Ný þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið gefin út
Lykilatriðið í framfylgd svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 er gerð fjögurra ára þróunaráætlana. Með þróunaráætlun er lögð áhersla á að samræma áætlanir sveitarfélaganna um uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis, samgönguframkvæmdir, auk annarra aðgerða til að ná fram markmiðum svæðisskipulags um þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040.
Þróunaráætlunin hefur einnig það gildi að miðla upplýsingum um uppbyggingaráform út í samfélagið. Skrifstofa SSH er vettvangur samstarfs um þróun höfuðborgarsvæðisins og þar hefur verið haldið utan um gerð þróunaráætlunar líkt og kveðið er á um í svæðisskipulagi.
Vinna hófst eftir að svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins samþykkti verk- og fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 á fundi sínum 24. janúar 2020, þar sem kveðið var á um gerð þróunaráætlunar. Skrifstofa SSH gerði samning við verkfræðistofuna VSÓ í maí 2020 um gerð áætlunarinnar. Vinna við þróunaráætlun var unnin í nánu samstarfi við skipulagsfulltrúa hvers sveitarfélags til að draga fram áætlanir um uppbyggingu yfir tímabilið.
Áætlanir sveitarfélaganna gera ráð fyrir að 7.800 íbúðir verði fullbúnar á tímabilinu, eða rétt undir 2.000 íbúðir á ári. Það er um 27% fleiri íbúðir en voru fullbúnar á síðustu fjórum árum (2016-2019) og 53% yfir langtímauppbyggingu íbúða á ári (1999-2019).
Ný mannfjöldaspá gerir ráð fyrir íbúafjölgun upp á rúmlega 10.200 manns á höfuðborgarsvæðinu frá ársbyrjun 2020 til ársloka 2024. Miðað við síðustu fjörgur ár er spáin hófleg og á sér skýringar í efnahagssamdrætti vegna Covid-19.
Mikilvægt er að fylgjast vel með stöðu mála og í niðurlagi þróunaráætlunar er lagt til að við lok árs 2021 verði helstu forsendur áætlunarinnar endurmetnar vegna Covid-19.
Sjá nánar umsögn, skýrslu og skapalón þróunaráætlunarinnar 2020-2024