Ferðavenjur íbúa á höfuðborgarsvæðinu
Gallup framkvæmdi ferðavenjukönnun fyrir SSH og Vegagerðina í október 2017. Niðurstöður liggja nú fyrir og má sjá í yfirlitsskýrslu. Þetta er í fjórða sinn sem slík könnun er gerð, sú fyrsta árið 2002 en frá árinu 2011 hefur slík könnun verið framkvæmd á þriggja ára fresti. Í úrtakinu nú voru um 14.600 íbúar höfuðborgarsvæðisins á aldrinum 6-80 ára. Svarhlutfall var 41,6%. Íbúar fara, skv. könnuninni, að meðaltali 4,1 ferð á virkum degi. Af því má leiða að um 217 þús. íbúar svæðisins fari því samtals um 890 þús. ferðir á hefðbundnum virkum degi.
Fyrir höfuðborgarsvæðið í heild eru niðurstöður þær að ferðamátaval breytist lítið frá fyrri könnunum. Samkvæmt könnuninni voru 76% allra ferða á höfuðborgarsvæðinu farnar með einkabíl og 4% með strætisvögnum, breytist lítið frá 2011 og 2014. Áhugavert er að sjá að skv. könnuninni haustið 2017 jókst hlutdeild hjólreiða úr 4% í 6% frá könnun 2014. Það jafngildir því að íbúar svæðisins hafi farið yfir 50 þús. ferðir á reiðhjóli á venjulegum degi í október 2017.
Íbúum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað um 7% frá árinu 2011 skv. tölum Hagstofunnar. Því fylgir vöxtur í samgöngum. Eins fylgir vöxtur í samgöngum þeirri miklu fjölgun ferðamanna sem átti sér stað á síðustu árum. Innstigum í strætisvagna á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði úr 9,0 milljónum árið 2011 í 11,7 milljónir árið 2017. Það er um 30% aukning sem er langt umfram íbúafjölgun. Samkvæmt talningum Vegagerðarinnar á þremur föstum talningarstöðum á stofnvegakerfinu jókst meðalumferð á dag (ÁDU) um tæplega 30% frá 2011 til 2017. Það hefur því orðið mikill vöxtur í samgöngum síðustu misseri.
Líkt og í fyrri könnunum kemur fram umtalsverður munur á ferðamátavali milli ólíkra svæða innan höfuðborgarsvæðisins. Þannig er hlutdeild einkabíla í ferðum íbúa miðborgar, Hlíða og Vesturbæjar skv. könnuninni á bilinu 57% til 65%. Á öðrum svæðum höfuðborgarsvæðisins er hlutdeild einkabíla meiri, er vel yfir 80% í Garðabæ, Mosfellsbæ og Kjalarnesi.
Gallup vann einnig skýrslur þar sem sem niðurstöðurnar eru brotnar niður á sveitarfélög og hverfi. Má finna þær undir útgefnu efni, samgöngumál.