2.1 Á höfuðborgarsvæðinu verður raunhæft val um skilvirka samgöngumáta
Nútímalegt skipulag samgangna snýst um að uppfylla ferðaþörf fólks óháð ferðamáta. Því þurfa hið opinbera, sveitarfélög og ríki að horfa heildstætt á alla ferðamáta í skipulagi
og fjármögnun samgangna. Við uppbyggingu samgöngukerfisins þarf verklag að vera með þeim hætti að ávallt sé leitað hagkvæmustu lausna til að ná settum markmiðum. Í þéttri byggð getur verið erfitt og dýrt að stytta ferðatíma og draga úr umferðartöfum með uppbyggingu mannvirkja. Reynslan hefur sýnt að ólíklegt er að hefðbundnar lausnir í vegagerð geti uppfyllt ferðaþörf íbúa á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar á hagkvæman hátt (Fylgirit 5). Ljóst er að leita þarf víðtækari lausna.
Skilvirkni þéttbýlissamgangna felst í að uppfylla ferðaþarfir fólks með sem minnstum tilkostnaði og umhverfisáhrifum. Skilvirknin grundvallast á samþættingu samgangna og byggðaþróunar og eflingu hagkvæmra og vistvænna samgangna. Byggðaþróun samofin góðu samgöngukerfi er því kjarninn í stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 og þeirri áherslu að fyrirsjáanlegri fólksfjölgun verði mætt án þess að álag á stofnvegakerfið aukist í sama hlutfalli. Þróun síðustu áratugavarpar ljósi á þá víxlverkandi þætti sem eiga sér stað milli samgangna og byggðaþróunar á höfuðborgarsvæðinu og undirstrikar jafnframt nauðsyn þess að þróun til framtíðar sé grundvölluð á fleiri þáttum en öflugu kerfi fyrir bílaumferð.
Hlutdeild skilvirkra samgangna eykst ef meginþunga vaxtar er beint að kjörnum og á samgöngumiðuð þróunarsvæði. Með því styttast ferðir fólks og ferðatími við daglegar athafnir og stutt er við aukið framboð á nærþjónustu. Stóraukin áhersla á hagkvæmar og vistvænar samgöngur styður við breytt ferðamátaval og samgönguvalkosti sem aftur skapa
betri grundvöll fyrir þéttingu byggðar. Í kjörnum og á samgöngumiðuðum þróunarsvæðum er í skipulagi lögð áhersla á að fólk geti farið erinda sinna innan hverfis gangandi eða hjólandi og að stór hluti þeirra ferða sem farnar eru að/frá hverfinu verði með almenningssamgöngum. Þannig eru gæði byggðar hvað varðar umferðaröryggi, hljóðvist og loftgæði aukin. Um leið minnkar orkuþörf samgangna, notkun jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda.
Stefnt er að því að finna miðstöð innanlandsflugs í Vatnsmýri annan stað. Með samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar haustið 2013 var innanlandsflugvelli í Vatnsmýri tryggður sess í skipulagi til ársins 2022. Þessir aðilar ásamt Icelandair Group standa að fullkönnun á kostum til rekstrar innanlandsflugs á höfuðborgarsvæðinu. Í framhaldinu þarf að taka ákvörðun um framtíðarstaðsetningu flugvallar. Þegar niðurstaða liggur fyrir verður hún bundin í svæðisskipulagi.
Við útfærslur miðstöðvar innanlandsflugs í aðalskipulögumsveitarfélaga skal taka mið af töflu 3 um málsmeðferð í 4. kafla.
Aðgerðir tengdar markmiði
Svæðisskipulagsnefnd og SSH
2.1.1 SSH, sveitarfélögin og ríkið kanni hvort skynsamlegt sé að halda áfram á þeirri leið að færa verkefni sem tengjast samgöngum yfir til landshlutasamtaka sveitarfélaga. Leggja þarf sérstakt mat á hvort hagkvæmt sé fyrir samfélagið allt að verkefni Vegagerðarinnar innan þéttbýlis á höfuðborgarsvæðinu verði færð til SSH.
2.1.2 Svæðisskipulagsnefnd setur fram samræmdar leiðbeiningar um samgöngumiðaða byggðaþróun sem hafa á til viðmiðunar í miðkjörnum og á völdum svæðum. Þar verða
m.a. sett fram viðmið um þéttleika byggðar, aðgengi að almenningssamgöngum og bílastæðafjölda og aðrar aðgerðir sem ýta undir vistvænar samgöngur.
2.1.3 Svæðisskipulagsnefnd setur fram fjögurra ára þróunaráætlun í samvinnu við sveitarfélögin þar sem fjallað er um uppbyggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, uppbyggingu og rekstur samgangna á tímabilinu o.fl. Við vinnslu þróunaráætlana verða unnar mannfjöldaspár, greiningar á núverandi stöðu samgangna, umferðarspár og spár um þróun almenningssamgangna til forgangsröðunar aðgerða á tímabilinu. Þróunaráætlanir verða gerðar með hliðsjón
af viðmiðum í töflu 1 og 2 og eiga að samræmast stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040 og þeim aðgerðum og viðmiðum sem þar koma fram.
2.1.4 SSH viðheldur, í samvinnu við sveitarfélögin, Strætó bs. og Vegagerðina, virkum gagnagrunni með lykilupplýsingum um bílaumferð, farþegafjölda almenningssamgangna og ferðavenjur og flæði fólks milli heimilis og vinnu.
2.1.5 Svæðisskipulagsnefnd festir staðsetningu á innanlandsflugvelli í svæðisskipulag þegar ákvörðun um framtíðarstaðsetningu liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að það verði eigi síðar en í lok árs 2018.
2.1.6 SSH vinnur að því að ríkisframlag í vélknúnar samgöngur á höfuðborgarsvæðinu taki í auknum mæli mið af þeim tekjum sem ríkið hefur af samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.
Sveitarfélög og byggðasamlög
2.1.7 Í skipulagi samgangna leitast sveitarfélögin við að uppfylla ferðaþörf fólks með sem hagkvæmustum hætti, óháð ferðamáta. Sveitarfélögin vinna að því að litið verði heildstætt á samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með því að grunnkerfi almenningssamgangna og hjólreiða fái sambærilega stöðu og stofnvegakerfið og fjármagn í stofnframkvæmdir, viðhald og rekstur í áætlunum ríkisins. Með heildstæðri sýn hins opinbera á fjármagn til samgangna verði stuðlað að því að hagkvæmasta leiðin að markmiðum hverju sinni verði valin.
2.1.8 Sveitarfélögin innleiða markmið 2.1 í aðalskipulagsáætlanir sínar og útfæra þar landnotkun og skipulagsaðgerðir sem styðja almenningssamgöngur og virka ferðamáta, stytta vegalengdir og draga úr þörf á vélknúnum ökutækjum.
2.1.9 Sveitarfélögin beina meginþunga uppbyggingar að samgöngu- og þróunarási sbr. markmið 1.2, eftir því sem hann myndast, og vinna skipulagsáætlanir í samræmi við leiðbeiningar um samgöngumiðuð þróunarsvæði, til að:
• Tryggja að fyrirsjáanlegri fólksfjölgun verði mætt án þess að álag á stofnvegakerfið aukist í sama hlutfalli.
• Tryggja góðan farþegagrunn og góða nýtingu bæði hágæðakerfis og strætisvagnakerfis.
2.1.10 Sveitarfélögin og byggðasamlög taka upp vistvæna samgöngustefnu með samgöngustyrkjum fyrir starfsfólk sitt.
2.1.11 Sveitarfélögin og byggðasamlög leitast við að hraða innleiðingu vistvænnar orku í samgöngur með því að mæta þörfum nýrra orkugjafa í aðal- og deiliskipulagsáætlunum, með vistvænum innkaupum á farartækjum og þjónustu og öðrum hagkvæmum leiðum.
Aðkoma og aðgerðir annarra
2.1.12 Ríkið vinni að því að samþætta samgönguáætlun við aðra áætlanagerð og opinbera stefnumótun. Ríkið taki mið af stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040, verði samráðsaðili við gerð fjögurra ára þróunaráætlunar sveitarfélaganna og taki mið af þeim við forgangsröðun fjármagns í reglubundinni endurskoðun samgönguáætlunar hverju sinni.
2.1.13 Ríkið leggi áherslu á að leita hagkvæmustu lausna til að ná markmiðum samgönguyfirvalda og horfi á samgöngukerfið sem eina heild. Nýir innviðir verði skipulagðir og forgangsraðað með hliðsjón af félagshagfræðilegri greiningu. Ríkið styðji við aðgerðir sem stuðla að breyttum ferðavenjum til að draga úr þörf á uppbyggingu umferðarmannvirkja á höfuðborgarsvæðinu.
2.1.14 Vegagerðin og samgönguyfirvöld vinni áætlun um sjálfbærar samgöngur í samvinnu við sveitarfélög með aukinni áherslu á almenningssamgöngur, göngu og hjólreiðar með þau markmið að leiðarljósi að draga úr umhverfisáhrifum, samgöngukostnaði og auka nærþjónustu við borgarana. Með áætluninni verði dregið úr mikilvægi einkabíla, ásamt því að draga úr orkuþörf samgangna og breyta ferðavenjum. Í sjálfbærri samgönguáætlun verði settar fram skuldbindingar ríkis og sveitarfélaga til langs tíma.
2.1.15 Ríkið og stofnanir þess taki upp vistvæna samgöngustefnu með samgöngustyrkjum og stjórnvöld vinni með fyrirtækjum og stofnunum að því að móta og útfæra markvissa samgöngustefnu fyrir vinnustaði.
2.1.16 Vegagerðin ásamt svæðisskipulagsnefnd, sjái um framkvæmd reglulegrar könnunar á ferðavenjum íbúa
höfuðborgarsvæðisins og SV–hornsins í tengslum við gerð stefnumótandi samgönguáætlunar og mat á framfylgd
stefnu Höfuðborgarsvæðisins 2040. Að hámarki líði fjögur ár á milli ferðavenjukannana. Vegagerðin viðhaldi, í samvinnu við sveitarfélögin og Strætó bs., virkum gagnagrunni með lykilupplýsingum um bílaumferð, farþegafjölda almenningssamgangna og ferðavenjur og flæði fólks milli heimilis og vinnu.
2.1.17 Ríkið og sveitarfélögin nái samkomulagi um framtíðarstaðsetningu innanlandsflugvallar á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstaðan skili sér í landsskipulagsstefnu og samgönguáætlun.