Leiðarljós 5 úr svæðisskipulagi
Gott nærumhverfi eykur gæði borgarbyggðar
Markviss uppbygging þjónustukjarna og nútíma almenningssamgöngukerfis eykur gæði nærumhverfis og bætir þjónustustig í almennri borgarbyggð. Góð almenningsrými hvetja íbúa til aukinnar útiveru og stuðla að bættri lýðheilsu. Fjölbreyttur húsnæðismarkaður stuðlar að félagslegri fjölbreytni.
Fjölbreytileiki höfuðborgarsvæðisins er mikils virði og æskilegt er að sveitarfélögin skapi sér mismunandi hlutverk til að styrkja heildarmynd höfuðborgarsvæðisins. Undanfarin ár hefur dregið úr þjónustu í þeim hluta borgarbyggðar sem er í úthverfum, fjarri kjörnum. Mikilvægt er að tryggja að allir íbúar geti gengið að ákveðnum gæðum vísum í sínu nærumhverfi. Þau gæði geta þó aldrei verið þau sömu alls staðar, enda er eðli borgarbyggðar að bjóða upp á margbreytilegt umhverfi sem höfðar til ólíkra þarfa íbúa (Fylgirit 7).
Megináhersla í Höfuðborgarsvæðinu 2040 er að stuðla að markvissri uppbyggingu þjónustukjarna sem tengdir eru saman með nútíma almenningssamgöngukerfi. Þessi áhersla leiðir einnig til betra aðgengis þeirra sem búa í dreifðri byggð í úthverfum að þjónustu í hverfiseiningum. Höfuðborgarsvæið er á norðlægri breiddargráðu þar sem sól er lágt á lofti og sterkir vindar blása. Mikilvægt er að þróun byggðar og almenningrýma dragi úr neikvæðum veðuráhrifum og stuðli að góðu aðgengi að sólríkum og skjólsælum svæðum (Fylgirit 7).
Á skipulagstímabilinu er gert ráð fyrir miklum breytingum í aldurssamsetningu og fjölskylduformi íbúa. Fjölgun í eldri aldurshópnum verður mjög mikil og heimilum með börn mun fækka. Þessar breytingar munu hafa áhrif á byggðaþróun og auka eftirspurn eftir minna og hentugra húsnæði fyrir eldri borgara og þá sem hyggjast hefja búskap. Þannig mun framboð af sérbýli og stærri eignum aukast að einhverju leyti sjálfkrafa (Fylgirit 7).