Ýmsir aðilar hafa gert áætlanir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þar fer ríkisstjórn Íslands fremst í flokki enda ber ráðherra skv. lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál að láta „gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum þar sem setja skal fram aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka kolefnisbindingu hér á landi. Í aðgerðaáætluninni skal koma fram mat á áætluðum kostnaði ásamt mati á loftslagsávinningi af framkvæmd aðgerðanna sem þar eru lagðar til“. Þá skal verkefnisstjórn aðgerðaáætlunar „árlega skila skýrslu til ráðherra um framgang aðgerðaáætlunar“. Fleiri aðilar hafa gert aðgerðaáætlanir, þ.á m. Reykjavíkurborg, ýmis orkufyrirtæki o.fl.
6.1 Aðgerðaáætlanir ráðherra
Ísland gerðist aðili að loftslagssamningnum árið 1993 og fullgilti Kyoto-bókunina árið 2002 eftir að „íslenska ákvæðið“ við bókunina hafði verið samþykkt á aðildarríkjaþingi samningsins. Árið 2002 setti Ísland sér stefnu í loftslagsmálum, en stefnan var unnin í samvinnu nokkurra ráðuneyta. Markmiðið var að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda þannig að Ísland gæti staðið við skuldbindingar sínar í Kyoto-bókuninni. Auk þess skyldi auka kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt. Árið 2007 var ný stefna sett en markmið hennar var að draga úr nettólosun um 50-75% árið 2050 miðað við árið 1990.
Fyrsta aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum var samþykkt árið 2010. Árið áður höfðu fulltrúar Evrópusambandsins á aðildarríkjaþingi loftslagssamningsins í Kaupmannahöfn lýst yfir vilja til að draga úr losun um 30% fyrir árið 2020, miðað við árið 1990. Ísland hugðist taka þátt í þessu markmiði og miðaðist aðgerðaáætlunin að því að Ísland gæti staðið við hugsanlegar skuldbindingar um að draga úr samfélagslosun um 30%. Áætlunin frá 2010 innihélt 10 lykilaðgerðir til að draga úr losun og auka bindingu. Þar af voru tvær aðgerðir almenns eðlis, þrjár sem lutu að samgöngum, tvær í sjávarútvegi og tvær sem snerust um landnotkun, auk þess sem efla skyldi rannsóknir og nýsköpun í loftslagsmálum. Áætlunin innihélt einnig 20 aðrar aðgerðir. Meðal annars skyldi rannsaka og þróa lífeldsneyti, standa fyrir upplýsinga- og fræðsluátaki til almennings um kaup á sparneytnari bílum, efla hlut vistvænna samgöngumáta í Samgönguáætlun, vinna að gerð og tengingu hjólastíga, auka gasvinnslu á urðunarstöðum, vinna metan úr lífrænum úrgangi, bæta meðferð úrgangs o.fl.
Í kjölfar aðgerðaáætlunarinnvar frá 2010 var ráðist í margar af þeim lykilaðgerðum sem þar voru settar fram og m.a. var kerfinu varðandi skatta og gjöld á bíla breytt verulega. Auk þess var sett kolefnisgjald á eldsneyti og viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir var innleitt hér á landi. Þessi áætlun var samþykkt áður en gerð aðgerðaáætlunar var lögfest með lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál. Með lögunum var einnig komið á þeirri skyldu að meta framgang aðgerðaáætlunar árlega. Slíkar skýrslur komu út árin 2012, 2013 og 2015.
Þrátt fyrir að lög 70/2012 kveði á um að aðgerðaáætlun skuli endurskoða eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti, var aðgerðaáætlun ekki endurskoðuð fyrr en árið 2018 og þá gefin út sem 1. útgáfa aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Í millitíðinni var þó gefin út sóknaráætlun í loftslagsmálum en slík áætlun á sér svo sem enga lagastoð. Sóknaráætlunin var gerð í aðdraganda Parísarráðstefnunnar 2015, tók til áranna 2016–2018, og var ætlað að efla aðgerðir ríkisins í loftslagsmálum og auðvelda Íslandi að standa við væntanlegar skuldbindingar sínar samkvæmt nýjum hnattrænum loftslagssamningi. Tilgreind voru 16 verkefni sem ráðast skyldi í á tímabilinu og var áhersla lögð á orkuskipti í samgöngum, bæði á landi og hafi, eflingu innviða fyrir rafbíla, minnkun losunar frá sjávarútvegi og landbúnaði, aukna skógrækt og landgræðslu, endurheimt votlendis, kolefnisjöfnun í ríkisrekstri og aðgerðir til að draga úr matarsóun.
Í september 2018 kynntu sjö ráðherrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur nýja aðgerðaáætlun Íslands í loftslagsmálum fyrir tímabilið 2018-2030, en áætlunin er hugsuð sem helsta tæki stjórnvalda til að tryggja að Ísland nái markmiðum Parísarsamningsins og eigin markmiði um kolefnishlutleysi. Áætlunin var þó ekki sett fram í endanlegri mynd, heldur kynnt sem „fyrsti áfangi“. Endurskoðuð útgáfa aðgerðaáætlunarinnar var birt í júní 2020.
Í aðgerðaáætluninni frá 2018 voru settar fram 34 aðgerðir en megináherslan var lögð annars vegar á orkuskipti og hins vegar á kolefnisbindingu og bætta landnotkun. Einnig er þar að finna ýmsar aðrar aðgerðir. Aðgerðirnar sem lúta að orkuskiptum byggja flestar á aðgerðum úr aðgerðaáætlun um orkuskipti, sem Alþingi samþykkti árið 2017.
Sem fyrr segir var áætlunin ekki sett fram í endanlegri mynd, heldur kynnt sem „fyrsti áfangi“. Til stóð að gefa út endurskoðaða útgáfu aðgerðaáætlunarinnar árið 2019 en hún var svo loks birt í júní 2020. Sú útgáfa aðgerðaáætlunarinnar samanstendur af 48 aðgerðum og eru 15 þeirra nýjar. Aðgerðunum er skipt í þrjá yfirflokka í samræmi við meginkerfi ESB til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, þ.e.a.s. eftir því hvort þeim er ætlað að draga úr samfélagslosun (ESR), losun sem fellur undir ETS eða draga úr losun og auka bindingu með bættri landnotkun (LULUCF). Aðgerðirnar eru svo nánar flokkaðar í 9 undirflokka (A-I), sbr. eftirfarandi mynd úr aðgerðaáætluninni.
Í aðgerðaáætluninni frá 2018 voru nokkrar aðgerðir sem gætu nýst sveitarfélögum til að draga úr losun og afla upplýsinga um notkun jarðeldsneytis á svæðinu, en hluti af þessum aðgerðum hefur ekki skilað sér í 2020-útgáfuna. Þetta á m.a. við um aðgerð til að nýta betur metan frá urðunarstöðum. Eins var bent á að mögulegt væri að vinna metan úr búfjáráburði. Í tengslum við þetta skyldi gera áætlun um aukna vinnslu og nýtingu metans. Í 2020-útgáfunni er ekki að finna sérstakar aðgerðir varðandi metan, en þar er þess í stað sett fram almennari aðgerð um „úttekt á kostnaðarhagkvæmni og umhverfislegum ávinningi innlendrar eldsneytisframleiðslu. Við mat[ið] skal leggja áherslu á að öll skilyrði Evrópusambandsins um slíka framleiðslu verði uppfyllt, þ.m.t. skilyrði um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Meðal möguleika sem skoðaðir verða má nefna vetni, metan, metanól, etanól og lífdísill“. Í tengslum við þetta vann starfshópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sérstaka skýrslu um ræktun og framleiðsla úr orkujurtum, sem kom út í september 2021. Einnig má nefna skýrslu um fýsileika rafeldsneytis sem unnin fyrir Þróunarfélag Grundartanga í júní 2021. Samkvæmt henni er tæknilega mögulegt að framleiða rafeldsneyti á Íslandi og að reyndar sé Ísland fýsilegur staður til þess vegna góðs aðgengis að endurnýjanlegum auðlindum sem reynsla er af að nýta til orkuskipta. Í desember 2021 kom út skýrsla frá norska ráðgjafarfyrirtækinu DNV um orkuskipti í íslenskum sjávarútvegi. Þá mun verða gefinn út vetnisvegvísir fljótlega. Hins vegar hefur ekki verið gerð sérstök úttekt á möguleikum þess að framleiða metan eða annað eldsneyti úr úrgangi.
Í aðgerðaáætluninni frá 2018 var sérstök aðgerð varðandi grænt bókhald (umhverfisupplýsingar). Þar kom fram að reglugerð um grænt bókhald (nr. 851/2002) yrði breytt þannig að fyrirtækjum sem skila grænu bókhaldi beri að gera grein fyrir kolefnisspori sínu. Jafnframt yrði skylda til að skila grænu bókhaldi útvíkkuð, þannig að hún nái til stjórnarráðsins, ríkisstofnana og allra helstu atvinnugreina sem brenna jarðeldsneyti, svo sem útgerða, fólksflutningafyrirtækja, ferðaþjónustufyrirtækja og verktaka. Samkvæmt upplýsingum frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu vinnur Umhverfisstofnun nú (þremur og hálfu ári síðar) að drögum að breytingu á reglugerð um útstreymisbókhald til að bæta aðgengi að umhverfisupplýsingum. Gildissvið núgildandi reglugerðar um grænt bókhald takmarkast við atvinnustarfsemi sem tilgreind er í viðauka við reglugerðina, en eftir breytinguna munu, samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu, ákvæði um umhverfisupplýsingar ná til fyrirtækja í mengandi rekstri sem falla undir lög 7/1998 um hollustuhætti og mengunvarnir, þ.m.t. fyrirtækja sem reka samgöngumiðstöðvar, farþegaskip, almenningsbifreiðar og farþegaflugvélar. Ýmis verktakastarfsemi og ýmis ferðaþjónusta fellur einnig þar undir. Útgerð fellur ekki undir lögin beint, en tiltekin mengandi starfsemi útgerða gerir það hins vegar. Samhliða breyttri/nýrri reglugerð er unnið að því að setja upp gagnagátt sem mun halda utan um loftslagsupplýsingar og aðrar umhverfisgæðaupplýsingar. Reglugerð um grænt bókhald mun falla úr gildi.
Upplýsingar um eldsneytisnotkun fyrirtækja sem falla ekki undir gildandi reglugerð um grænt bókhald, en hefðu gert það miðað við fyrirhugaðar breytingar eins og þær voru settar fram í aðgerðaáætlun 2018, myndu gagnast í útreikningum á kolefnisspori og við gerð aðgerðaáætlana sveitarfélaga og landshluta. Til ársloka 2020 var mögulegt að afla upplýsinga frá Flutningsjöfnunarsjóði olíuvara um olíusölu, en sjóðurinn hélt um árabil saman upplýsingum um alla sölu olíuvara á Íslandi, skipt eftir póstnúmerum. Þessar upplýsingar bættu að hluta úr þeim upplýsingaskorti sem stafaði af þröngu gildissviði reglugerðar um grænt bókhald, en með breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun, nr. 160/2011, sem tók gildi 1. janúar 2021, voru lög um jöfnun flutningskostnaðar olíuvara, nr. 103/1994, felld úr gildi og Flutningsjöfnunarsjóður olíuvara þar með lagður niður. Svo virðist sem engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að tryggja aðgang að þessum upplýsingum eftir brotthvarf sjóðsins. Af framanskráðu leiðir að við núverandi aðstæður er afar erfitt að greina hvar notkun olíu á sér stað, þ.e. hvernig notkunin skiptist milli mismunandi aðila og mismunandi starfsemi. Þar af leiðandi er stefnumótun um minnkandi losun vegna olíubrennslu ekki nógu markviss á köflum. Úr þessum gagnaskorti mætti bæta verulega með útvíkkun græns bókhalds eins og gert var ráð fyrir í 2018-útgáfu aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.
Í stöðuskýrslu um aðgerðaáætlun sem kom út í september 2021 kemur fram að vinna sé hafin við allar aðgerðir sem settar eru fram í aðgerðaáætluninni frá 2020, samtals 48 aðgerðir. Í skýrslunni eru auk þess kynntar tvær nýjar aðgerðir. Annars vegar er þar um að ræða aðgerð um orkuskipti í framleiðslugreinum og hins vegar aðgerð sem felur í sér gerð umbótaáætlunar um bætta þekkingu á bókhaldi landnotkunar. Niðurstaða stöðuskýrslunnar er að „heilmikill framgangur hafi orðið í aðgerðum milli ára, nú eru 30 aðgerðir skilgreindar í framkvæmd, 17 í vinnslu og 3 í undirbúningi“. Í skýrslunni er þó ekki að finna tölulegar upplýsingar um árangur aðgerðanna.
6.2 Aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar
Árið 2016 setti Reykjavíkurborg sér stefnu í loftslagsmálum ásamt aðgerðaáætlun til ársins 2020. Stefnan er í tveimur hlutum, annars vegar er byggt ofan á stefnu borgarinnar er lýtur að samfélaginu í Reykjavíkurborg, íbúum og atvinnulífi. Nýjungin þar er að markið er sett á kolefnishlutleysi borgarinnar fyrir árið 2040. Áfram verður unnið að því að draga úr losun en áhersla verður einnig lögð á kolefnisbindingu. Hins vegar er sett fram stefna sem lýtur að rekstri Reykjavíkurborgar, m.a. rekstri bílaflotans, vinnustöðum borgarinnar og skráningu upplýsinga. Þar er einnig stefnt að kolefnishlutleysi. Báðum hlutum stefnunnar fylgdi aðgerðalisti til ársins 2020. Flestar aðgerðirnar snúast um samgöngur og orkunotkun en einnig er að finna aðgerðir sem tengjast úrgangsmálum, landnotkun og fræðslu. Í febrúar 2021 lagði Reykjavíkurborg fram nýja aðgerðaáætlun í loftslagsmálum fyrir árin 2021-2025. Í þeirri aðgerðaáætlun er enn stefnt að kolefnishlutleysi árið 2040. Þá eru settar fram 15 lykilaðgerðir sem snúa m.a. að gönguvænni borg, orkuskiptum, heilsueflandi samgöngum, hringrásarhugsun, vistvænum mannvirkjum og kolefnisbindingu.
6.3 Landsvirkjun
Landsvirkjun ætlar að verða kolefnishlutlaus árið 2025. Til að ná því markmiði hefur fyrirtækið gert aðgerðaáætlun þar sem aðgerðum er forgangsraðað á eftirfarandi hátt:
4. Koma í veg fyrir nýja losun
5. Minnka núverandi losun
6. Grípa til mótvægisaðgerða.
Landsvirkjun hyggst fanga koldíoxíð frá Kröflustöð frá og með árinu 2025 og dæla því aftur ofan í jörðina eða nýta það til verðmætasköpunar. Þannig mun losun jarðvarmavirkjana fyrirtækisins dragast saman um 60% og kolefnisspor raforku á Íslandi mun lækka. Þá hyggst Landsvirkjun skipta út megninu af bílum og vinnuvélum fyrirtækisins yfir í bíla og vinnuvélar sem nota umhverfisvæna orkugjafa. Áætlað er að þetta minnki losun frá bílum og vélum um 70%. Árið 2030 hyggst fyrirtækið hætta öllum olíukaupum. Þá verður dregið úr losun vegna ferða starfsmanna til og frá vinnu, auk þess sem dregið verður úr losun vegna flugferða starfsmanna. Á sama tíma hyggst fyrirtækið minnka kolefnissporið með landgræðslu, skógrækt og endurheimt votlendis.
Í ársskýrslu Landsvirkjunar 2019 kom fram að fyrirtækið hefði tekið upp innra kolefnisverð til að styðja við markmið um kolefnishlutleysi árið 2025. Með þessu verður kostnaður vegna losunar sýnilegur þeim sem taka ákvarðanir innan fyrirtækisins, sem gerir það að verkum að hægt er að reikna kostnað vegna losunar inn í allar stærri fjárhagsákvarðanir, allt frá innkaupum á rekstrarvörum upp í val á nýjum virkjunarkostum. Um leið verður mögulegt að réttlæta kaup á dýrari vöru svo lengi sem sú vara hefur nægilega lágt kolefnisspor í samanburði við aðrar vörur. Innra kolefnisverð Landsvirkjunar var 33$ á hvert tonn árið 2020.
6.4 Orkuveita Reykjavíkur
Orka náttúrunnar (ON) hyggst verða kolefnishlutlaus árið 2030. Fyrirtækið hefur verið í fararbroddi í nýsköpun og þróun á sviði loftslags- og umhverfismála jarðgufuvirkjana undanfarinn áratug. Náið samstarf við Carbfix hefur þar verið lykilatriði. Meðal verkefna sem þegar hafa skilað árangri má nefna:
- Minnkun losunar koldíoxíðs og brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun með bindingu þessara jarðhitalofttegunda í stein.
- Undirbúningur að minni losun frá Nesjavallavirkjun og tímasetning kolefnishlutlausrar Hellisheiðarvirkjunar.
- Samstarf við svissneska fyrirtækið Climeworks um hreinsun og bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti á Hellisheiði.
ON hefur verið í fararbroddi við uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafbíla og þannig tekið þátt í að greiða fyrir orkuskiptum í vegasamgöngum hér á landi. Við Hellisheiðarvirkjun hefur verið sett upp lofthreinsistöð sem nýtir Carbfix-aðferðina til að hreinsa um 75% af brennisteinsvetni og um 30% af koldíoxíði úr útblæstri virkjunarinnar. Þessi efni eru leyst upp í jarðhitavatni og veitt í niðurrennsliskerfi. Stefnt er að því að fullhreinsun koldíoxíðs frá Hellisheiði verði orðin að veruleika fyrir árslok 2024. Þá er stefnt að fullhreinsun koldíoxíðs frá Nesjavallavirkjun frá og með árinu 2030. Hreinsun koldíoxíðs úr útblæstri jarðvarmavirkjana ON mun lækka kolefnisspor raforku á Íslandi.
6.5 Almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu
Haustið 2019 undirrituðu ríkið og sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær, Reykjavík og Seltjarnarnes, samkomulag um metnaðarfulla uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu til fimmtán ára. Markmið samkomulagsins er að auka öryggi, bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga.
Á næstu 15 árum verður ráðist í einhverjar umfangsmestu samgönguframkvæmdir sögunnar til að flýta úrbótum á höfuðborgarsvæðinu, sem að óbreyttum framkvæmdahraða tækju allt að 50 ár. Þessar aðgerðir eru til þess fallnar að draga úr mengun vegna svifryks og minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Ef fram heldur sem horfir og ekkert verður að gert mun bílaumferð aukast um að minnsta kosti 40% á næstu 15 árum.
Samkvæmt samkomulaginu sem um ræðir er gert ráð fyrir að á næstu 15 árum verði 120 milljónum kr. varið til samgönguframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu. Ríkið mun leggja fram 45 milljarða og sveitarfélög 15 milljarða, en því til viðbótar er gert ráð fyrir að sérstök fjármögnun standi straum af 60 milljörðum kr. Fjármögnun verður tryggð við endurskoðun gjalda af ökutækjum og umferð í tengslum við orkuskipti eða með beinum framlögum við sölu á eignum ríkisins. Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði Borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Þá verður þegar í stað ráðist í að innleiða stafræna umferðarstýringu á höfuðborgarsvæðinu.
Fyrirtækið Betri samgöngur ohf. var stofnað seint á árinu 2020 í framhaldi af samþykkt laga nr. 81/2020 um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækinu er ætlað að annast þá uppbyggingu sem kveðið var á um í samkomulaginu frá 2019. Í áætlunum fyrirtækisins er gert ráð fyrir að fyrstu tvær lotur Borgarlínu af sex verði opnaðar 2025. Þá er gert ráð fyrir að á fyrstu fimm árunum verið ráðist í stærstan hluta þeirrar 8,3 milljarða fjárfestingar í hjóla- og göngustígum, göngubrúm og undirgöngum, sem gert er ráð fyrir í samkomulaginu.
Unnin hefur verið félagshagfræðileg greining á áhrifum þeirra bættu innviða fyrir almenningssamgöngur og hjólreiðar sem leiða munu af samkomulaginu frá 2019. Af þeirri greiningu má ráða að vænta megi verulegra breytinga á samgöngumynstri í kjölfar þessara úrbóta.
6.6 Sorpa
SORPA bs. hefur sett sér tvö lykilmarkmið og þrjú undirmarkmið í loftslagsmálum:
- Lágmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun SORPU fyrir árið 2021.
- SORPA nýti vistvæna eldsneytisgjafa á bifreiðar og vinnuvélar eins og kostur er.
- SORPA kolefnisjafni eldsneytisnotkun vegna aksturs og flugferða á vegum SORPU.
- Lágmörkun úrgangs og aukið endurnýtingarhlutfall árið 2020.
- Endurnýtingarhlutfall úrgangs frá heimilum verði aukið í 95%.
Í loftslagsmarkmiðum SORPU eru tilgreindar sex aðgerðir sem eiga að stuðla að því að markmiðin náist:
- Tryggt verði í komandi útboðum vegna flutninga að verktaki nýti metan eða aðra vistvæna eldsneytisgjafa.
- Allar nýjar bifreiðar hjá SORPU verði metanknúnar.
- Allar bifreiðar og vinnuvélar SORPU verði knúnar vistvænum orkugjöfum að hluta eða öllu leyti.
- Unnið verði að gerð skógræktaráætlunar í samstarfi við Skógræktarfélag Reykjavíkur um gróðursetningu vegna kolefnisjöfnunar.
- Bygging og gangsetning gas- og jarðgerðarstöðvar.
- Tryggt verði að forvinnsluferlar í móttöku- og flokkunarstöð skili tilætluðum árangri þannig að endurnýtingarhlutfall úrgangs frá heimilum geti náð 95%.
Meðal annarra aðgerða sem SORPA hefur gripið til má nefna samstarf við Carbfix um tilraunir við að farga koldíoxíði frá urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Með þessu er stefnt að því að draga úr losun um allt að 3.500 tonn á fyrstu stigum og um allt að 7.500 tonn á ári þegar tilraunafasa lýkur. Samhliða niðurdælingu á koldíoxíði verður þróuð aðferðafræði til að gefa út kolefniseiningar til kolefnisjöfnunar með Carbfix aðferðinni.49
Ætla má að tilkoma GAJA, gas- og jarðgerðarstöð SORPU, leiði til verulegs samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda vegna meðhöndlunar úrgangs sem til fellur á höfuðborgarsvæðinu. Nákvæmt mat á þessum árangri liggur ekki fyrir, en lífsferilsgreining á loftslagsáhrifunum er í vinnslu hjá EFLU verkfræðistofu.50 Auk samdráttar í losun vegna úrgangsmeðhöndlunarinnar sjálfrar, getur metangas sem framleitt er í stöðinni komið í stað jarðeldsneytis sem ella væri notað á tæki eða í iðnaði. Við hámarksafköst er gert ráð fyrir að GAJA geti framleitt um 2-3 milljónir normalrúmmetra af metangasi, en orkugildi hvers normalrúmmetra er u.þ.b. 8% hærra en orkugildi 1 lítra af bensíni.51 Þar að auki er gert ráð fyrir að GAJA skili árlega frá sér um 12.000 tonnum af moltu, sem væntanlega verður nothæf sem jarðvegsbætir þegar farið verður að vinna eingöngu úr lífrænum úrgangi sem hefur verið sérsafnað. Loftslagsáhrifin af nýtingu moltunnar hafa ekki verið reiknuð, en hún ætti að geta dregið nokkuð úr notkun tilbúins áburðar á höfuðborgarsvæðinu, eða eftir atvikum utan þess.