Fara í efni

Nýr þjónustusamningur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við Fjölsmiðjuna

Nýr þjónustusamningur sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við  Fjölsmiðjuna

Á fundi stjórnar SSH 3. febrúar 2014 var undirritaður nýr þjónustusamningur milli Fjölsmiðjunnar annars vegar og Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness, Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar hins vegar.

Í samningnum er skilgreint samstarf sveitarfélaganna og Fjölsmiðjunnar um verkþjálfun ungs fólks á aldrinum 16-24 ára, sem hætt hefur námi og/eða ekki náð fótfestu á vinnumarkaði. Samningur þessi kemur í stað eldri samnings, en samstarf sveitarfélaganna og Fjölsmiðjunnar hefur staðið í liðlega áratug.

Fjölsmiðjan tekur við nemendum skv. tilvísun sveitarfélaganna og veitir þeim verklega fræðslu og aðstoð til að búa í haginn fyrir þá til aukins skólanáms eða þátttöku á vinnumarkaði, m.a. með því að greina styrkleika og áhugasvið hvers og eins. Sveitarfélögin greiða laun nemanna með á þjálfun stendur og að auki greiða sveitarfélögin 9,3 m. króna í rekstrarstyrk til Fjölsmiðjunnar á árinu 2014.

Samningur þessi er til eins árs, og á samningstímanum verður einnig unnið að því að leita leiða til að styrkja rekstur Fjölsmiðjunnar til lengri tíma, m.a. með því að tengja starfið betur við skólakerfið og með breikkun á núverandi aðstandendahópi.

Auk þess rekstrarframlags sem sveitarfélögin leggja Fjölsmiðjunni til skv. þessum samningi, þá greiða þau einnig 40% af húsaleigu Fjölsmiðjunnar  á móti 60% framlagi ríkissjóðs.