Fara í efni

Þjónusta við fatlað fólk og börn með fjölþættan vanda - umfangið eykst en fjármagn og úrræði skortir

Fundur þingmanna og kjörinna fulltrúa sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um málefni fatlaðra og barna með fjölþættan vanda.

Föstudaginn 7. mars sl. buðu SSH þingmönnum og kjörnum fulltrúum höfuðborgarsvæðisins til fundar um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda, ásamt stöðu á málefnum fatlaðs fólks, m.a. vegna fyrirhugaðar lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Heiða Björg Hilmisdóttir formaður stjórnar SSH og borgarstjóri setti fundinn og að því loknu voru flutt tvö framsöguerindi. Alls sóttu um 50 manns fundinn og tóku fundargestir virkan þátt í umræðum í kjölfar framsöguerinda.

 

Í fyrra erindinu fjallaði Regína Ásvaldsdóttir bæjarstjóri í Mosfellsbæ og stjórnarmaður í SSH um fyrirkomulag þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Í erindi hennar kom m.a. fram að um langt skeið, allt frá árinu 2013, hafa verið unnar fjölmargar skýrslur og stýri- og vinnuhópar skipaðir til að kortleggja og greina þjónustuþörf barna með fjölþættan vanda og/eða miklar þroska- og geðraskanir. Ljóst er að þörfin kallar á minnst 100 úrræði á hverjum tíma. Þá kom fram að þróun rekstrargjalda félagsþjónustu sveitarfélaga við börn og unglinga hefur aukist um 500% á árinum 2005 til 2020 á meðan framlög til úrræða sem rekin eru af Barna- og fjölskyldustofu hafa nánast staðið í stað. Í erindinu og umræðum á fundinum kom fram að mikið úrræðaleysi einkennir þennan málaflokk um þessar mundir líkt og komið hefur m.a. fram í fjölmiðlum sem og í ábendingum umboðsmanns barna.

Í fyrirlestri Regínu voru lagðar til aðgerðir sem ráðast þarf í strax þ.e. að í fyrsta lagi þurfi að tryggja fjármagn til að komast af stað með fyrstu verkefni, í öðru lagi að fá sveitarfélögin að borðinu við mótun forgangsröðunar og í þriðja lagi að móta uppbyggingaráætlun til tíu ára vegna þeirra úrræða sem m.a. koma fram í fyrirliggjandi skýrslum. Í fjórða og síðasta lagi þurfi að setja upp verkefnateymi sem verði skipað fagaðilum með sérþekkingu á sviði húsnæðismála, verkefnastjórnunar og málefna barna. Umfram allt þurfi að ráðast í verkefnið strax.

Í seinna erindinu kynnti Arnar Haraldsson frá HLH ráðgjöf mat á áhrifum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) á fjárhag sveitarfélaganna. Í umfjöllun um stöðuna í dag og horfur til framtíðar kom m.a. fram að þrátt fyrir samkomulag frá árinu 2023 um breytingar á fjármögnun þjónustu milli ríkis og sveitarfélaga er ennþá halli á fjármögnun gagnvart sveitarfélögunum sem nemur um 12,2 milljörðum kr. á ári. Ljóst sé að miðað við gefnar forsendur muni draga meira í sundur á milli tekna og gjalda við veitingu þjónustunnar. Þeir forsenduþættir sem skýra þessa þróun eru einkum fjölgun einstaklinga sem nýta sér aukna þjónustu, sértæk búsetuþjónusta, fjölgun NPA samninga og aukin þjónusta við einstaklinga með fjöl þættan vanda. Þessi þróun á aukningu útgjalda er áhyggjuefni þegar litið er til afkomu sveitarfélaga. Veltufé sem hlutfall af tekjum sveitarfélaga fór úr því að vera að jafnaði 8,9% milli áranna 2002-2012 í 7,7% árin 2013-2023. Sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu bera að jafnaði 70% útgjalda vegna þjónustu við fatlað fólk á meðan markaðar tekjur þess svæðis voru á sama tímabili 60%. Þar af leiðandi hefur veltufé frá rekstri dregist meira saman hlutfallslega á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

Niðurstaða erindisins var sú að lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna styrki rétt fatlaðs fólks en að óvissu gæti um þróun fjölda einstaklinga sem eiga rétt á þjónustu frá sveitarfélögunum til framtíðar. Skyldur og kröfur sveitarfélaganna hafa tekið mið af SRFF en fjármögnun þjónustunnar hefur ekki tekið mið af þeim skyldum sem leiðir til mismunar á mörkuðum tekjum og rekstrargjöldum. Þá er ljóst að lögfestingin kallar á aukna fjármuni frá hinu opinbera til þess að mæta markmiðsákvæðum laganna en umfangið er nú áætlað 14,1 til 18,6 milljarðar á ári. Er þá miðað við þær forsendur að nokkur biðlisti er eftir sértækri búsetuþjónustu en rúmlega 400 einstaklingar hafa sótt um slíka þjónustu, viðbót vegna NPA samninga og að lokum þjónustu við börn og fullorðna með fjölþættan vanda.

Fundarstjóri var Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH og veitir hann frekari upplýsingar í síma 821-8179.