Höfuðborgarsvæðið 2040 - íbúafundur
Á annað hundrað manns ræða framtíð höfuðborgarsvæðisins
Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu standa fyrir íbúafundi sem fer fram laugardaginn 9. nóvember nk. frá kl. 10:00 - 14:30 í Menntaskólanum í Kópavogi, Digranesvegi 51.
Umfjöllunarefni fundarins er nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, sem mun marka stefnu um þróun byggðar á svæðinu fram til ársins 2040.
Á fundinum verður verkefnið kynnt, bæði þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir og valkostir um þróun byggðarinnar.
Í framhaldinu ræða íbúar saman í hópum undir leiðsögn borðstjóra. Þar verður glímt við spurningar sem snerta höfuðborgarsvæðið og þróun þess, svo sem:
- Hvernig stuðlum við að því að höfuðborgarsvæðið verði aðlaðandi og eftirsóknarvert til búsetu? Hvað hefur gott borgarsvæði til að bera?
- Á höfuðborgarsvæðið að vaxa inn á við eða út á við? Hverjir eru kostir þess og gallar að ný íbúðarsvæði verði á jaðri svæðisins eða innan núverandi byggðarmarka?
Mikilvægt er að sveitarfélögin sem standa að svæðisskipulaginu fái hugmyndir og sjónarmið íbúa við mótun þess. Farin var sú leið að bjóða íbúum á höfuðborgarsvæðinu sem valdir voru í slembiúrtaki, þar sem gætt var að jafnri dreifingu búsetu, aldurs og kyns.
Með nánari upplýsingar er hægt að snúa sér til Hrafnkels Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóra höfuðborgarsvæðisins, með tölvupósti hrafnkell@ssh.is eða í síma 892 2698