höfuðborgarsvæðisins, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum.
Verkefnið er hluti af sóknaráætlun landshluta, en tekur jafnframt mið af þeirri stefnu og framtíðarsýn sem kemur fram í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015–2040.
Hluti af framfylgd sóknaráætlunar er að vinna að ákveðnum áhersluverkefnum fyrir hvert ár yfir tímabílið. Áhersluverkefni eru samþykkt af stjórn SSH og stýrt af SSH í samstarfi við sérstaka ráðgjafa og/eða verkefnastjóra.
Hanna Borg Jónsdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri farsældar á höfuðborgarsvæðinu.
SSH og mennta- og barnamálaráðuneytið hafa gert samning um verkefnastjórn vegna stofnunar svæðisbundis farsældaráðs á höfuðborgarsvæðinu.
Fjölbreyttar leiðir til að draga úr förgun textíls og flutningi úr landi.
Aðalfundur SSH var haldinn 1. nóvember sl. í Hlégarði Mosfellsbæ og var fyrir utan hefðbundin aðalfundastörf helgaður vinnu við að móta nýja sókanaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið.
Sóknaráætlun 2020 - 2024
Skýrsla Capasent 2019
Inngangur
Þann 12. nóvember 2019 var undirritaður samningur milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024.
Markmið samningsins er að stuðla að jákvæðri byggðaþróun í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, treysta stoðir menningar og að auka samkeppnishæfni landshluta og landsins alls. Samningurinn tekur mið af þingsályktun um stefnumótandi byggðaáætlun, menningarstefnu og annarri stefnu ríkisins eftir því sem við á. Markmiðið er jafnframt að einfalda samskipti ríkis og sveitarfélaga og tryggja gagnsæi við úthlutun og umsýslu opinberra fjármuna. Sóknaráætlun miðar að því að ráðstöfun þeirra fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á svæðisbundnum áherslum og markmiðum sem fram koma í sóknaráætlun landshlutans. Í þessu felst að forgangsröðun verkefna taki mið af sóknaráætlun landshlutans sem gerð er til fimm ára. Hægt er að uppfæra áætlunina innan tímabilsins.
Sóknaráætlun er stefnuskjal sem felur í sér stöðumat höfuðborgarsvæðisins, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum. Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 tekur mið af þeirri stefnu og framtíðarsýn sem kemur fram í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040.
Í júlí 2019 hófst samtal um vinnu við mótun sóknaráætlunar 2020-2024 fyrir höfuðborgarsvæðið á vegum samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). SSH réð ráðgjafa Capacent í verkið og hélt Capacent utan um vinnuferlið og samráðsfundi sem haldnir voru vegna verkefnisins.
Unnið var að mótun stefnunnar með því að eiga samráð við kjörna fulltrúa og aðra hagaðila innan höfuðborgarsvæðisins til þess að fá fram sjónarmið þeirra um Sóknaráætlunina og tengja áætlunina með markvissum hætti við ákvörðun áhersluverkefna og svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Afurð þessarar vinnu er Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024.
Samráðið við mótun Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins átti sér stað í þremur fösum. Í byrjun nóvember var haldinn vinnufundur með sérfræðingum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og þar unnið með möguleg verkefni og markmið innan þriggja meginflokka: Atvinnu og nýsköpun, Velferð og samfélag og Umhverfis- og samgöngumál. Í lok nóvember var efnt til vinnufundar með kjörnum fulltrúum og hagsmunaðilum þar sem unnið var með stöðu og vilja ásamt áframhaldandi forgangsröðun verkefna, áherslna og markmiða innan fyrrnefndra þriggja málaflokka. Að lokum var opnað á samráð við alla íbúa um drög nýrrar sóknaráætlunar í gegnum samráðsgátt stjórnvalda á vefnum. Vinnuferlið má sjá myndrænt á næstu síðu.
Stýrihópur sóknaráætlunar
Höfuðborgarsvæðið - Staða landshlutans
. 228.231 íbúar
. 7 sveitarfélög
. 218 íbúar per km2
Svæði sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins nær yfir sveitarfélögin Reykjavíkurborg, Seltjarnarnes, Kópavogsbæ, Garðabæ, Hafnarfjörð, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp.
Í byrjun árs 2019 bjuggu ríflega 228.000 manns á höfuðborgarsvæðinu eða um 64% íbúa landsins. Flestir íbúanna búa í Reykjavík eða um 128.793, en 238 í Kjósarhreppi sem er fámennasta sveitarfélagið í landshlutanum.
Reykjavík og höfuðborgarsvæðið er og hefur verið síðan á 19. öld miðstöð verslunar, stjórnsýslu og þjónustu í landinu og vaxið alla 20. og 21. öldina.
Íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu var 39% á móti 31% á landinu öllu tímabilið 1998-2019 sem þýðir að íbúum höfuðborgarsvæðisins sem hlutfall af íbúum landsins í heild hækkaði úr 60,5% í tæp 64% á tímabilinu.
Flutningsjöfnuður höfuðborgarsvæðisins í heild hefur verið jákvæður allt tímabilið 1998-2018 er frá eru skilin árin 2009-2011. Jákvæðastur var flutningsjöfnuðurinn á árunum 2006 og 2007 og svo aftur 2017 og 2018 en þessi tvö ár fjölgaði um ríflega 4.000 íbúa hvort ár. Flutningsjöfnuður hefur verið jákvæður í öllum sveitarfélögum á svæðinu að Seltjarnarnesi frátöldu.
Kynjaskipting hefur verið tiltölulega jöfn á höfuðborgarsvæðinu undanfarin 20 ár.
Á tímabilinu 1998 til 2019 fjölgaði erlendum ríkisborgurum mikið og fóru úr því að vera 1,3-2,3% árið 1998 upp í það að vera allt að 14,3% í Reykjavík árið 2019. Árið 2019 var hlutfallið í Kópavogi og Hafnarfirði um 10-11%, um 8% í Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi en lægst í Garðabæ um 4%.
Tekjur á mann, ef tekið er mið af útvarstofni, atvinnutekjum og fjármagnstekjum, eru yfir landsmeðaltali hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins.
Atvinnuþátttaka á höfuðborgarsvæðinu á 3. ársfjórðungi ársins 2019 fyrir aldurshópnum 16-64 ára var um 89,2% hjá körlum og um 85,3% hjá konum, utan höfuðborgarsvæðisins var atvinnuþátttaka karla hærri eða um 90,7% en lægri hjá konum eða um 83,1%.
Atvinnuleysi hefur aukist nokkuð á árinu 2019 og var um 3,9% í október 2019. Atvinnuleysi á höfuðborgarsvæðinu er nokkuð hærra en á landsbyggðinni en það var um 3,2% í október 2019.
Framtíðarsýn
Framtíðarsýn er lýsing í hnitmiðuðu máli á því hvernig íbúar sjá landshlutann fyrir sér í framtíðinni. Framtíðarsýnin dregur upp mynd af eftirsóknarverðri stöðu sem ætlunin er að ná og hverju íbúar óska að hafa áorkað eftir tiltekinn tíma. Sóknaráætlun er einn liður í því að ná þeirri framtíðarsýn sem að er stefnt en framtíðarsýn sóknaráætlunarinnar tekur mið af svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og markar stefnu sveitarfélaganna um þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040.
Höfuðborgarsvæðið býður upp á fjölbreytt atvinnulíf sem byggt er á hugviti og hagnýtingu þess. Styrkar stoðir verðmætasköpunar standa undir lífskjörum sem eru á borð við þau bestu í heiminum. Rannsóknastofnanir á svæðinu eru í fremstu röð og leggja grunn að frjórri nýsköpun á fjölmörgum sviðum. Höfuðborgarsvæðið er nútímalegt borgarsamfélag sem í senn er alþjóðlegt og með skýr sérkenni. Höfuðborgarsvæðið laðar að sér fólk hvaðanæva að sem vill búa og starfa þar um lengri eða skemmri tíma eða njóta þess sem gestir.
Leiðarljós svæðiskipulags höfuðborgarsvæðisins
1. Vaxtarmörk marka skýr skil milli þéttbýlis og dreifbýlis. Nýrri byggð verður fyrst og fremst beint á miðkjarna og samgöngumiðuð þróunarsvæði. Samgöngu- og þróunarásar tengja sveitarfélögin saman og leggja grunn að nútíma almenningssamgöngum.
2. Ferðaþörf verður uppfyllt á skilvirkan og fjölbreyttan máta. Fólksfjölgun verður mætt án þess að álag á stofnvegakerfið aukist í sama hlutfalli.
3. Höfuðborgarsvæðið býður upp á eftirsóknarvert umhverfi fyrir fólk, fyrirtæki og fjárfestingar. Kjarnar með nútíma samgöngum skapa möguleika á spennandi uppbyggingu fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi um alla borgarbyggðina.
4. Vefur útivistarsvæða gefur fólki kost á reglulegri hreyfingu í daglegum athöfnum og endurnæringu í frítíma. Grænir geirar draga fram sérkenni landslags og tengja bláþráð strandlengjunnar og Grænan trefil í jaðri borgarbyggðar.
5. Markviss uppbygging þjónustukjarna og nútíma almenningssamgöngukerfis eykur gæði nærumhverfis og bætir þjónustustig í almennri borgarbyggð. Góð almenningsrými hvetja íbúa til aukinnar útiveru og stuðla að bættri lýðheilsu. Fjölbreyttur húsnæðismarkaður stuðlar að félagslegri fjölbreytni.
6. Sveitarfélögin eiga í nánu samstarfi og styðja við framfylgd á stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 til að tryggja sjálfbæran vöxt og hagkvæma byggðaþróun.
Heimsmarkmið
Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru gerð með það markmið að leiða til betra lífs, lífsskilyrða og umhverfis árið 2030. Ísland er eitt þeirra aðildarríkja sem hefur samþykkt að vinna að heimsmarkmiðunum og hefur ríkisstjórnin forgangsraðað þeim sérstaklega.
Við gerð sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 var tekið mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og einstök markmið og áherslur tengdar við tilheyrandi heimsmarkmið.