Fara í efni

Mikill sóknarhugur á fundi lykilaðila í menntamálum

Mikill sóknarhugur á fundi lykilaðila í menntamálum

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) efndu til samráðs- og stefnumótunarfundar 10. oktober s.l. , um menntamál með þátttöku nærri 90 fulltrúa helstu fagaðila, hagsmunahópa, félagasamtaka og stjórnvalda í menntamálum.  Fundurinn er liður í verkefninu ?Skólar og menntun í fremstu röð? sem er hluti af sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins.  Markmið verkefnisins er að móta sameiginlega framtíðarsýn og aðgerðaáætlun um hvernig megi efla skólastarf á svæðinu, frá leikskóla til háskóla.

Fundinn í dag sóttu m.a. fulltrúar kennara, nemenda, foreldra, skólastjórnenda, aðila vinnumarkaðarins, fræðasamfélags, frjálsra félagasamtaka, menntamálaráðuneytisins, sveitarstjórnarmanna og fulltrúa úr stjórnsýslu fræðslumála hjá sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins.

Á fundinum var unnin greining á helstu styrkleikum, veikleikum og áskorunum skólastarfs á höfuðborgarsvæðinu og verða niðurstöðurnar nýttar sem innlegg í mótun tillagna um aðgerðir sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu geta ráðist í, til að efla skólastarf á öllum skólastigum í þágu nemenda og samfélagsins alls. Þátttaka á fundinum fór fram úr björtustu vonum og skilaði fundurinn fjölmörgum ábendingum og tillögum sem munu nýtast í framhaldinu.

Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins

Á vegum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) er nú unnið að fullum krafti að gerð sóknaráætlunar fyrir höfuðborgarsvæðið. Verkefnið tengist ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um gerð sóknaráætlunar landshluta sveitarfélaga og á grundvelli samnings SSH og fjármálaráðuneytisins um fjármögnun. Markmið sóknaráætlunarinnar er að greina tækifæri til eflingar atvinnu, menntunar og menningar á höfuðborgarsvæðinu.

Alls er nú unnið að 16 skilgreindum verkefnum undir hatti sóknaráætlunarinnar, sem skiptast í 3 meginflokka. Þessir flokkar eru: ?Skólar og menntun í fremstu röð?, ?Styrking atvinnulífs á höfuðborgarsvæðinu? og ?Markaðssetning höfuðborgar-svæðisins.? Yfirstjórn verkefnisins er í höndum stjórnar SSH og framtíðarhóps SSH. Sérstakir stýrihópar eru yfir hverjum verkefnaflokki og hefur hver verkefnaflokkur sérstakan verkefnisstjóra sem sér um daglega stjórn verkefnanna.  Áhersla er lögð á að ná breiðu samstarfi við fagaðila og hagsmunaaðila sem tengjast hverju viðfangsefni sem unnið er að.

Skólar og menntun í fremstu röð

Tilgangur allra verkefna í þessum flokki er að skilgreina og nýta möguleg sóknarfæri til að efla og samþætta skólastarf á öllum skólastigum með það að markmiði að skólastarf á höfuðborgarsvæðinu sé til fyrirmyndar. Verkefnið felur í sér fimm megin áherslusvið. Þau eru mat á gæðum skólastarfs á höfuðborgarsvæðinu í alþjóðlegum samanburði; leiðir til að auka samvinnu skólastiga frá leikskóla til háskóla, greining á skyldum höfuðborgarsvæðisins sem háskólaborgar, staða og horfur varðandi endurmenntun á vinnumarkaði og loks hvernig efla megi menntun í menningargreinum og samstarf sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þeim efnum.

Stýrihópur verkefnaflokksins Skólar í fremstu röð er skipaður eftirfarandi:

 

Gunnar Einarsson,bæjarstjóri Garðabæjar, formaður stýrihóps

Skúli Helgason, stjórnmálafræðingur, verkefnastjóri

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, formaður Félags íslenskra framhaldsskóla

Ragnar Þorsteinsson, sviðsstjóri skóla-og frístundasviðs hjá Reykjavíkurborg  

Anna Kristín Sigurðardóttir, lektor á menntavísindasviði Háskóla Íslands

Björn Þráinn Þórðarson, framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs Mosfellsbæjar

 

Hér má sjá myndir frá fundinum