Hvað eigum við að gera við allan þennan textíl?
Þann 30. ágúst 2024 kallaði umhverfis-, orku og loftlagsráðherra, ásamt Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH), Umhverfisstofnun og SORPU bs. til fundar og hugvekju um textíl, undir yfirskriftinni: Hvað eigum við að gera við allan þennan textíl?
Ljóst er að verkefnið er mikið því þessi úrgangsflokkur er flókinn og fer vaxandi. Við þetta tilefni fékk SORPA bs. styrk frá SSH í gegnum Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins til að koma upp forflokkunarlager til að reyna að auka endurnot á textíl.
Þetta er tólf mánaða tilraunaverkefni með það markmið að leita fjölbreyttra leiða til að draga úr förgun textíls og flutningi úr landi.
Helst er horft til þess að forflokka textíl sem safnast í sorphirðu sveitarfélaganna og að miðla til aðila sem hefðu áhuga á frekari nýtingu, til dæmis smávöruverslana, fatahönnuða, sprotafyrirtækja, leikhúsa, listaháskóla og annarra mennta- og menningarstofnanna. Forflokkun á textíl fyrir áframhaldandi magn/heildsölu til aðila á íslenskum smásölumarkaði.
Á myndinni takast þeir í hendur Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU og Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH, eftir að hafa undirritað samninginn.