3.1 Alþjóðleg samkeppnisstaða höfuðborgarsvæðisins
Samkeppnisstaða verður styrkt með markvissu skipulagi sem samþættir skilvirkar samgöngur og eftirsóknarverð uppbyggingarsvæði
Til að atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu blómstri verður að tryggja að samgöngur stuðli áfram að nálægð við erlenda markaði og að landnotkun uppfylli þarfir ólíkrar atvinnustarfsemi. Bjóða þarf fyrirtækjum upp á eftirsóknarverða staðsetningarkosti á kjörnum eða samgöngu- og þróunarási þar sem Borgarlína, nýtt hágæðakerfi almenningssamgangna, einfaldar ferðalög fólks um höfuðborgarsvæðið. Ferðaþjónusta mun njóta góðs af uppbyggingu við samgöngu- og þróunarás og dreifa úr álagi við uppbyggingu gistirýmis og annarrar aðstöðu sem hefur hingað til mikið einskorðast við miðborg Reykjavíkur.
Miðstöð þekkingar og nýsköpunar með markvissri klasauppbyggingu vísinda- og tæknigarða nálægt tveimur stærstu háskólum landsins. Háskólasjúkrahús mun styrkja samkeppnisstöðu höfuðborgarsvæðisins og auka hlutdeild þekkingargreina í hagkerfinu. Sundahöfn er megin vöruflutningahöfn höfuðborgarsvæðisins og landsins alls. Hún er megingátt vöruflutninga til og frá Íslandi og hefur mikilvægt hlutverk í vörudreifingu fyrir höfuðborgina og landið allt. Tryggja verður að sjávarútvegur geti þróast áfram sem grunnatvinnugrein með því að festa í sessi hlutverk fiskihafna og ýta undir nýsköpun sem tengist greininni.
Nauðsynlegt er að starfsemi sem ýtir undir fjölbreytta verslun og þjónustu sé beint inn á kjarna og samgöngumiðuð þróunarsvæði. Þetta á einkum við stærri verslanir sem draga til sín aðra uppbyggingu. Þessar verslanir geta aðlagað sig þeim kröfum sem gerðar eru til kjarna sbr. töflu 2. Sé talin brýn þörf á uppbyggingu verslunarmiðstöðva (e. mall) og verslunarsamstæðna sem ekki falla undir viðmið kjarna skal hún rökstudd, sbr. töflu 3. Beina skal slíkri uppbyggingu á svæði sem eru vel tengd við stofnvegi og þar sem slík uppbygging getur fallið vel að umhverfinu.
Á höfuðborgarsvæðinu er svæði fyrir orkufrekan iðnað sem tengist grunnneti flutningslína raforku. Nýta þarf slík svæði til að skjóta sterkari stoðum undir samkeppnishæfni svæðisins án þess þó að gengið sé á umhverfisgæði. Stefnt er að því að háspennulínum innan höfuðborgarsvæðisins verði ekki fjölgað og frekar horft til þess að leggja háspennustrengi í jörðu eða auka flutningsgetu núverandi háspennulína með hærri spennu.
Við útfærslur miðstöðvar þekkingar og nýsköpunar, hafna í grunnneti, orkufreks iðnaðar, háspennulína, verslunarmiðstöðva og verslunarsamstæðna í aðalskipulögum sveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.
Kort 5 -Atvinnusvæði og miðkjarnar
Aðgerðir tengdar markmiði
Svæðisskipulagsnefnd og SSH
3.1.1 Svæðisskipulagsnefnd leiðbeinir sveitarfélögum við innleiðingu stefnumiða sem bæta munu samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins s.s. nútímalega uppbyggingu á kjörnum og tengingu við vistvæna samgöngumáta.
3.1.2 SSH viðheldur upplýsingum um dreifingu starfa og öðrum hagtölum sem tengjast þekkingargreinum, nýsköpun og ferðaþjónustu og gera aðgengilegar.
3.1.3 Svæðisskipulagsnefnd leitar leiða með samtökum atvinnulífsins til að kortleggja dreifingu og framboð verslunarhúsnæðis og annars atvinnuhúsnæðis og vinna spár um framtíðarþörf.
3.1.4 Í framsetningu fjögurra ára þróunaráætlana verði m.a. horft til atvinnuuppbyggingar í kjörnum og öðrum samgöngumiðuðum þróunarsvæðum.
3.1.5 SHH stuðlar að aukinni samvinnu við háskóla, háskólasjúkrahús og aðra þekkingargeira um uppbyggingu nýrrar þekkingarmiðstöðvar.
Sveitarfélög og byggðasamlög
3.1.6 Sveitarfélögin hafi til hliðsjónar að við uppbyggingu kjarna verði mótað umhverfi sem laðar að nýjar fjárfestingar.
3.1.7 Sveitarfélög tryggja að fiskvinnsla og önnur hafnsækin starfsemi hafi nægt landrými við helstu fiskihafnir. Óskyldri starfsemi verði beint á samgöngu- og þróunarás eftir því sem við á.
3.1.8 Sveitarfélögin marka stefnu um uppbyggingu gistirýmis og annarrar aðstöðu fyrir ferðaþjónustu.
3.1.9 Strætó bs. vinnur að því að umgjörð almenningssamgangna verði notendavæn fyrir erlenda ferðamenn og ýti þannig undir dreifingu ferðaþjónustu um höfuðborgarsvæðið
Aðkoma og aðgerðir annarra
3.1.10 Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Landspítalinn Háskólasjúkrahús vinni með sveitarfélögunum og SSH að markvissri uppbyggingu þekkingarmiðstöðvar og höfuðborgarsvæðisins sem háskólaborg.