Samræmd úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu
„Umhverfið okkar er að gjörbreytast. Við sjáum loks fram á samræmda flokkun og sjáum fram á uppbyggingu á grænum klasa og sorpbrennslu fyrir úrgang sem ekki er hægt að flokka,“ sagði Gunnar Einarsson, formaður stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, við undirritunina og fagnaði þeirri samstöðu og framsækni sem sveitarfélögin hafa sýnt í verki. „Það mun mjög margt spennandi gerast á næstu árum. Við þetta bætist markmið ríkisstjórnarinnar um að vera í fremstu röð á sviði loftslagsmála. Þetta eru spennandi tímar en líka flóknir og samstaða okkar sveitarfélaganna er mikilvæg til að tryggja að þessi markmið náist.“
Gunnar leggur áherslu á mikilvægi fræðsluhlutverks SORPU og sveitarfélaganna þegar kemur að nýja sorphirðukerfinu. „Það er aðdáunarvert að sjá hvernig verkefnahópurinn ávarpaði þann hluta í skýrslu sinni,“ segir Gunnar.
Með yfirlýsingunni sammælast sveitarfélögin um að innleiða eitt sorphirðukerfi á höfuðborgarsvæðinu og sérsöfnun á lífrænum úrgangi.
Á myndinni eru frá vinstri: Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Gunnar Einarsson formaður stjórnar SSH og bæjarstjóri Garðabæjar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur, Regína H Guðbjörnsdóttir staðgengill sveitarstjóra Kjósarhrepps, Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Bjarni Torfi Álfþórsson staðgengill bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar, Arnar Jónsson staðgengill bæjarstjóra Mosfellsbæjar. Ljósmynd: HAG.