Fara í efni

Vígsla nýrra skíðamannvirkja í Bláfjöllum

Á laugardaginn 9. desember 2023 fór fram vígsla og formleg opnun nýrra skíðamannvirkja í Bláfjöllum. Við það tækifæri héldu fulltrúar sveitarfélaganna og framkvæmdaaðila stuttar tölur og gestir tóku sér ferð með nýrri stólalyftu og skoðuðu svæðið en veður var með fallegasta móti.

Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarness, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Halla Karen Kristjánsdóttir formaður bæjarráðs Mosfellsbæjar, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs og Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar.

Um er að ræða nýju stólalyfturnar Drottningu og Gosa og nýtt snjóframleiðslukerfi sem hefur verið sett upp á svæðinu. Þá hefur aðstaða fyrir skíðagöngufólk verið stórbætt með nýrri salernisaðstöðu, snjógirðingum og lýsingu. Vonir standa til þess að framangreindar framkvæmdir stórbæti upplifun notenda af svæðinu svo og þess að unnt verði að fjölga opnunardögum með tilkomu snjóframleiðslu.

Eru þessar framkvæmdir samkvæmt samkomulagi um viðamikla uppbyggingu á skíðasvæðunum, en vinna vegna þess hefur staðið yfir á vettvangi Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) allt frá árinu 2018, en þá var undirritað samkomulag eigenda skíðasvæðanna: Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness um endurnýjun og uppbyggingu mannvirkja á svæðinu. Markmið þessara framkvæmda er að bæta aðstöðu og þjónustu fyrir alla hópa skíðaiðkenda. Verkefnið í heild sinni hefur gengið vel og samkvæmt áætlunum.

Framleiðsla og uppsetning á nýjum skíðalyftum var í höndum austurríska fyrirtækisins Doppelmayr í samstarfi við ÍAV og ítalska fyrirtækið TechnoAlpin sá um framleiðslu og uppsetningu á snjóframleiðslubúnaði, einnig í samtarfi við ÍAV. Borun vinnsluholu vegna uppistöðulóns fyrir snjóframleiðslu var í höndum Ræktunarsambands Flóa og Skeiða. Verkefnastjórn var í höndum VSÓ Ráðgjafar í samstarfi við skíðasvæðin, SSH og sveitarfélögin.

Upplýsingar um opnun á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins má finna á heimasíðu síðasvæðanna, www.skidasvaedi.is og Facebooksíðu þeirra www.facebook.com/skidasvaedin.

 

Frekari upplýsingar veitir:
Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH í síma 8218179, netfang: pallbg@ssh.is

Ljósm. Jón Ragnar Jónsson og Helga Björnsdóttir