Fara í efni

Forvarnir og geðrækt ungmenna á höfuðborgarsvæðinu

SSH og NORTH Consulting undirrituðu þann 7. júní sl. samning um verkefnastjórnun á verkefninu Forvarnir og geðrækt ungmenna á höfuðborgarsvæðinu.

Markmið með verkefninu er að vinna að samræmdum viðmiðum og áætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um forvarnir og geðrækt ungmenna.

Um er að ræða framhald á vinnu vinnuhóps verkefnisins „Forvarnir og geðrækt hjá ungmennum á höfuðborgarsvæðinu“ sem var áhersluverkefni sóknaráætlunar 2022 og fellur undir meginflokkinn „Velferð og samfélag“ þar sem meginmarkmið er að auka heilsueflingu og forvarnir. Hópurinn er skipaður fulltrúum sveitarfélaganna og er ætlað að efla og auka samstarf á sviði forvarna og geðræktar hjá ungmennum (16-25 ára). Hópurinn mun áfram vinna að kortlagningu varðandi frítíma, ráðgjöf, stuðning og félagsþjónustu sem stendur börnum og ungmennum til boða og leggja til samræmd viðmið um framboð slíkrar þjónustu. Þá mun hópurinn vinna að því að koma upp eftirliti og eftirfylgni með afdrifum barna eftir útskrift úr grunnskóla og stuðla að samfellu í þjónustu milli skólastiga

María Kristín Gylfadóttir verkefnastjóri NORTH Consulting, Amanda K. Ólafsdóttir formaður vinnuhóps um forvarnir og geðrækt ungmenna á höfuðborgarsvæðinu og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH.


Áætlað er að vinna að þróun verkefna fyrir börn og ungmenni á sviði forvarna og geðræktar. Einnig verður könnun á viðhorfi ungmenna til frítíma- og félagsþjónustu sveitarfélaganna þar sem ungmenni eiga þess kost að koma athugasemdum á framfæri í gegnum vefumræðuborð.

Lokaafurð verkefnins verður í formi tillagna að samræmdum viðmiðum og áætlunum sveitarfélaganna um þjónustu til að draga úr skólaforðun og brottfalli úr námi, íþróttum og atvinnu. Eins að greina tölfræðiupplýsingar um afdrif barna að loknum grunnskóla.

Verkefnið er hluti af framfylgd sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins 2020-2024 með það að markmiði að styðja enn frekar við ungmenni á höfuðborgarsvæðinu.