Hönnun fyrir alla
Algild hönnun utandyra
Hönnun fyrir alla ? algild hönnun utandyra, er leiðbeiningarit sem unnið er fyrir Vegagerðina og Reykjavíkurborg af Áslaugu Katrínu Aðalsteinsdóttur og Berglindi Hallgrímsdóttur hjá Verkís. Þær hlutu styrk úr rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar til að vinna leiðbeiningarnar.
Hönnun gönguleiða þarf að miða að því að leiðin sé greiðfær fyrir alla hópa. Huga að samfelldni og gæðum leiða sem og þéttleika göngu- og hjólastíganetsins.
Leiðbeiningunum er ætlað að kynna helstu þætti sem þarf að hafa í huga þegar svæði utandyra eru hönnuð svo þau nýtist sem allra flestum. Hönnun fyrir alla, algild hönnun og aðgengi fyrir alla, eru hugtök sem sífellt fleiri þekkja og samtímis eykst vitund fólks um mikilvægi þess að hafa alla í huga við skipulag, hönnun og útfærslu hugmynda.
Lög og reglur sem gilda um opinberar byggingar og aðgengi að þeim meðal annars frá bílastæðum að inngangi er þekkt. Mun fleiri þætti þarf þó að hafa í huga og í leiðbeiningunum er sérstök áhersla lögð á hönnun utandyra, m.a. í tengslum við stíga og torg, almenningssamgöngur og aðgengi að mannvirkjum, stofnunum og þjónustu. Áherslan er á eignir í opinberri eigu en ekki einkaeignir, þó vissulega megi nýta leiðbeiningarnar fyrir lóðir í einkaeign.
Markmiðið með útgáfu leiðbeininganna er að samræma og auðvelda hönnun, skipulagningu og útfærslu mannvirkja utanhúss svo að sem flestir hafi möguleika á því að ferðast um án aðstoðar. Samræming á milli sveitarfélaga getur auðveldað fólki að ferðast á milli staða.