Fara í efni

Sterk rödd ungu kynslóðarinnar - Háskólaborg

Árangursríkur stefnumótunarfundur um höfuðborgarsvæðið sem háskólaborg og uppbyggingu í Vatnsmýrinni

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) ásamt forystu ungs fólks á framhaldsskóla- og háskólastigi héldu í morgun stefnumótunarfund í Björtuloftum Hörpu þar sem eitt meginverkefnið var að draga upp sýn og viðhorf ungu kynslóðarinnar til þjónustu sveitarfélaganna við háskólastarfsemi á svæðinu; uppbyggingar vísindagarða og þekkingargreina í Vatnsmýrinni og hvað þarf til svo höfuðborgarsvæðið standi undir nafni sem háskólaborg í fremstu röð.

Á fundinum kom fram einróma ósk um fjölgun leiguíbúða á viðráðanlegu verði fyrir námsmenn, aukna þjónustu við ungar barnafjölskyldur í námi, áhersla á öflugar almenningssamgöngur, vistvæna ferðamáta og fjölgun hjólreiðastíga og fjölmargar hugmyndir um hvernig megi skapa fjölbreytt og lifandi háskólasamfélag á höfuðborgarsvæðinu sem hefur aðdráttarafl bæði fyrir námsmenn heima og erlendis.

Niðurstöður fundarins verða nýttar við að móta sameiginlega framtíðarsýn og áætlun um aðgerðir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu til að bæta þjónustu við námsmenn, styðja við háskólastarfsemi á svæðinu og uppbyggingu þekkingarsamfélags í Vatnsmýri.
Fundurinn var liður í Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins þar sem sérstök áhersla er lögð á sameiginlega stefnumótun og mótun aðgerðaáætlunar sveitarfélaganna í menntamálum, atvinnumálum og markaðssetningu svæðisins.

Verkefnaflokkurinn ?Skólar og menntun í fremstu röð? inniheldur m.a. verkefnið Höfuðborgarsvæðið sem háskólaborg sem felur í sér mat á núverandi stöðu höfuðborgarsvæðisins í hlutverki háskólaborgar og þeim skyldum sem mæta þarf vegna þess hlutverks. Sérstök áhersla verður lögð á þjónustu sveitarfélaganna við nemendur og ungt fólk.

Annar verkefnaflokkur Sóknaráætlunar er ?Vaxtarsamningur fyrir höfuðborgarsvæðið? þar sem eitt verkefna fjallar um uppbyggingu vísindagarða og þekkingargreina í Vatnsmýrinni.

 

{loadposition Myndir_Haskolaborgin_2014}