Fara í efni

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins

Starfssvæði SHS nær til sveitarfélaganna sjö sem standa sameiginlega að rekstri liðsins. Þau eru Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Álftanes. Liðið veitir þjónustu við Kjósarhrepp samkvæmt samningi og hefur skyldur um aðstoð við nærliggjandi sveitarfélög samkvæmt starfssamningum. Starfssvæðið nær frá Hvalfjarðarbotni í norðri, til Straumsvíkur í suðri og Bláfjallasvæðisins í austri. Íbúar á starfssvæðinu voru rösklega 190 þúsund í ársbyrjun 2007 eða nálægt 65% landsmanna.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins sér um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt samningi við heilbrigðisráðuneytið og hefur gert árum saman. Hjá SHS er lagður mikill metnaður í menntun, endurmenntun sjúkraflutningamanna og hefur sjúkraflutningamönnum með bráðatæknimenntun fjölgað jafnt og þétt.

Einnig er samningur í gildi milli Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs. og Faxaflóahafna sf. um aðgerðir vegna hugsanlegra mengunaróhappa á hafnarsvæði Faxaflóahafna sf. Í samningnum felst að slökkviliðið fer með stjórnun aðgerða þegar mengunaróhöpp verða. Búnaður Faxaflóahafna sf. sem ætlaður er til nota í mengunarslysum verður í vörslu slökkviliðsins auk þess sem slökkviliðið mun annast undirbúning og skipulagningu nauðsynlegra æfinga.

Starfsmenn SHS eru tæplega tvö hundruð.