Fara í efni

Samþykkt að auglýsa tillögu að nýju svæðisskipulagi

Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins hefur unnið að gerð nýs svæðisskipulags í samræmi við samkomulag sveitarfélaganna dags. 24. ágúst 2012 og verkefnislýsingu sem afgreidd var frá nefndinni 24. maí 2013.

Eðlismunur er á tillögu að nýju svæðisskipulagi og því sem er í gildi. Horfið er frá hefðbundnu landnotkunarskipulagi yfir í stefnumótandi áætlun þar sem stefnan er sett fram undir leiðarljósum í markmiðum og aðgerðum. Enginn eiginlegur skipulagsuppdráttur er í tillögu að nýju svæðisskipulagi heldur er stefnan skýrð frekar með þemakortum og skýringarmyndum.  Tillagan var kynnt á vinnslustigi í mars og apríl á þessu ári.

Svæðisskipulagsnefnd hefur fjallað um athugasemdir sem gerðar voru við tillöguna á vinnslustigi. Margar þeirra leiddu til þess að tillagan þróaðist á jákvæðan hátt.  Á fundi sínum þann 22. ágúst 2014 samþykkti svæðisskipulagsnefnd að auglýsa tillögu að nýju svæðisskipulagi ásamt umhverfisskýrslu 3. mgr. 23. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 7. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum áætlana nr. 105/2006.  Nefndin óskar eftir því að aðildarsveitarfélögin staðfesti þá ákvörðun fyrir 13. október n.k..