Fara í efni

Þróun Hvítá til Hvítá svæðisins

Verkefni um greiningu á þróun Hvítá til Hvítá svæðisins hófst í lok sumars en það er eitt af þeim áhersluverkefnum Sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins sem unnið er að á árinu 2024.

Þéttbýliskjarnar á SV-horninu hafa stækkað ört undanfarna áratugi. Ljóst er að svæðið er að þróast hratt í að verða eitt samtengt og jafnvel heildstætt atvinnu-, þjónustu- og búsetusvæði sem glímir við sameiginlegar áskoranir og á fjölmörg sameiginleg tækifæri. Afleiðingar þessa eru margvíslegar og hafa ekki verið greindar m.t.t. álags á höfuðborgarsvæðið og áhrifa þess á t.a.m. innviði, lýðfræði, húsnæðismarkað, atvinnulíf, gæði bæjarrýma og umhverfismál.

Vöxtur og þróun svæðisins kallar á skipulega heildarhugsun um inniviði og margvíslega þjónustu sem hægt er að leysa á fleiri einn hátt. Hvernig til tekst mun hafa grundvallarþýðingu fyrir samkeppnishæfni svæðisins og landsins alls, lífskjör, lífsgæði, umhverfi og efnahag.

Verkefnið er tvískipt. Í fyrri hluta verkefnisins verður unnin greining á því hver áhrif áframhaldandi óbreyttur vöxtur þéttbýliskjarna utan höfuðborgarsvæðisins til ársins 2050 geti haft á höfuðborgarsvæðið.

Skoðað verði hver áhrifin geti orðið með tilliti til:

  • Atvinnumála og samkeppnishæfni
  • Ferðatíma allra ferðamáta og umferðarmagns
  • Gæða og ásýndar bæjarrýma
  • Húsnæðis og lýðfræði
  • Lífsgæða íbúa höfuðborgarsvæðisins
  • Mengunar, svifryks og hávaða
  • Öryggi gangandi og hjólandi


Í seinni hluta verkefnisins (gert er ráð fyrir að það verði unnið sem sjálfstætt verkefni í framhaldi af fyrri hluta) verður velt upp hugsanlegum sviðsmyndum, sem verða bornar saman, þ.á.m. núllkosti sem sýni óbreytta þéttbýlisþróun, fólksfjölgun og ferðavenjur, samanborið við sviðsmyndir sem sýni þéttbýlisþróun til ársins 2050 án þess að auka álag á höfuðborgarsvæðið.

Gengið var til samninga við Nordic Office of Architecture um verkefnastýringu og stendur vinna við fyrri hluta verkefnisins nú yfir eins og áður sagði og er reiknað með að vinnu við þann hluta ljúki í lok þessa árs.

Við undirritun samnings 18. júní 2024. Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Halldóra Vífilsdóttir framkvæmdastjóri Nordic á Íslandi og Jóhanna Helgadóttir fagstjóri skipulagsmála hjá Nordic á Íslandi