Grænn stígur, fræðslu- og kynningarfundur
Fræðslufundurinn tókst vel, en á annað hundrað manns mættu í fundarsalinn, auk þess sem tugir fylgdust með fundinum í fjarfundi. Farið var yfir sögu og stöðu mála varðandi Græna stíginn og fjallað um hann frá hinum ýmsu hliðum, m.a. út frá uppbyggingu stígakerfis á höfuðborgarsvæðinu, lýðheilsu, samgöngumálum og útivist. Fundinum lauk svo með ávarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra og tveimur pallborðsumræðum, annars vegar með fyrirlesurum og hins vegar með fulltrúum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Hvatinn að því að fundurinn var haldinn var ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Skógræktarfélags Íslands árið 2022, þar sem hvatt var til þess að hrinda í framkvæmd gerð Græna stígsins með aðstoð skógræktarfélaga á svæðinu og að hafa stíginn inni í viðræðum um framtíðar uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Leitaði Skógræktarfélag Íslands til svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins til samvinnu um fræðslufundinn enda er í Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins lögð sérstök áhersla á m.a. að auka vægi græns skipulags höfuðborgarsvæðisins, að minnka kolefnisspor svæðisins og auka heilsueflingu og forvarnir, sem allt tengist Græna stígnum.