Vanfjármögnun ríkisins í málaflokki fatlaðs fólks fer vaxandi
Málefni fatlaðs fólks voru flutt frá ríki til sveitarfélaga 2011. Þá var samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks fullgiltur af hálfu Íslands 2016 en fullgilding hans kallaði m.a. á breytingar á lögum um þjónustu við fatlað fólk. Lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir tóku gildi 1. október 2018 og leystu af hólmi eldri lög frá 1992.
Þetta breytta lagaumhverfi hefur leitt af sér ríkari kröfur til sveitarfélaga sem fara með málaflokkinn. Þannig eru gerbreytt markmiðsákvæði[1] í nýjum lögunum og aukin áhersla á rétt einstaklinga til þjónustu. Þær breytingar sem hafa orðið á lagaumhverfi frá færslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga hafa leitt til verulegs kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin án þess að raunhæft kostnaðarmat hafi farið fram[2].
Málið var til umræðu stjórnar SSH þann 11. ágúst sl og var eftirfarandi bókun samþykkt:
,,Vanfjármögnun þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk er mikið áhyggjuefni. Samkvæmt fyrirliggjandi greiningu SSH hefur málaflokkurinn verið vanfjármagnaður af hendi ríkisins um 42 milljarða kr. hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2018-2022 og hefur bilið milli fjármögnunar og kostnaðar farið vaxandi ár frá ári. Augljóst er að vanfjármögnunin hefur þung áhrif á fjárhag sveitarfélaganna. Því leggjur stjórn SSH ríka áherslu á nauðsyn þess að fá fjárhagslega leiðréttingu frá ríkinu til að standa undir útgjöldum sveitarfélaga vegna aukinna krafna í löggjöf og reglum um hærra þjónustustig. Viðræður sveitarfélaganna og ríksins um fjármögnun málaflokksins eru yfirstandandi en hafa tekið allt of langan tíma. Leggur stjórn SSH áherslu á að þeim viðræðum ljúki sem fyrst svo vanfjármögnunin hafi ekki frekari áhrif á fjárhag sveitarfélaganna.
Í sveitarstjórnarlögum er lögð sú skylda á ríkið að kostnaðarmeta þau verkefni sem sveitarfélögum er falið að sinna með lögum enda megi ætla að um fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin verði að ræða. Þjónustan innan þessa mikilvæga málaflokks er stórlega vanfjármögnuð af hálfu ríksins og hefur slæm áhrif á sjálfbærni sveitarfélaganna í rekstri. Ljóst er að lítill ávinningur er af því fyrir ríkið og samfélagið í heild að sveitarfélög reki verkefni með halla eða taki að sér verkefni sem ekki eru fjármögnuð."
Framkvæmdastjóra SSH er falið að rita bréf til ráðherra þar sem farið verði fram á samtal um fjármögnun málaflokksins hið fyrsta. Þá er formanni stjórnar og framkvæmdastjóra falið að funda með hagsmunasamtökum fatlaðs fólks vegna málsins. Enn fremur er framkvæmdastjóra falið að vinna minnisblað um kostnað og fjármögnun vegna reksturs málaflokksins á tímabilinu 2018 til 2022 og senda borgarráði og bæjarráðum.
[1] Skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun laga nr 38/2018 frá apríl 2022, bls 45.
[2] Skýrsla starfshóps um heildarendurskoðun laga nr 38/2018 frá apríl 2022, bls 49.