Fara í efni

Nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðis 2040

Íbúafundur um framtíð höfuðborgarsvæðisins

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu stóðu fyrir íbúðarfundi laugardaginn 9. nóvember síðastliðinn um nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2040. Umfjöllunarefni fundarins var nýtt svæðisskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, sem mun marka stefnu um þróun byggðar á svæðinu til ársins 2040.

{loadposition Myndir_Ibuathing_2013}

Fundurinn var haldinn í húsnæði Menntaskólans í Kópavogi og voru hátt í 100 manns mættir til að ræða framtíðarþróun höfuðborgarsvæðisins. Farin var sú leið að bjóða íbúum á höfuðborgarsvæðinu sem valdir voru í slembiúrtaki, þar sem gætt var að jafnri dreifingu búsetu, aldurs og kyns.

Á fundinum var verkefnið kynnt, bæði þær áskoranir sem íbúar svæðisins standa frammi fyrir og valkostir um hugsanlega þróun byggðarinnar til ársins 2040. Í framhaldi ræddu þáttakendur undir leiðsögn borðstjóra og glímdu við spurningar sem snerta höfuðborgarsvæðið og þróun þess, svo sem:

    Hvernig stuðlum við að því að höfuðborgarsvæðið verði aðlaðandi og eftirsóknarvert til búsetu?
    Hvað hefur gott borgarsvæði til að bera?
    Á höfuðborgarsvæðið að vaxa inn á við eða út á við?
    Hverjir eru kostir þess og gallar að ný íbúðarsvæði verði á jaðri svæðisins eða innan núverandi byggðarmarka?

Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hafði umsjón með fyrirkomulagi fundarins og mun taka saman helstu umræðuefni og niðurstöður þáttakenda í skýrslu sem verður gerð aðgengileg á heimasíðu SSH.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu þakkar þáttakendum sem gáfu sér tíma til að ræða verkefnið og gefa sitt álit. Mikilvægt er að sveitarfélögin sem standa að svæðisskipulaginu fái hugmyndir og sjónarmið íbúa við mótun þess.

Nánari upplýsingar um verkefnið Nýtt svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2040 má finna á heimasíðu Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu www.ssh.is. Einnig er hægt að snúa sér til Hrafnkels Á. Proppé svæðisskipulagsstjóra höfuðborgarsvæðisins, með tölvupósti hrafnkell@ssh.is.