Rannsóknarborholur á Bláfjallasvæði
Þann 20. júní sl. gekk SSH til samninga við Ræktunarsamband flóa og skeiða (Ræktó) vegna framkvæmda í Bláfjöllum um borun rannsóknarborhola. Áður hafði verið undirritaður samningur við Jarðval um jarðvinnu á svæðinu. COWI fer með verkefnastýringu ásamt undirbúningi og eftirliti.
Efri röð frá vinstir: Atli Karl Ingimarsson verkefnastjóri COWI, Hildigunnur Hafsteinsdóttir lögfræðingur SSH og Jón Kjartan Ágústsson skipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins. Neðri röð frá vinstri: Guðmundur Ármann Böðvarsson framkvæmdastjóri Ræktó og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH.
Verkefnið á upphaf sitt í samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu frá maí árið 2018 um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins en skíðaframkvæmdum í Bláfjöllum er nú lokið.
Borun rannsóknarborhola kemur til sem mótvægisaðgerð vegna framkvæmda á skíðasvæðinu í Bláfjöllum og tilgangurinn með framkvæmdinni er að vakta grunnvatn höfuðborgarsvæðisins enn betur sem á upptök sín á þessu svæði. Þær upplýsingar nýtast sveitafélögunum við áætlanagerð og vatnsnýtingu.
SSH vekja athygli á því að framkvæmdirnar munu hafa minniháttar umhverfisáhrif á Bláfjallasvæðið og verða vegsummerki fjarlægð að framkvæmdum loknum í haust.
Páll Björgvin framkvæmdastjóri SSH sagði eftirfarandi við undirritunina: „Það er ánægjulegt að þetta verkefni sé komið af stað og mikilvægt í því ljósi að fylgjast með vatnsbúskapnum í Bláfjöllum. Verkefnið er eins og önnur borverkefni, krefjandi en allt er gert til þess að það gangi vel og nái markmiði sínu“.
Jón Kjartan skipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins sagði jafnframt: „Við erum mjög ánægð að hafa gengið til samninga við COWI, Ræktó og Jarðval og við sjáum fram á farsælt samstarf. Eitt af markmiðum svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins er að tryggja aðgengi íbúa að hreinu ómeðhöndluðu drykkjarvatni og er nýjum rannsóknarborholum á Bláfjallasvæðinu ætlað að nýtast við rannsóknir og öryggi vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins.“