Umfjöllun um tillögur að aðgerðum er skipt eftir losunarflokkum í kolefnisbókhaldi höfuðborgarsvæðisins 2022. Sjónum er beint að því hvaða svið sveitarfélaga koma að málum í hverjum flokki og með hvaða hætti aðgerðir sveitarfélaga geta dregið úr losun samfélagsins.
5.1 Vegasamgöngur
![](/static/files/_blob/u7ndh2iv97khi4w2vp9l8g.png)
Vegasamgöngur eru stærsti losunarflokkurinn sem sveitarfélögin geta haft áhrif á. Þar undir falla allar ferðir innan höfuðborgarsvæðisins, fólksbílaumferð íbúa og gesta, vöruflutningar, almenningssamgöngur og svo framvegis. Aðgerðir til að draga úr losun eru fjölbreyttar og þurfa sumar að vinnast í samstarfi sveitarfélaganna á svæðinu en aðrar getur hvert og eitt sveitarfélag unnið innan eigin stjórnsýslu.
Orkuskipti í vegasamgöngum hafa þegar dregið úr losun um 7% frá 2019 til 2022. Vegna heimsfaraldursins dró úr umferð á þessu tímabili og bætti svo í aftur, þannig að heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu árið 2022 var um það bil sá sami og 2019. Síðan þá hefur umferð haldið áfram að aukast eins og raunin var fyrir faraldurinn. Ef umferð heldur áfram að aukast, munu orkuskipti í samgöngum litlu skila. Til að draga úr losun frá vegsamgöngum þarf að grípa til frekari aðgerða.
Mikilvægasta framlag sveitarfélaganna er að haga landnotkun og skipulagi þannig að dragi úr ferðaþörf og aðrir valkostir en einkabíllinn séu freistandi og raunhæfir. Lykilþættir eru skipulagsmál, innviðir fyrir virka ferðamáta og þjónusta almenningssamgangna.
Skipulagsmálin eiga hér stærstan hlut að máli. Nýútgefnar leiðbeiningar Mannlíf, byggð og bæjarrými gefa greinargóðar leiðbeiningar og skýringarmyndir sem einfalda sveitarfélögum að hafa áhrif á ferðavenjur íbúa og þar með losun frá samgöngum. Mikilvægast er að stytta fjarlægðir í borginni, halda aftur af þenslu á jöðrum borgarsvæðisins og beina vexti að samgönguásum. Aðgengi að bílastæðum og kostnaður við einkabílinn eru einnig tvær lykilbreytur. Breytt gjaldtaka og fækkun bílastæða hvetur fólk til að íhuga aðra ferðamáta. Í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir að veggjöld geti staðið undir hluta af fjármögnun sáttmálans. Víða í Evrópu hafa slík veggjöld haft mikil áhrif á ferðavenjur. Hins vegar er einnig mikilvægt að hanna slíka gjaldtöku þannig að umskiptin bitni sem minnst á efnalitlum og viðkvæmum hópum.
Innviðir fyrir virka ferðamáta og þjónusta/tíðni almenningssamgangna eru verkefni sem sveitarfélögin hafa mikil áhrif á. Fyrirætlanir um Borgarlínu eru metnaðarfyllstu áform um uppbyggingu slíkra innviða frá upphafi vega hér á landi sem geta haft afgerandi áhrif á samdrátt í losun. Þeim mun fyrr sem þjónusta kemst í notkun munu sveitarfélögin uppskera ábata þess í formi minni losunar. Þar til Borgarlínan er komin í gagnið, mætti endurskoða fyrirliggjandi þjónustu almenningssamgangna til að þær verði raunhæfur valkostur við einkabílinn. Markmiðið mætti vera að almenningssamgöngur geti uppfyllt flestar bílferðir í daglegu lífi íbúa og gesta.
Bætt net hjólastíga, göngustíga og aðgengi að deililausnum í samgöngum eru lykilþáttur til að þjónusta virka ferðamáta. Aukið framboð af tækjum fyrir virka ferðamáta, eins og rafhjól og hlaupahjól, gera fleirum kleift að ferðast með virkum ferðamátum. Sveitarfélög geta stutt við þessa þróun með því að tryggja góðar og öruggar tengingar milli hverfa.
Í eigin rekstri geta sveitarfélögin tekið þátt í orkuskiptum og skipt út bifreiðum í þeirra eigu sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Með skipulagsákvörðunum geta sveitarfélögin staðsett starfsstöðvar sínar, stofnanir og þjónustu við samgönguása og tryggt gott aðgengi fyrir gangandi og hjólandi. Hvetja má starfsfólk til að nýta virka ferðamáta með aðgengi að öruggu skjóli fyrir farartækin og nýta fjarfundi til að draga úr ferðaþörf starfsfólks. Þá má marka stefnu um ferðalög starfsfólk sveitarfélagsins til og frá vinnu og umbuna þeim sem nýta sér vistvæna ferðamáta.
Í atvinnugreinum þar sem sveitarfélög hafa aðkomu og geta þau unnið að hagkvæmari lausnum sem minnka akstursþörf. Sem dæmi má spara talsverðan þungaakstur með því að endurnýta jarðefni innan höfuðborgarsvæðisins. Hér þarf margt að ganga upp og margir að vinna saman, þar með talið sveitarfélög, aðrir opinberir innkaupaaðilar og verktakar. Mikilvægasta framlag sveitarfélaganna gæti verið að tryggja stað og aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu þar sem hægt er að geyma, flokka og þrífa jarðefni, til þess að tryggja hringás jarðefna og að framkvæmdaaðilar hafi aðgang að góðum jarðefnum. Einnig þurfa sveitarfélög að vinna með öðrum opinberum aðilum að því að tryggja eftirspurn eftir hringrásarefnum, með því að setja kröfu um þau í útboðum.
Tillögur að aðgerðum til nánari skoðunar:
Skipulag sem fækkar bílferðum
- Beina uppbyggingu og þétta byggð, atvinnu og þjónustu við samgönguása og þróunarsvæði þar sem tíðni almenningssamgangna er góð.
- Fylgja leiðbeiningum um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli.
- Meta hvar hægt er að fækka bílastæðum pr. íbúð eða vinnustað í skipulagi.
- Innleiða bílastæðastýringu við umferðarskapandi starfsemi þ.á.m. gjaldskyldu á álagstímum.
Auka hlut virkra ferðamáta og almenningssamgangna
- Uppbygging innviða fyrir almenningssamgöngur og Borgarlínu.
- Fylgja eftir hugmyndum um veggjöld í samræmi við samgöngusáttmála
- Leggja þéttriðið net göngu- og hjólastíga óháð sveitarfélagamörkum. Tryggja örugga heilsársþjónustu og viðhald.
- Aukin og markviss þjónusta almenningssamgangna. Skipuleggja leiðakerfi þannig að almenningssamgöngur geti komið í staðinn fyrir sem flestar bílferðir.
- Bæta aðgengi að deililausnum í samgöngum.
- Staðsetja vinnustaði og þjónustustaði sveitarfélagsins nærri samgönguásum og tryggja gott aðgengi fyrir gangandi og hjólandi.
- Styðja við / umbuna starfsfólki sem nýtir vistvæna ferðamáta.
Minni akstur með jarðefni
- Tryggja lóð og aðstöðu á höfuðborgarsvæðinu fyrir hringrás jarðefna, geymslu, flokkun og þrif.
- Vinna með öðrum opinberum aðilum til að þróa kröfur um endurnotkun jarðefna í útboðum fyrir opinberar framkvæmdir.
5.2 Staðbundinn orkunotkun
![](/static/files/_blob/6skmvfoe61o8y1wp1bpsj.png)
Undir staðbundna orkunotkun fellur raforkunotkun, hitaveita, eldsneytisnotkun vinnuvéla, dráttarvéla og framleiðsluvéla ýmiss konar. Að auki er olíunotkun fiskiskipa í þessum flokki. Vinna má að losunarfríum byggingarstöðum í framkvæmdum á vegum sveitarfélaganna og draga lærdóm frá fordæmum á Norðurlöndunum. Sífellt meira framboð er af vinnuvélum sem ganga fyrir
Af þessum þáttum geta sveitarfélögin helst haft áhrif á eldsneytisnotkun og kolefnisspor í byggingariðnaði og framkvæmdum.
rafmagni og til að tryggja notkun þeirra í verkum á vegum sveitarfélaga þarf að gera ráð fyrir því í útboðsgögnum. Sveitarfélögin geta tekið sig saman og gefið út yfirlýsingu um kröfur sem gerðar verði eftir tiltekinn tíma sem gefur verktökum fyrirsjáanleika til að útvega slík tæki. Að auki þarf að hafa samstarf við rafmagnsveitur um að veita nægilegt aðgengi að rafmagni við framkvæmdastaði.
Sveitarfélögin geta umhverfisvottað eigin framkvæmdir, t.d. nýbyggingar eða endurbætur á skólum og hjúkrunarheimilum. Mest reynsla er af norræna umhverfismerkinu Svaninum og BREEAM vottun. Þar eru gerðar kröfur um að lágmarka orkunotkun bæði á notkunar tíma bygginga og á byggingartíma.
Sveitarfélög geta úthlutað lóðum og gefið afslátt af lóðaverði og opinberum gjöldum fyrir umhverfisvottaðar byggingar. Reynsla er komin af þessu kerfi hjá Hafnarfjarðarbæ og hefur skilað miklum árangri, en um helmingur Svansvottaðra bygginga hérlendis eru í Hafnarfirði, skv. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.
Í skipulagi eða lóðasamningum er hægt að gera kröfu um kolefnisútreikninga bygginga og framkvæmda. Nýta má leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um lífsferilsgreiningar, sem er aðferð til að mæla umhverfisáhrif mannvirkja yfir allt lífsskeið þeirra, þ.m.t. kolefnisspor.
Meira en helmingur raforkunotkunar á höfuðborgarsvæðinu er vegna álframleiðslu og önnur notkun er dreifð á fyrirtæki og heimili. Notkun hitaveitu er einnig dreifð á heimili og fyrirtæki. Sveitarfélög hafa litla beina aðkomu að þessari notkun en geta komið tilmælum og fræðslu um orkusparnað til almennings og fyrirtækja, t.d. í gegnum fyrirtæki eða starfsfólk í veituþjónustu.
Í eigin rekstri geta sveitarfélögin unnið eftir Grænum skrefum til að nýta betur rafmagn og hitaveitu. Við endurnýjun eigin dráttarvéla og annars vélbúnaðar, geta sveitarfélögin kannað framboð á rafmagnsvélum og meta loftslagsávinning og verð.
Í höfnum hefur mikill metnaður verið í raftengingum síðustu tvö árin, svo fiskiskip geta nú raftengst í viðlegu bæði í Hafnarfjarðarhöfn og Gömlu höfninni í Reykjavík. Í komandi loftslagsbókhaldi munu loftslagsávinningur þessara aðgerða koma fram. Að öðru leyti hafa sveitarfélögin lítil áhrif á eldsneytisnotkun í framleiðslu eða í fiskiskipum.
Tillögur að aðgerðum til nánari skoðunar:
Grænni byggingar og framkvæmdir
- Velja umhverfisvottun eða fylgja Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð í eigin framkvæmdum.
- Setja kröfur um ákveðið hlutfall vistvænna véla í útboðum sveitarfélagsins fyrir framkvæmdir, byggingar og viðhald. Undirbúa með veitufyrirtækjum aðgengi að rafmagni á framkvæmdarsvæðum.
- Losunarfríir byggingarstaðir í framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins.
- Setja skilyrði um kolefnisútreikninga í skipulag eða lóðasamninga þar sem bornir eru saman valkostir um niðurrif eða endurnýtingu byggingarhluta eða -efna.
- Afsláttur af lóðaverði og gjöldum fyrir umhverfisvottaðar byggingar eða framkvæmdir.
- Kaupa vistvænar vélar þegar þess er kostur.
- Meta möguleika á samnýtingu véla eða útbúnaðar sveitarfélaganna.
Samstarf um orkuskipti í framkvæmdum og höfnum
- Tryggja áframhaldandi orkuskipti í höfnum.
- Tryggja nægt landrafmagn og skylda skip sem geta tengst til að tengjast rafmagni.
- Samstarf við rafmagnsveitur um nægilegt rafmagn við framkvæmdastaði.
5.3 Úrgangur og fráveita
![](/static/files/_blob/ih9i176sep4tshom7rcsh.png)
Grundvallarbreyting hefur orðið á skipulagi úrgangsmála á höfuðborgarsvæðinu, þökk sé góðri samvinnu sveitarfélaganna. Langtum minna af úrgangi er urðað en áður, sem hefur dregið verulega úr losun frá þessum flokki. Þegar úrgangur er urðaður, heldur metanlosun áfram svo árum eða áratugum skiptir. Því koma áhrifin ekki fram umsvifalaust en losun í þessum flokki mun minnka ár frá ári.
Úrgangsforvarnir snúast einfaldlega um að skapa ekki úrgang, heldur nýta hluti og efni eins lengi og hægt er, endurnota og koma í veg fyrir að nýtilegt efni og hlutir fari í ruslið. Sveitarfélögin geta tekið þátt í verkefnum eins og Góða hirðinum, Efnismiðlun og Hringrásargarði. Sveitarfélög geta endurnotað efni og hluti í eigin starfsemi og byggingarframkvæmdum.
Aðgerðum má skipta gróflega upp í úrgangsforvarnir, þjónustu og innviði fyrir flokkun úrgangs sem og aukna metansöfnun frá urðunarstað.
Mikið af úrgangi fellur til í framkvæmdum og byggingarstarfsemi. Sveitarfélög geta sett kröfur um endurnýtingu og flokkun úrgangs í eigin útboðum og framkvæmdum. Þannig má draga úr byggingarúrgangi og auka endurnotkun við viðhald og niðurrif skólabygginga og leikskóla og við gatnagerð eða framkvæmdir á opnum svæðum. Einnig geta verið ákvæði í skilmálum í skipulagi eða lóðasamningum um endurnotkun byggingarefna.
Fræðsla er mikilvæg til að virkja íbúa og geta sveitarfélögin unnið með félagasamtökum og skólum í fræðslu um mikilvægi hringrásar og úrgangsforvarna.
Þjónusta og innviðir í úrgangsmálum hafa tekið miklum breytingum síðustu ár. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa samræmt hirðu, aukin hirða er við heimili og grenndarstöðvar og endurvinnslustöðvar eru styrktar. Sveitarfélögin geta áfram verið í samstarfi um að viðhalda og bæta aðstöðu til að flokka úrgang og sett ríkari áherslu á úrgangsforvarnir.
Sorpa ber ábyrgð á urðunarstað í Álfsnesi og sinnir mælingum á metanlosun, þéttir yfirborð til að fyrirbyggja leka á metani og bætir metansöfnun. Tvöfaldur loftslagsávinningur er af þessum aðgerðum. Annars vegar hindrar það metan í að leka út í andrúmsloft og hins vegar er metan nýtt í stað jarðefnaeldsneytis og minnkar þannig notkun þess.
Fráveituvatn frá höfuðborgarsvæðinu er að mestu losað í síkvikan Faxaflóa og aðstæður eru þess eðlis að losun er tiltölulega lítil miðað við magn frárennslis. Í hreinsistöðvum fellur til seyra og verði henni safnað ásamt gróðurhúsalofttegundum, munu þær aðgerðir hafa loftslagsávinning, til viðbótar við jákvæð áhrif á vatnsgæði.
Tillögur að aðgerðum til nánari skoðunar:
Úrgangsforvarnir og dregið úr úrgangsmyndun
- Styrkja verkefni og innviði sem stuðla að endurnotkun í samfélaginu, svo sem markaði og aðstöðu fyrir hringrás muna og efna.
- Hugarfarsbreyting í rekstri sveitarfélaga með áherslu á að nýta lengur og henda minna. Láta af notkun einnota muna þar sem hægt er.
- Fræðsla um úrgangsmál, forvarnir, hringrásarhagkerfið og bætta flokkun.
- Draga úr byggingarúrgangi við viðhald og niðurrif með kröfum um endurnýtingu og flokkun úrgangs í eigin útboðum sem og í skilmálum í skipulagi eða lóðasamningum.
Nýta hringrásarefni í eigin rekstri
- Nýta moltu frá Gaju á landi sveitarfélaga
- Nýta endurunnið malbik, byggingarefni, jarðefni o.fl. Gera kröfu um hlutfall endurunninna efna í eigin byggingum og framkvæmdum.
5.4 Siglingar og flug
![](/static/files/_blob/2bolfvt9ctkhzcxjuno4fn.png)
Faxaflóahafnir og Hafnarfjarðarhöfn hafa á síðustu tveimur árum, sett upp háspennutengingar sem gerir skipum kleift að tengjast landrafmagni í viðlegu og slökkva á vélum. Þetta skilar sér í minni losun frá höfnunum, nema skipaumferð aukist þeim mun meira, og þá sérstaklega umferð stórra skemmtiferðaskipa sem losa mun meira en önnur skip sem fara um hafnirnar.
Meta má kostnað og loftslagsávinning af því að takmarka fjölda skemmtiferðaskipa eða setja umhverfiskröfur tengdar losun skipanna. Allmargar norskar hafnir hafa tekið í notkun umhverfiskröfurnar EPI (Environmental Port Index) og hækka hafnargjöldin fyrir skip sem menga og losa mest en lækka fyrir þau sem eru metnaðarfull í umhverfismálum.
Sveitarfélögin hafa hverfandi áhrif á losun frá flugi og því er ekki lögð áhersla á aðgerðir á því sviði að þessu sinni.
Sveitarfélögin geta áfram unnið með hafnaryfirvöldum að rafvæðingu. Mestur loftslagsávinningur mun verða af háspennutengingu fyrir stór skemmtiferðaskip sem leggja að við Skarfabakka í Sundahöfn.
Tillögur að aðgerðum til nánari skoðunar:
Minnka losun frá siglingum
- Tryggja nægt landrafmagn í höfnum og skylda þau skip til að tengjast sem til þess eru búin.
- Tryggja háspennutengingu á Skarfabakka í Sundahöfn.
- Meta kostnað og loftslagsávinning af því að stjórna fjölda skemmtiferðaskipa.
- Meta kostnað og loftslagsávinning af því að taka í notkun umhverfiskröfur fyrir skemmtiferðaskip, til dæmis EPI (Environmental Port Index).
5.5 Landnotkun (LULUCF) og landbúnaður
![](/static/files/_blob/btzte2iljd00nuhbg840gzd.png)
Losun frá landnotkun er háð náttúru og vistkerfum í umhverfinu og því hafa ekki verið sett sambærileg markmið um niðurskurð og fyrir aðra losun. Eins og er er landsmarkmið Íslands að losun frá landnotkun aukist ekki. Þetta gæti breyst með nýjum alþjóðasamningum á næstu árum. Á sama hátt ætti markmið sveitarfélaganna að vera að losun frá landnotkun aukist ekki og minnki frekar en hitt.
Breytt landnotkun leiðir til þess að kolefnisforði jarðvegsins losnar út í andrúmsloftið, til að mynda við byggingu þéttbýlis eða vegagerð þar sem áður var mói eða mýri. Við breytingar á landnotkun í skipulagi er hægt að meta loftslagsáhrif, hversu mikil losun muni fylgja af breytingunni og gera áætlun um að það hvernig losunin verði lágmörkuð og kolefnisjöfnuð. Þessi nálgun er í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að losun frá landi aukist ekki.
Mikilvægt er að hlúa að náttúrulegri vistgerð landsins, í samræmi við skuldbindingar Íslands um líffræðilega fjölbreytni. Endurheimt vistkerfa er góð leið til þess að draga úr losun frá landi og binda kolefni í jörðu. Sérstaklega geta sveitarfélögin einbeitt sér að votlendi og endurheimt birkiskóga, sem Ísland leggur áherslu á í alþjóðlegu samstarfi.
Skógrækt er sú landnotkun sem helst bindur kolefni en flest önnur landnotkun losar kolefni úr jörðu. Lönd með víðfeðma skóga hafa nettóbindingu, ekki nettólosun frá landnotkun. Því er aukin skógrækt góð leið til að binda kolefni til móts við breytta landnotkun sem losar kolefni úr jörðu. Þó þarf ávallt að taka tillit til aðstæðna á hverjum stað. Í samstarfi við landeigendur og Land og skóg mætti finna svæði sem henta til endurheimtar birkiskóga.
Við endurskoðun aðalskipulags geta sveitarfélögin greint hvaða svæði binda vel kolefni eða hafa mikinn kolefnisforða, svo sem skóga og votlendi, og tryggja vernd slíkra svæða í skipulagi eftir því sem kostur er.
Tillögur að aðgerðum til nánari skoðunar:
Ábyrg landnotkun
- Reikna kolefnisspor breyttrar landnotkunar við gerð skipulagsáætlana og gera áætlanir um hvernig aukin losun verði jöfnuð með bindingu eða endurheimt.
- Auka endurheimt votlendis og birkiskóga, í samstarfi við Land og skóg og félagasamtök.
- Draga úr eða stöðva framræslu votlendis og viðhald skurða, í samstarfi við bændur og aðra landeigendur.
- Auka skógrækt þar sem aðstæður henta til þess.
- Auka landgræðslu, nýta til þess moltu og annan lífrænan úrgang.