Fara í efni

Nýtt svæðisskipulag: startfundur faghópa

Nýtt svæðisskipulag: startfundur faghópa

Fyrsti fundur faghópa um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 var haldinn föstudaginn 20. september 2013, í félagsheimili HK við Furugrund í Kópavogi.

Verkefnið er stofnað til á grundvelli samkomulags sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skrifuðu undir 24. ágúst 2012.

Í samkomulaginu var lögð áhersla á sameiginlega framtíðarsýn og markmið fyrir höfuðborgarsvæðið, setningu starfsreglna fyrir stjórnun svæðisskipulagsins og umsýslu þess. Undir framtíðarsýn og markmið fellur meðal annars: að líta beri á höfuðborgarsvæðið sem eitt búsetusvæði, einn atvinnu- og húsnæðismarkað; að fyrir liggi á hverjum tíma metnaðarfullt svæðisskipulag þar sem sett er fram sameiginleg stefna um hagkvæma og sjálfbæra borgarþróun; að skilgreina landnotkun með áherslu á almenningssamgöngur og hagsmuni gangandi og hjólandi að leiðarljósi.

Á fundinum kynnti Hrafnkell Á. Proppé, svæðisskipulagsstjóri, verkefnislýsingu vegna heildarendurskoðunar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og gerði grein fyrir forsögu þess, helstu viðfangsefnum, forsendum og verkþáttum. Einnig var kynnt til sögunnar ráðgjafateymið sem stýrir faghópum svæðisskipulagsins, en það skipa:

- Þorsteinn Hermannson, umferðarverkfræðingur hjá Mannviti, sem stýrir faghópi um samgöngur.
- Hildigunnur Haraldsdóttir, arkitekt, sem stýrir faghópi um byggðarmynstur.
- Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt, sem stýrir faghópi um náttúru og útivist.
- Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóri, sem stýrir faghópi um grunngerð.
- Matthildur Kr. Elmardóttir, skipulagsfræðingur, frá ALTA, stýrir umhverfismati og kortagerð.
- Hrafnhildur Brynjólfsdóttir, skipulagsfræðingur, frá ALTA, stýrir umhverfismati og kortagerð.

Alls mættu yfir 25 lykilstarfsmenn ríkis, sveitarfélaga og opinberra stofnana sem munu mynda fjóra faghópa nýs svæðisskipulags en verkefninu er stýrt af svæðisskiplagsstjóra. Fundurinn var fyrsta skrefið í reglulegu samráði þeirra aðila sem vinna að nýju svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og munu faghópar í framhaldinu eiga í frekara samráði við væntanlega hagsmunaaðila og aðra fagaðila.

Þeir sem eiga ábendingar fyrir vinnu faghópanna eða liggja á spennandi hugmyndum fyrir framtíðarsýn höfuðborgarsvæðisins mega senda þær beint til SSH á ssh@ssh.is

Samkomulag um svæðisskipulag - undirritað

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðis 2015-2040 - Verkefnislýsing

2013-09-20 09.53.14

2013-09-20 09.54.23 2