15. júlí 2022
Uppbygging skíðasvæðanna í fullum gangi
Samkvæmt samkomulagi sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um uppbyggingu Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins er gert ráð fyrir um 5,3 milljarða kr. fjárfestingu í innviðum vegna skíðaiðkunar til ársins 2026. Markmið uppbyggingarinnar er að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir notendur svæðanna.
Nú þegar er hafin vinna við uppsetningu nýrra stólalyftna, Gosa og Drottningar, en framkvæmdaaðili er Doppelmayr skíðalyftur. Framkvæmdir ganga samkvæmt áætlun og er gert ráð fyrir að Gosi verði kominn í notkun fyrir næstu áramót og Drottning í nóvember 2023.
Auk þess er gert ráð fyrir snjóframleiðslu á skíðasvæðunum og stendur nú yfir útboðsferli vegna snjóframleiðslu í Bláfjöllum, þ.e. borunar vinnsluholu og kaupa á snjóframleiðslukerfi.
Þá stendur til að bæta aðstöðu og aðbúnað vegna gönguskíðaiðkunar. Áætlað er að fyrir næsta vetur verði tilbúið nýtt salernishús á suðursvæði Bláfjalla ásamt bættri aðstöðu til gönguskíðaiðkunar.
Enn fremur er hafin greining á innviðum vegna eflingar skíðasvæðisins í Skálafelli en þar er fyrirhugað að setja upp nýja stólalyftu á árinu 2024 og snjóframleiðslubúnað árið 2026.
Sérstakur verkefnahópur hefur verið starfræktur á vettvangi SSH til þess m.a. að undirbúa verkefnin og fylgja þeim eftir. Þá starfar verkefnastjóri með verkefnahópnum og stjórnendum skíðasvæðanna m.a. til að fylgja eftir samningum, hönnun og framkvæmd ásamt almennu utanumhaldi verkefnisins.