Fara í efni

Ársskýrsla 2024

Ársskýrsla SSH 2024

Á seinni hluta ársins 2023 og fram yfir mitt ár 2024 hefur SSH unnið að mörgum verkefnum

Formáli

Ársskýrslu þessari, sem er lögð fram á aðalfundi SSH þann 1. nóvember 2024, er ætlað að gefa yfirsýn yfir meginþætti í starfi samtakanna á liðnu starfsári.

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru samstarfsvettvangur sveitarfélaganna Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar, Seltjarnarness og Kjósarhrepps. Sem slík hafa samtökin þjónað sem nauðsynlegur vettvangur til umfjöllunar um mikilvæg samstarfsverkefni sveitarfélaganna. Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, sameiginleg verndun neysluvatns íbúa svæðisins, almenningssamgöngur og önnur samgöngumál innan svæðisins, sameiginleg meðhöndlun og förgun úrgangs, ferðaþjónusta fyrir fatlað fólk og framkvæmdir á skíðasvæðunum eru dæmi um verkefni sem sveitarfélögin hafa tekist sameiginlega á við undanfarin misseri. Þessi verkefni hafa kallað á samráð og sameiginlegar ákvarðanir á vettvangi SSH. Þá hafa fulltrúar SSH, aðallega formaður og framkvæmdastjóri, sótt fjölmarga fundi með ýmsum aðilum, s.s. ráðherrum, þingmönnum, starfsfólki ráðuneyta og annarra stofnana svo og fulltrúum annarra landshlutasamtaka.

Stærstu verkefnin sem SSH hefur fengist við á liðnu ári tengjast eftirfylgni Samgöngusáttmálans og samningaviðræðum við ríkið um uppfærslu sáttmálans. Þeirri vinnu lauk með undirritun viðauka við Samgöngusáttmálann og samkomulagi um rekstur almenningssamgangna og stjórnskipulag sáttmálans. Undirritunin fór fram 21. ágúst síðastliðinn. Þá hefur verið unnið að áhersluverkefnum sóknaráætlunar og er nú unnið að níu verkefnum sem tengjast meginflokkum sóknaráætlunar sem eru atvinna og nýsköpun, umhverfi og samgöngur, og velferð og samfélag. Má þar nefna útivistarvef höfuðborgarsvæðisins sem opnaður verður bráðlega, verkefni sem stuðlar að auknum endurnotum á textíl, greiningu þróunar á Hvítá til Hvítá svæðinu og verkefni tengt forvörnum og geðrækt ungmenna á höfuðborgarsvæðinu, svo dæmi séu tekin. Nú stendur yfir vinna við gerð nýrrar sóknaráætlunar vegna áranna 2025-2029 og verður spennandi að sjá afrakstur hennar.

Á árinu 2023 voru haldnir 22 stjórnarfundir SSH og það sem af er árinu 2024 hafa verið haldnir 17 stjórnarfundir þar sem mörg og fjölbreytt mál hafa verið tekin fyrir. Á árinu 2023 og það sem af er ári 2024 hafa verið haldnir níu svokallaðir örfundir fyrir kjörna fulltrúa á vettvangi SSH. Á þeim eru tekin fyrir málefni líðandi stundar og þau verkefni sem SSH vinna að á hverjum tíma. Það er ánægja meðal kjörinna fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu með þessa fundi og ég vona að þeim verði framhaldið. Þá hafa SSH einnig sent frá sér umsagnir, s.s. við frumvarp til fjárlaga og önnur þau mál sem varða höfuðborgarsvæðið og umræða er um á Alþingi. Allar umsagnir sem SSH senda frá sér eru birtar á heimasíðu samtakanna, en mikil vinna hefur verið lögð í að efla hana og bæta til að tryggja upplýsingaflæði til kjörinna fulltrúa og annarra aðila.

Önnur stór verkefni hafa verið unnin á vettvangi SSH undanfarið. Ber þar hæst stofnun markaðs- og áfangastaðastofu, samræmda úrgangsflokkun og önnur mál sem tengjast hringrásarhagkerfinu, sameiginlega loftlagsstefnu, samkomulag um urðun í Álfsnesi, uppbyggingu á skíðasvæðunum, sameiginleg velferðarmál og þróunaráætlun svo fátt eitt sé nefnt. Gerð er grein fyrir stöðu og gangi þessara verkefna í ársskýrslunni.

Þá er vert að benda á stór viðfangsefni á vettvangi byggðasamlaganna Strætó bs. og Sorpu bs., annars vegar aðlögun á rekstri og leiðakerfi Strætó bs. að þeim breytingum sem verða á komandi árum með tilkomu Borgarlínunnar, og hins vegar þær breytingar sem orðið hafa við meðhöndlun og förgun úrgangs. Þá var á árinu unnið áfram að endurskoðun á stjórnsýslu byggðasamlaganna, m.a. með starfsemi Stefnuráðs byggðasamlaganna og er sú vinna enn í gangi, en stefnuráð hefur fundað alls tólf sinnun.

Mikilvægt er að SSH beini áfram kröftum sínum, enn frekar og í meira mæli, að beinni og markvissari hagsmunagæslu út á við og hafi frumkvæði að samtali og samskiptum við löggjafar- og framkvæmdavald ríkisins um augljósa hagsmuni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Mikið verk er framundan er varðar sameiginleg verkefni SSH og því mikilvægt að styrkja samtökin enn frekar til verka.

Ég vil þakka frábæru og samhentu starfsliði á skrifstofu SSH fyrir sérlega ánægjulegt samstarf undir forystu okkar öfluga framkvæmdastjóra og óska þeim góðs gengis í verkefnum SSH.

Kópavogi 1. nóvember 2024
f.h. stjórnar SSH

Regína Ásvaldsdóttir
formaður stjórnar SSH

SSH

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu voru stofnuð í Hlégarði, Mosfellshreppi, í apríl 1976 og urðu þau því 48 ára á árinu.

Upphaflegur tilgangur með stofnun samtakanna var að móta formlegan vettvang til sameiginlegrar umræðu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um skipulagsmál.

Sjö árum eftir stofnun þeirra fengu samtökin formlega stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga og hafa síðan starfað á grundvelli ákvæða í sveitarstjórnarlögum um landshlutasamtök sveitarfélaga.

Í samþykktum SSH sem samþykktar voru á aðalfundi 2022 segir eftirfarandi um tilgang þeirra og markmið:

„SSH eru sameiginlegur málsvari aðildarsveitarfélaganna og gæta hagsmuna þeirra. SSH eru samstarfs- og samvinnuvettvangur aðildarsveitarfélaganna vegna sameiginlegra verkefna og hagsmunamála þeirra. SSH eru sameiginlegur vettvangur sveitarfélaganna til að fjalla um rekstur þeirra samstarfsverkefna, t.d. byggðasamlaga, sem sveitarfélögin reka sameiginlega hverju sinni.
Skal starfsemi SSH m.a. stuðla að eftirfarandi markmiðum:
- Að efla samstarf sveitarfélaganna og stuðla að samskiptum og samstarfi sveitarstjórnarmanna, sveitarstjórnarnefnda og starfsmanna sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
- Að höfuðborgarsvæðið sé samkeppnishæft gagnvart erlendum borgarsvæðum og bjóði upp á nýsköpun, atvinnulíf, innviði og lífskjör sem eru á borð við þau bestu í heiminum.

SSH skulu hafa frumkvæði að vöktun, greiningu, umræðu og kynningu á málum sem varða sameiginlega hagsmuni aðildarsveitarfélaga. Með sama hætti skulu SSH fylgjast með nýjungum á sviði sveitarstjórnarmála jafnt innalands sem erlendis og miðla þeim til aðildarsveitarfélaganna.
SSH skulu standa fyrir reglubundnu samráði við ríkisvaldið, ráðuneyti og stofnanir um málefni er varða hag sveitarfélaganna og vinna með þeim hætti að framþróun og hagsmunum höfuðborgarsvæðisins.“

Stjórn SSH

  • Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar
  • Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs
  • Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur
  • (Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur frá júní 2022 til janúar 2024)
  • Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Mosfellsbæjar, formaður frá aðalfundi 2022
  • Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar
  • Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Kjósarhrepps
  • Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri Seltjarnarness


Stjórn og framkvæmdastjóri SSH, talið frá vinstri: Ásdís Kristjánsdóttir, Þór Sigurgeirsson, Almar Guðmundsson, Regína Ásvaldsdóttir, Páll Björgvin Guðmundsson, Rósa Guðbjartsdóttir og Einar Þorsteinsson.  Á myndina vantar Þorbjörgu Gísladóttur sveitarstjóra Kjósarhrepps.

Starfsfólk SSH

  • Páll Björgvin Guðmundsson, frá apríl 2019, framkvæmdastjóri
  • Hildigunnur Hafsteinsdóttir, frá mars 2020, lögfræðingur
  • Jón Kjartan Ágústsson, til ágúst 2024, svæðisskipulagsstjóri
  • Ásdís Ólafsdóttir, frá október 2024, svæðisskipulagsstjóri
  • Sandra Björgvinsdóttir frá nóvember 2014 , skrifstofuumsjón
  • Berglind Snorradóttir sumarstarfsmaður 2024

 


Mynd tekin frá Álftanesi /SB

 

Rekstur SSH

Rekstur SSH er fjármagnaður með tvennum hætti:

  • Með árlegu framlagi úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem leggur hverjum landshlutasamtökum sveitarfélaga til árlegt framlag sem ætlað er til að standa undir kostnaði við tiltekna kjarnastarfsemi. Árlegt framlag Jöfnunarsjóðs er nú um 52% af ráðstöfunartekjum SSH en var áður í kringum 70%.

  • Með árgjaldi frá aðildarsveitarfélögunum sem er ákvarðað á aðalfundi samtakanna ár hvert. Á árinu 2023 var árgjaldið 156 kr. á hvern íbúa. Árgjaldið fyrir árið 2024 sem samþykkt var aðalfundi SSH 10. nóvember 2023 er 164 kr.

 

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins er vistað hjá SSH samkvæmt samningi aðildarsveitarfélaganna. Sveitarfélögin greiða sérstaklega kostnað vegna þessa, þ.e. laun svæðisskipulagsstjóra og svæðisskipulagsnefndar, hlutdeild í rekstri skrifstofu SSH auk sérgreinds verkefnaframlags vegna tilfallandi verkefna sem tengjast rekstri svæðisskipulagsins. Þá er öll verkefnastýring og umsýsla sóknaráætlunar, þ.m.t. áhersluverkefna hennar, vistuð hjá SSH.

SSH hafa að auki verið falin verkefnaleg og fjárhagsleg umsjón margvíslegra verkefna sem ekki rúmast innan hefðbundinna verkefna þeirra. Í þeim tilfellum innheimta SSH sérstaklega kostnað vegna slíkra verkefna hjá aðildarsveitarfélögunum. Sem dæmi má nefna að á árunum 2019 og 2020 hélt skrifstofa SSH utan um fjármál Samgöngusáttmálans að því er varðaði framlög sveitarfélaganna og fjárhagslega umsýslu undirbúnings Borgarlínu. Þá hefur verkefnastjórnun framkvæmda á skíðasvæðunum verið vistuð hjá SSH. Auk þess hafa önnur tímabundin verkefni og verkefnastjórar þeirra verið hýst hjá SSH.

SSH vinna markvisst að eflingu og styrkingu upplýsingakerfa og skilvirku upplýsingaflæði milli SSH og kjörinna fulltrúa sveitarfélaganna. Aðlögun að ONE fundakerfi og gagnagátt kjörinna fulltrúa þar sem fundaskjöl eru aðgengileg með rafrænum hætti hefur gengið vel en kerfið var tekið í notkun haustið 2021. Markmiðið er fyrst og fremst að bæta aðgengi og gagnaöryggi til mikilla muna. Frá árinu 2015 hafa öll mál verið skráð í rafræna málaskrá til að tryggja yfirsýn og rekjanleika.

Ný vefsíða SSH fór í loftið í lok júní 2023 en vinna við uppsetningu hennar hefur staðið yfir frá árinu 2022. Áhersla er lögð á gott aðgengi og að vefsíðan gefi glögga mynd af yfirgripsmiklum verkefnum samtakanna.

Fundaaðstaða SSH að Hamraborg 9, Kópavogi stendur opin fyrir alla þá verkefna- og starfshópa sem vinna að sameiginlegum verkefnum á vegum sveitarfélaganna, og t.a.m. halda Skólamálanefnd SSH og Samráðshópur á sviði velferðarmála reglulega fundi sína á skrifstofu SSH.

Tafla 1 sýnir þróun á tekjum og rekstrarkostnaði kjarnastarfsemi SSH samkvæmt ársreikningi 2019-2023 og áætlun ársins 2024.


Allar tölur í þús. kr.

 

SSH hafa umsjón með margvíslegum verkefnum sem ekki eru hluti af kjarnastarfsemi samtakanna.
Í töflu 2 er gerð grein fyrir þessum verkefnum, rekstri og fjármögnun þeirra.

 

Helstu verkefni SSH 2023-2024

 

Samgöngusáttmálinn

Hinn 26. september 2019 var Samgöngusáttmálinn, samkomulag ríkisins og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum, undirritaður. Markmið sáttmálans eru: Að stuðla að greiðari samgöngum og fjölbreyttum ferðamátum með jafnri uppbyggingu innviða allra samgöngumáta; að stuðla að loftslagsmarkmiðum ríkis og sveitarfélaga um sjálfbært, kolefnishlutlaust borgarsamfélag með eflingu almenningssamgangna og deilihagkerfis í samgöngum, bættum innviðum fyrir vistvæna samgöngumáta og hvetja til breyttra ferðavenja og orkuskipta; að stuðla að auknu umferðaröryggi með það að markmiði að draga stórlega úr umferðarslysum; og að tryggja skilvirka framkvæmd og trausta umgjörð verkefnisins, m.a. með því að skilgreina samstarfsform, kostnaðarskiptingu, ábyrgð á tilteknum aðgerðum og fjármögnunarleiðir. Samkvæmt sjálfstæðri greiningu á samfélagslegum ábata af verkefnum Samgöngusáttmálans sem unnin var á árinu 2023 er ábatinn metinn 1.140 ma.kr.


Við undirritun Samgöngusáttmálans: Talið frá vinstri Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri Seltjarnarness, Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar, Almar Guðmundsson bæjarstjóri Garðabæjar, Regína Ásvaldsdóttir formaður stjórnar SSH og bæjarstjóri Mosfellsbæjar, Einar Þorsteinsson borgarstjóri, Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra, Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra.


Betri samgöngur ohf., sem er opinbert hlutafélag í eigu ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, var stofnað haustið 2020 en tilgangur þess er að hrinda í framkvæmd uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu og hafa yfirumsjón með framkvæmdum Samgöngusáttmálans og fjármögnun þeirra. Er félaginu þá falið að annast þróun Keldnalands, sem er hluti af framlagi ríkisins til sáttmálans, og að annast innheimtu flýti- og umferðargjalda verði ákveðið með lögum að leggja þau á. Stjórn félagsins er skipuð sex einstaklingum, þremur frá ríki og þremur frá sveitarfélögunum. Það er stjórn SSH sem fer með eigendaumboð sveitarfélaganna.

Sérstakur stýrihópur vegna verkefnisins starfar samkvæmt stjórnskipulagi sáttmálans, en honum er m.a. ætlað að fjalla um ágreining sem komið getur upp í samskiptum ríkis eða sveitarfélaga við félagið um túlkun ákvæða eða forsendna sáttmálans eða um fjármögnun eða ráðstöfun fjármuna. Stýrihópinn skipa borgarstjóri Reykjavíkur, formaður og varaformaður stjórnar SSH, forsætisráðherra, innviðaráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra.

Aðilar Samgöngusáttmálans ákváðu í mars 2023 að hefja undirbúning að því að uppfæra sáttmálann og gera viðauka við hann m.a. í ljósi mikilla verðhækkana, einkum í verklegum framkvæmdum sem hafa haft áhrif á kostnaðaáætlanir. Skrifað var undir uppfærslu sáttmálans hinn 21. ágúst 2024. Með uppfærslunni var gildistími sáttmálans lengdur til ársins 2040 til að tryggja raunhæfan tímaramma fyrir undirbúning og fjármögnun. Skipting fjármögnunar milli ríkis og sveitarfélag verður hin sama og áður, þ.e. sveitarfélög með 12,5% og ríkið 87,5%.

Samhliða uppfærslunni undirrituðu ríkið og sveitarfélögin samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulagið felur í sér að sveitarfélögin og ríkið stofni sameiginlegt félag sem beri ábyrgð á skipulagi og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Rekstur nýja félagsins mun taka hvort tveggja til hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu. Ríkið mun bera þriðjung af rekstrarkostnaði að frádregnum farþegatekjum á móti sveitarfélögunum. Þá mun ríkið veita framlög til orkuskipta í almenningssamgöngum.
Nánar

Viðræðuhópur um uppfærslu Samgöngusáttmálans.Talið frá vinstri efri röð: Birgir Björn Sigurjónsson, Ólöf Örvarsdóttir Reykjavíkurborg, Sigrún Ólafsdóttir forsætisráðuneytinu, Ásthildur Helgadóttir Kópavogsbæ og Guðjón Friðriksson Garðabæ. Neðri röð frá vinstri: Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Guðmundur Axel Hansen fjármálaráðuneytinu, Árni Freyr Stefánsson innviðaráðuneytinu, Ragnhildur Hjaltadóttir innviðaráðuneytinu og Árni M. Mathiesen.
Myndir teknar við undirritun Samgöngusáttmálans 21. ágúst 2024

 

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins

Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins: Höfuðborgarsvæðið 2040

Gildandi svæðisskipulag: Höfuðborgarsvæðið 2040, var undirritað 2015 og er sameiginleg stefna sveitarfélaganna Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kjósarhrepps, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, Reykjavíkurborgar og Seltjarnarnesbæjar um náið samstarf, skipulagsmál og hagkvæman vöxt svæðisins næstu 25 árin, enda er höfuðborgarsvæðið eitt búsetusvæði og einn atvinnu- og húsnæðismarkaður með sameiginleg grunnkerfi, útivistarsvæði, auðlindir og náttúru.

 

     
Mynd af forsíðu Höfuðborgarsvæðið 2040 og mynd af korti 2 -Miðkjarnar af blaðsíðu 31 í bókinni

Verkefni tengd framfylgd svæðisskipulags hafa verið fyrirferðarmikil í starfi SSH. Þar ber hæst að nefna stofnun Betri samgangna ohf. sem hafa yfirumsjón með framkvæmdum Samgöngusáttmálans árið 2020 og uppfærslu Samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaga árið 2024.

Nánar

Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins

Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins er hýst hjá SSH og starfar skv. samkomulagi sveitarfélaganna um svæðisskipulag og starfsreglum nefndarinnar. Núverandi nefnd tók til starfa í ágúst 2022 í kjölfar sveitarstjórnarkosninga. Formaður er Pawel Bartoszek fulltrúi Reykjavíkurborgar í nefndinni og varaformaður er Hjördís Ýr Johnson fulltrúi Kópavogs. Nefndin fundaði tíu sinnum frá nóvember 2023 til október 2024 og tók fyrir yfir 50 erindi sem henni bárust. 

Nánar

Hágæða grænar samgöngur RVK-KEF

Svæðisskipulagsnefnd styrkti málþing sem fór fram 25. október 2023 um tækifæri í bættum almenningssamgöngum milli höfuðborgarsvæðisins og Keflavíkur. Á málþinginu komu fram innlendir og erlendir fyrirlesarar sem ræddu um áskoranir og tækifæri í bættum almenningssamgöngum. Að fundinum stóðu jafnframt Reykjavíkurborg, innviðaráðuneytið, Kadeco, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum. Markmið fundarins var að eiga opið samtal um mögulegar lausnir fyrir framtíðina því það er ljóst að núverandi samgöngulausnir munu ekki endast svæðinu til lengdar. Þátttaka á fundinum var góð og þegar mest var voru í salnum um 120 manns. Hátt í 700 manns fylgdust með streymi frá málþinginu.

Nánar


Útgáfa leiðbeiningnna Mannlíf, byggð og bæjarrými

Skipulagsstofnun og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu/svæðisskipulagsnefnd hafa unnið að þróun leiðbeininga um sjálfbært skipulag og vistvænar samgöngur í þéttbýli undanfarin ár. Leiðbeiningarnar eru unnar í samstarfi við Teiknistofuna STIKU og einnig komu að verkefninu EFLA og Landmótun landslagsarkitektar.

SSH og Skipulagsstofnun stóðu fyrir útgáfuhófi í anddyri Skipulagsstofnunar 25. janúar 2024 þar sem vefsvæði leiðbeininganna var opnað af Ólafi Árnasyni forstjóra Skipulagsstofnunar og Pawel Bartoszek formanni svæðisskipulagsnefndar. Þessi útgáfa leiðbeininganna er vefútgáfa sem er aðgengileg á vef Skipulagsstofnunar. Þar er hægt að skoða leiðbeiningarnar í heild eða hvern kafla fyrir sig. Einnig er hægt að sækja myndefni leiðbeininganna til að nota í kynningar og annað efni. Það er von þeirra sem að leiðbeiningunum standa að þær muni nýtast öllum þeim sem láta sig skipulagsmál varða. Það á við um fagstéttir, embættisfólk, kjörna fulltrúa og vitaskuld almenning.

Nánar


Heimsóknir svæðisskipulagsnefndar til sveitarfélaga

Hinn 17. nóvember 2023 heimsótti svæðisskipulagsnefnd Garðabæ. Þá heimsótti nefndin Mosfellsbæ 3. maí 2024.

Heimsóknirnar voru í boði skipulagsnefnda og skipulagsstjóra hlutaðeigandi sveitarfélaga og eru hluti af áherslum nefndarinnar fyrir kjörtímabilið 2022-2026 sem eru meðal annars að heimsækja öll aðildarsveitarfélög svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og kynnast helstu verkefnum sem standa yfir hverju sinni.

Heimsókn í Garðabæ

Nánar

Heimsókn í Mosfellsbæ

Nánar

 

Nýr svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins

Á árinu sagði Jón Kjartan Ágústsson svæðiðsskipulagsstjóri starfi sínu lausu. Ásdís Ólafsdóttir var ráðin í starf svæðisskipulagsstjóra höfuðborgarsvæðisins og hóf hún störf í lok októbermánuðar.

Nánar

 

Vatnsvernd og vatnsnýting

Samráðshópur um vatnsvernd og vatnsnýtingu

Hópinn skipa formaður svæðisskipulagsnefndar, formaður framkvæmdastjórnar vatnsverndar á höfuðborgarsvæðinu og fulltrúar frá vatnsveitum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Hlutverk hópsins er: Að tryggja nauðsynlega yfirsýn yfir þau mál og viðfangsefni sem lúta að vatnsvernd höfuðborgarsvæðisins og verkefnum sem henni tengjast á hverjum tíma; að tryggja samstillingu þeirra aðila sem bera ábyrgð á vatnsvernd og vatnsnýtingu innan vatnsverndarsvæða höfuðborgarsvæðisins, m.a. í samræmi við lögboðnar skyldur sveitarfélaganna, heilbrigðiseftirlits og veitna. Hópurinn fundar mánaðarlega á vettvangi SSH undir hatti svæðisskipulags.

Nánar

Rannsóknarborholur í Bláfjöllum

Verkefnið á upphaf sitt í samkomulagi sveitarfélaganna í maí 2018 um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins og mótvægisaðgerðum vegna vatnsverndar sem m.a. fela í sér fjölgun á rannsóknarborholum, rýni á grunnvatnslíkani og tillögur að grunnvatnsrannsóknum.

Framkvæmdir við þrjár rannsóknarborholur hófust í byrjun sumars 2024 að undangengnum samningum við Jarðval sf. vegna jarðvinnu og Ræktunarsamband Flóa og Skeiða um jarðboranir. Cowi ráðgjafar sinna verkefnastjórnun og eftirliti. Miðað við framvindu er gert ráð fyrir verklok verði í nóvember 2024.


Kort af framkvæmdarsvæði. Rauðir hringir sýna borsvæði. Svartar línur sýna slóðagerð. Hvít lína sýnir Bláfjallaleið.

Nánar

Grunnvatns- og rennslislíkan höfuðborgarsvæðisins

Helsta verkefni samráðshópsins er umsjón með grunnvatns- og rennslislíkani höfuðborgarsvæðisins. Líkanið er hýst hjá ráðgjafarstofunni Vatnaskilum og gegnir lykilhlutverki í framfylgd vatnsverndar sem og við mat á áhrifum nýrra framkvæmda eða starfsemi á aðrennslissvæðum vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins. Líkanið er í stöðugri endurskoðun með gagnasettum sem eru sótt m.a. í vatnamæla sem eru í borholum á höfuðborgarsvæðinu. Nýjar rannsóknarholur eru liður í að styrkja grunn vatnafarslíkansins sem veitufyrirtækin á höfuðborgarsvæðinu viðhalda. Kostnaður vegna viðbótargrunnrannsókna skiptist á milli vatnsveitna á höfuðborgarsvæðinu.

 

Þróunaráætlun

Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2024 var kynnt haustið 2024 en hún er þriðja þróunaráætlunin sem unnin er á grunni Svæðiskipulags höfuðborgarsvæðisins: Höfuðborgarsvæðið 2040, en áður hafði SSH látið vinna þróunaráætlun fyrir tímabilin 2015-2018, 2020-2024 og stöðutöku árið 2022.

Með þróunaráætlun er lögð áhersla á að samræma áætlanir sveitarfélaganna um uppbyggingu íbúða- og atvinnuhúsnæðis, auk annarra aðgerða til að ná fram markmiðum svæðisskipulags um þróun höfuðborgarsvæðisins til ársins 2040. Þróunaráætlun er einnig ætlað að miðla upplýsingum um stöðuna og uppbyggingaráform. Í þróunaráætlun er fjallað um heimildir í skipulagi fyrir byggingu íbúða, þ.e.a.s. óbyggt húsnæði í skipulagi. Tölulegar upplýsingar ná ekki til húsnæðis í byggingu, en þær má finna á vefsíðu HMS.

Nýjar áherslur í framlagðri þróunaráætlun 2024 eru að skoða aldur skipulagsheimilda á höfuðborgarsvæðinu, hlutfall samþykktra skipulagsheimilda á byggingarhæfum lóðum, eignarhald lóða og húsnæði án hagnaðarsjónarmiða.


Samantekt – helstu niðurstöður

  • Samantekt á skipulagsheimildum fyrir íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu leiðir í ljós að í gildandi aðalskipulagsáætlunum sveitarfélaganna er gert ráð fyrir uppbyggingu 57.700 íbúða innan vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. Miðast sú tala við punktstöðu í árslok 2023. Ekki er tekið tillit til þeirra íbúða sem eru í byggingu. Tímalengd aðalskipulagsáætlana er mislangur en lengst ná aðalskipulagsáætlanir Reykjavíkur og Kópavogs, eða til ársins 2040.

  • Til samanburðar er núverandi fjöldi fullbúinna íbúða á höfuðborgarsvæðinu 97.958. Heildarfjöldi íbúða á Íslandi er 156.084.

  • Á höfuðborgarsvæðinu liggur fyrir staðfest deiliskipulag fyrir 12.083 nýjum íbúðum, þar af eru 6.262 íbúðir á lóðum sem teljast byggingarhæfar og gatnagerð lokið  samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélögunum.

  • Þá eru 11.038 íbúðir í skipulagsferli hjá sveitarfélögunum, þ.e. skipulagslýsing hefur verið auglýst eða skipulagsgerð stendur yfir.

  • Miðað við mat sveitarfélaganna getur verið mögulegt að hefja uppbyggingu 3.375 íbúða að meðaltali á ári, næstu fjögur árin, að því gefnu að fjármögnun, mannafli og tækjakostur standi til boða.

  • Búið er að úthluta 70% byggingarréttar (byggingarheimilda) þeirra íbúða þar sem deiliskipulag er samþykkt. Það samsvarar rétt um 8.500 íbúðum.

  • Áætlun um óhagnaðardrifna húsnæðisuppbyggingu gerir ráð fyrir að 250- 450 fullbyggðar íbúðir komi á markað á höfuðborgarsvæðinu á ári á tímabilinu 2024-2027.

  • Samkvæmt Hagstofu Íslands var mannfjöldi á höfuðborgasvæðinu 243.908 þann 1. janúar 2024. Í nýju mati Hagstofunnar fækkaði íbúum um u.þ.b. 7.500 íbúa frá fyrri talningu og er ástæðan endurmat Hagstofunnar á íbúafjölda á landinu öllu.

  • Að meðaltali búa 2,46 manns í íbúð á höfuðborgasvæðinu. Þróunin undanfarin áratug er að fjöldi íbúa á hverja íbúð hefur farið lækkandi, en hefur hækkað á síðastliðnum tveimur árum. Sú þróun gefur vísbendingu um að erfiðara sé fyrir fyrstu kaupendur að komast inn á húsnæðismarkaðinn.

  • Áætlanir sveitarfélaga um íbúðauppbyggingu falla ágætlega að mannfjöldaþróun á höfuðborgasvæðinu til 2027. Niðurstöður þróunaráætlunar gefa til kynna að á höfuðborgarsvæðinu eru rúmar skipulagsheimildir til uppbyggingar. 

  • Heildarfjöldi skipulagsheimilda í aðalskipulagi getur hýst allt að 142.000 manns til viðbótar við núverandi íbúafjölda – ef miðað er við meðaltalið 2,46 manns í íbúð. Af skipulagsheimildunum eru 12.083 nýjar íbúðir í staðfestu deiliskipulagi. Ætla má að um sé að ræða skipulagsheimildir sem gætu rúmað allt að 30.000 íbúa. Þessir útreikningar miða við núverandi meðaltal íbúa í íbúð og taka því ekki tillit til uppsafnaðrar þarfar fyrir íbúðir eða mögulegra breytinga á fjölskyldumynstri í framtíðinni. 

  • Öll fyrirliggjandi uppbygging á sér stað innan gildandi vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins. 

  • Af áætlaðri uppbyggingu eru 71% innan áhrifasvæðis samgöngu- og þróunarása eins og þeir eru skilgreindir í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. 

  • 54% framtíðarsvæða íbúðaruppbyggingar eru innan áhrifasvæðis samgöngu og þróunarása. Það er verkefni næstu ára að stækka þá þannig að þeir taki til stærri hluta framtíðarsvæðanna.

 

Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020-2024

Hinn 6. mars 2020 samþykkti stjórn SSH sóknaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið 2020–2024. Sóknaráætlun er stefnuskjal sem felur í sér stöðumat höfuðborgarsvæðisins, framtíðarsýn og markmið í tilgreindum málaflokkum ásamt skilgreindum leiðum að markmiðunum. Verkefnið er hluti af sóknaráætlun landshluta, en tekur jafnframt mið af þeirri stefnu og framtíðarsýn sem kemur fram í Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2015–2040.

Framfylgd sóknaráætlunar felst í að vinna að ákveðnum áhersluverkefnum fyrir hvert ár yfir tímabilið. Áhersluverkefni eru samþykkt af stjórn SSH og stýrt af SSH í samstarfi við sérstaka ráðgjafa og/eða verkefnastjóra. Á heimasíðu SSH er að finna ítarlegar upplýsingar um sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins og verkefni sem unnin hafa verið undir hatti hennar. Vefslóð https://www.ssh.is/is/verkefni/soknaraaetlun.

Áhersluverkefni 2023 og 2024

Á tímabilinu var unnið að eftirfarandi áhersluverkefnum sóknaráætlunar:

Útivistarvefur höfuðborgarsvæðisins
Verkefnið felst í því að útbúa vefsíðu og/eða smáforrit sem dregur fram helstu útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu og aðrar tómstundir fyrir íbúa og gesti, með það að markmiði að stuðla að aukinni hreyfingu og útivist. SSH hefur notið ráðgjafar frá Sjá ehf. við verkefnastjórnun og samið hefur verið við Um að gera ehf. um hönnun, smíði og uppsetningu á vefnum. Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins er samstarfsaðili verkefnisins og er stefnt að því að stofan taki yfir hýsingu og rekstur útivistarvefsins eftir að verkefninu lýkur. Vinna við verkefnið stendur enn yfir.
Nánar

 

Útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu - greining
Verkefni sem felur í sér að kortleggja umfang útivistarsvæða á höfuðborgarsvæðinu, framkvæma spurningakönnun um notkun þeirra og teikna kort sem sýnir vinsælustu svæðin. Verkefninu lauk síðla árs 2023 og var kortið afhent sveitarfélögunum og birt á heimasíðu SSH.
Nánar

 

 

Útivist við vötn, haf og gönguskíðaiðkun
Þann 19. júní 2024 var gengið til samninga við tó arkitekta um verkefnastýringu. Markmiðið með verkefninu er að greina tækifæri á höfuðborgarsvæðinu til að styrkja útivist við vötn, haf og gönguskíðaiðkun innan höfuðborgarsvæðisins. Verkefnið felst í því að kortleggja hvaða svæði gætu hentað fyrir útivist og leiki sem tengjast vötnum, hafi og gönguskíðaiðkun. Kortleggja hvar slík starfsemi er fyrir og hvernig megi styrkja hana frekar. Eins að leggja fram hugmyndir að uppbyggingu til skamms og langs tíma og þá hvers kyns rekstrarform henti hverri starfsemi á hverju svæði.
Nánar

 

Forvarnir og geðrækt ungmenna á höfuðborgarsvæðinu
Gengið var til samninga við verkefnastjóra frá NORTH Consulting um verkefnastýringu þann 7. júní 2024. Markmið verkefnsins er að vinna að samræmdum viðmiðum og áætlunum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um forvarnir og geðrækt ungmenna, byggt á þarfagreiningu og könnun á afstöðu hópsins sjálfs. Verkefnið felst í því að vinna með vinnuhóp að drögum um samræmd viðmið og áætlanir sveitarfélaganna um þjónustu til að draga úr skólaforðun og brottfalli úr námi, íþróttum og atvinnu. Eins að greina tölfræðiupplýsingar um afdrif barna að loknum grunnskóla og vinna að þróun tillagna verkefna fyrir börn og ungmenni á sviði forvarna og geðræktar.
Nánar

 

Börn innflytjenda í skólum á höfuðborgarsvæðinu
Markmiðið með verkefninu er að greina fjölda og stöðu barna með annað móðurmál en íslensku í skólakerfinu á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að bæta verklag við móttöku barna og stuðning við þau í skóla- og frístundastarfi. Verkefnið felst í því að kortleggja þörf og umfang þjónustu til nýrra íbúa á höfuðborgarsvæðinu þegar kemur að skóla- og frístundastarfi og kostnaðarmeta þessa þjónustu. Verkefnið er enn á vinnslustigi.
Nánar

 

Loftslagsstefna fyrir höfuðborgasvæðið
Verkefnið hófst 2020 með mælingu á losun gróðurhúsalofttegunda innan höfuðborgarsvæðisins og hélt áfram árin 2021-2022 með mótun sameiginlegrar loftslagsstefnu sem var lögð fyrir sveitarfélögin til kynningar og umsagnar á árinu 2022. Endanleg tillaga að loftslagsstefnu var samþykkt og undirrituð á árinu 2023. Í kjölfar undirritunarinnar gerði SSH samkomulag við umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytið í þeim tilgangi að fylgja loftslagsstefnunni eftir, m.a. með ráðningu ráðgjafa til þess að aðstoða sveitarfélögin við að móta aðgerðir til samræmis við verkfærakistu loftslagsstefnunnar. SSH gerði samning við VSÓ ráðgjöf um að sinna framangreindum verkþáttum. Fyrrnefndum verkefnum lauk sumarið 2024 og fyrir liggur skýrslan Kolefnisspor höfuðborgarsvæðisins - Útreikningur á losun höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2022 dags. maí 2024. Bent er á að losun nær til ársins 2022 vegna þess að ekki eru til nýrri gögn frá opinberum stofnunum. Þá er einnig fyrirliggjandi skýrslan Innleiðing á loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins dags. maí 2024.
Nánar

 

Áætlun um landnotkun, húsnæði og samgöngur
Verkefnið fólst að greina svokallaða MBT/MAL samninga, sem eru gerðir í Finnlandi milli ríkis og sveitarfélaga, og varða sameiginlega framtíðarsýn í málaflokkunum skipulag, húsnæði og samgöngur. Var gerður samningur við Mannvit ráðgjöf um að verkefnastýra og vinna lokaskýrslu verkefnisins en hún var kynnt á fundi stjórnar SSH í febrúar 2024.
Nánar

 

Almenningssamgöngur – nýir notendur
Strætó bs. og SSH gerðu með sér samning þann 24. júní 2024. Verkefnið er framhaldsverkefni verkefnisins Almenningssamgöngur – ábati, markaðsgreining og markaðssetning sem var eitt af áhersluverkefnum ársins 2023. Markmiðið með verkefninu er að auka þekkingu og ánægju nýrra notenda með almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Strætó bs. tekur að sér að vinna greiningar á viðhorfi íbúa á notkun almenningssamgangna. Ætlunin er að nýta niðurstöður til aukinnar fræðslu almennings um fyrirliggjandi þjónustu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að auka notkun þeirra.
Nánar

 

Þróun Hvítá til Hvítá svæðisins (SV hornið)
Þann 18. júní 2024 var gengið til samninga við Nordic Office of Architecture um verkefnastýringu. Markmiðið með verkefninu er að greina framtíðarbyggðaþróun þéttbýlis umhverfis höfuðborgarsvæðið og móta mismunandi sviðsmyndir til ársins 2050. Skoðað verði hver áhrifin geta orðið með tilliti til m.a. atvinnumála og samkeppnishæfni, ferðatíma allra ferðamáta og umferðarmagns, gæða og ásýnd bæjarrýma og húsnæðis og lýðfræði.
Nánar

 

Forkönnun á sameiginlegum innkaupavef
Markmiðið með verkefninu er að greina hvort fýsilegt sé að setja á laggirnar sameiginlegan innkaupavef til að ná fram hagkvæmni í innkaupum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Var samið við Sjá ehf. um að annast forkönnun á fýsileika þessa verkefnis og lágu niðurstöður hennar fyrir í maí 2024. Verkefnið er enn á vinnslustigi.
Nánar

 

Invest in Reykjavík – áframhaldandi þróun og staðsetning
Þann 4. júní 2024 var gengið til samninga við Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins um áframhaldandi þróun á vefnum Invest in Reykjavík og greiningu á því hvar verkefninu verði best fyrirkomið til framtíðar m.t.t. stofnunar Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins. Markmið Invest in Reykjavík er að veita væntanlegum fjárfestum á einum stað helstu upplýsingar um höfuðborgarsvæðið sem staðarvalkost fjárfestinga þvert á markaði. Vinna við verkefnið stendur enn yfir.
Vefur

 

Fráveitumál höfuðborgarsvæðisins
Markmið verkefnisins er að kortleggja og greina fráveitumál höfuðborgarsvæðisins, þ.m.t. framkvæmdir á svæðinu og rekstrarfyrirkomulag. Einnig að greina þær kröfur sem löggjafinn leggur á herðar sveitarfélögunum í lögum, reglugerðum og stefnumótandi áætlunum. Ráðgjafahópur var skipaður vegna málsins og skilaði hann minnisblaði með tillögum um næstu skref í maí 2024. Verkefnið stendur enn yfir og hefur SSH fengið fulltrúa í samráðshópi um fráveitur.
Nánar

 

Innleiðing hringrásarhagkerfis
Tilgangur verkefnisins er að greina verkefni sveitarfélaganna vegna nýrra laga um hringrásarhagkerfið og tækifæri til frekari samstarfs og úrbóta. Starfshópur á vegum sveitarfélaganna hittist reglulega til að rýna hvaða verkefni voru framundan hjá sveitarfélögunum eftir samþykki laga um hringrásarhagkerfið. Stefnuráð byggðasamlaganna fól hópnum jafnframt að vinna tillögu að tillsameiginlegri sorpsamþykkt fyrir sveitarfélögin sem er ætlað að nýtast við heildarstefnumörkun sveitarfélaganna um hringrásarhagkerfi á höfuðborgarsvæðinu. Verkefnið komst til framkvæmda á árinu 2023.
Nánar

 

Samræming úrgangsflokkunar á höfuðborgarsvæðinu
Verkefnið hófst 2020 þegar starfshópur tæknifólks frá sveitarfélögunum lét vinna skýrslu um fýsileika þess að hafa samræmt flokkunarkerfi við heimili á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin samþykktu áframhaldandi samstarf vegna þess og stóð tillögugerð yfir á árunum 2021-2022, í samstarfi SSH, Sorpu og tæknihóps sveitarfélaganna, sem skiluðu tillögu að sameiginlegu úrgangsflokkunarkerfi í byrjun árs 2022. Sveitarfélögin skrifuðu undir yfirlýsingu um áframhaldandi samstarf og innleiðingu í mars 2022. Verkefninu lauk á haustdögum 2023 eftir að innleiðingu á samræmdu úrgangsflokkunarkerfi við heimili á höfuðborgarsvæðinu var lokið.
Nánar

 

Dregið úr förgun rafúrgangs
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið veitti SSH aukaframlag í lok árs 2022 til að styðja við verkefni sem varða hringrásarhagkerfið. Verkefnið varðar viðgerðir á rafúrgangi sem annars hefði verið fargað og var unnið í samstarfi við Sorpu. Verkefnið komst til framkvæmda á árinu 2023 og var skýrsla vegna þess afhent í byrjun árs 2024. Verkefnið leiddi til breytts verklags á endurvinnslustöðvum Sorpu við móttöku heimilistækja og var sett upp verkstæði í Góða hirðinum til að yfirfara þau tæki sem berast.
Nánar

 

Endurnotkun á textíl
Verkefnið er fjármagnað með sérstöku framlagi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins til styrkingar umhverfistengdra verkefna. Samningur var gerður við Sorpu bs. um verkefnastýringu en verkefnið felur í sér að greina umfang textílúrgangs og leita leiða til aukinna endurnota. Verkefnið stendur til haustsins 2025.

 

Kostnaður og umsjón áhersluverkefna sóknaráætlunar

Stór þáttur í starfsemi og verkefnum SSH er umsjón með áhersluverkefnum sóknaráætlunar. Verkefnin eru eftir atvikum unnin með aðkomu utanaðkomandi verkefnastjóra. Framlag til verkefnanna er að stærstum hluta fjármagnað úr ríkissjóði en einnig með framlagi SSH, sem nemur um 17% af framlagi ríkisins ár hvert.

Yfirlit yfir sóknaráætlunarverkefni á vegum SSH 2020-2023
 

 

Byggðasamlögin


Í starfs- og fjárhagsáætlun SSH 2020 var ákveðið að hefja umræðu og stofna til verkefnis um stjórnsýslulega stöðu byggðasamlaganna. Utanaðkomandi ráðgjafi (Strategía) var fenginn til að vinna úttekt og skýrslu varðandi skipulag og stjórnarhætti byggðasamlaganna á höfuðborgarsvæðinu. Að lokinni kynningu og umfjöllun um skýrsluna var ákveðið að koma á fót starfshópi kjörinna fulltrúa til að vinna áfram að verkefninu. Lagði hópurinn til að Stefnuráði byggðasamlaga yrði komið á fót og því m.a. falið að útfæra og móta tillögur að framtíðarsviðsmyndum og rekstrarfyrirkomulagi byggðasamlaganna. Stjórn SSH féllst á þá tillögu og var skrifstofu SSH falið að vinna drög að viðaukum við stofnsamninga Sorpu bs. og Strætó bs. til að festa hlutverk stefnuráðs í sessi. Stefnuráð er skipað 20 fulltrúum, þ.e. þremur fulltrúum frá hverju sveitarfélaganna utan Reykjavíkur, sem á fimm fulltrúa í ráðinu. Enn sem komið er hefur framangreint þó ekki leitt til gagngerra breytinga á stjórnsýslu byggðasamlaganna og eru því enn haldnir reglulegir eigendafundir Strætó bs. og Sorpu bs. á vettvangi SSH. Byggir sú tilhögun á sérstökum eigendastefnum byggðasamlaganna Sorpu bs. og Strætó bs. sem voru samþykktar á árinu 2013 í kjölfar stjórnsýsluúttektar. 

Fyrsti fundur stefnuráðs var haldinn hinn 22. nóvember 2021 og hefur ráðið fundað alls tólf sinnum. Meðal þess sem hefur verið til umræðu eru verkefni byggðasamlaganna Sorpu bs. og Strætó bs. og verkefni sveitarfélaganna á sviði úrgangsmála, sem taka nokkrum breytingum með nýrri löggjöf og hvernig þeim verkefnum verði best fyrir komið. Þá skipaði stefnuráð sérstakan starfshóp í úrgangsmálum sem m.a. lagði fram tillögur að samræmdum samþykktum sveitarfélaganna á sviði úrgangsmála.

Frá aðalfundi SSH 10. nóvember 2023 hefur ráðið fundað þrisvar sinnum og hafa málefni Sorpu bs. þá verið til meðferðar,  sér í lagi fyrirhugaðar og nauðsynlegar breytingar á rekstrarformi einstakra verkefna Sorpu bs. í kjölfar skoðunar ESA á tekjuskattsundanþágu þess en á fundi sínum 14. ágúst 2024 féllst stefnuráð fyrir sitt leyti á að efnahagsleg starfsemi Sorpu bs. yrði færð í félag/félög með takmarkaðri ábyrgð eigenda. Undirbúningur við innleiðingu þess stendur nú yfir. 

Hvað varðar Strætó bs. þá er fyrirséð að breytingar verði á starfsemi þess á næstunni en samhliða uppfærslu Samgöngusáttmálans gerðu ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu samkomulag um samvinnu um rekstur og stjórnskipulag almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Samkomulagið felur í sér að sveitarfélögin og ríkið stofni sameiginlegt félag sem beri ábyrgð á skipulagi og rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og mun reksturinn taka hvort tveggja til hefðbundinna strætisvagnaleiða og Borgarlínu. Undirbúningur þessa stendur nú yfir. 

Ekki hefur verið mótuð eigendastefna eða eigendavettvangur fyrir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins bs. en í stjórn þess sitja framkvæmdastjórar aðildarsveitarfélaganna, þ.e. borgarstjóri og bæjarstjórar sveitarfélaganna á svæðinu.

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
Sorpa bs.
Strætó bs.

       

 

Skíðasvæðin á höfuðborgarsvæðinu

Hinn 1. janúar 2022 tók nýr samstarfssamningur sveitarfélaganna um rekstur Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins gildi, en eldri samningur þeirra rann út á sama tíma. Við gerð hins nýja samnings, en hann var unninn á vettvangi SSH með aðkomu Samstarfsnefndar skíðasvæðanna og í kjölfarið sendur sveitarfélögunum til afgreiðslu, var leitast við að skýra verkferla og hlutverk aðila sem koma að rekstri skíðasvæðanna. Samstarfsnefnd skíðasvæðanna, sem skipuð er einum fulltrúa frá hverju aðildarsveitarfélaga skíðasvæðanna, hefur m.a. það hlutverk að móta tillögur um stefnu og starfs- og fjárhagsáætlun Skíðasvæðanna og að hafa eftirlit með rekstri þeirra.

Rekstur svæðanna, svo sem er varðar starfsmannahald, fjárreiður og bókhald er svo í höndum Reykjavíkurborgar samkvæmt sérstökum þjónustusamningi þar um. Það eru fulltrúar í stjórn SSH hverju sinni sem skipa eigendavettvang skíðasvæðanna. Eigendavettvangur fjallar um starfs- og fjárhagsáætlun skíðasvæðanna og önnur mál sem varða stefnumótun eða meiri háttar fjárhagslegar ákvarðanir sem falla utan samþykktra áætlana.

Framkvæmdir á skíðasvæðunum

Haustið 2017 fór af stað vinna hjá Samstarfsnefnd skíðasvæðanna við mótun framtíðarsýnar skíðasvæðanna en þörf var talin orðin á því að endurnýja lyftukost svæðanna og huga að snjóframleiðslu. Tillögur lágu fyrir í lok árs 2017 og var þeim fylgt eftir með kynningum í öllum bæjarráðum í mars 2018.

Á fundi sínum hinn 5. mars 2018 samþykkti stjórn SSH, sem er eigendavettvangur Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, að skipa sérstakan verkefnahóp til að undirbúa tillögu að aðgerða- og framkvæmdaáætlun á grundvelli áðurnefndrar vinnu við framtíðarsýn á uppbyggingu og rekstri skíðasvæðanna. Hópurinn hefur verið starfræktur síðan, samkvæmt upphaflegu erindisbréfi og viðauka við það, sem var samþykktur á fundi stjórnar SSH hinn 2. mars 2020.

Hinn 7. maí 2018 undirrituðu framkvæmdastjórar þeirra sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem reka Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins samkomulag um endurnýjun og uppbyggingu á mannvirkjum skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins. Verkefnahópurinn hefur eftirlit með þessum framkvæmdum en jafnframt var ráðinn sérstakur verkefnastjóri vegna þeirra.

Þrír viðaukar hafa síðan verið gerðir við samkomulagið, Viðauki I dags. 6. mars 2020, Viðauki II dags. 24. febrúar 2021, og Viðauki III dags 5. maí 2022 en með þeim voru m.a. gerðar uppfærslur á upphaflegri kostnaðar- og tímaáætlun verkefnisins, en þær röskuðust eitthvað, m.a. vegna áhrifa Covid-19.

Voru skíðalyfturnar Gosi og Drottning teknar í notkun í lok árs 2022, en upphaflega var ekki gert ráð fyrir afhendingu Drottningar fyrr en haustið 2023. Þá fóru fram útboð vegna annars vegar kaupa á snjóframleiðslubúnaði og hins vegar vegna borunar vinnsluholu fyrir snjóframleiðslu og er snjóframleiðsla nú hafin í Bláfjöllum. Þá hefur einnig verið hugað að bættri aðstöðu fyrir gönguskíðaiðkun og var nýtt salernishús á suðursvæði Bláfjalla tilbúið til notkunar haustið 2022.

Nánar

Höfuðborgargirðing

Frá árinu 1987 hafa SSH annast rekstur og viðhald á fjárheldri girðingu um höfuðborgarsvæðið, en hún var lögð að frumkvæði samtakanna. Lausaganga búfjár er bönnuð innan girðingarinnar, og markmiðið með henni er að koma í veg fyrir ágang og ónæði vegna búfjár í útjaðri byggðar á höfuðborgarsvæðinu.

Bæði er um að ræða tilfallandi viðhaldsaðgerðir, t.a.m. ef rof kemur á girðinguna, en einnig getur verið nauðsynlegt að ráðast í umfangsmeiri endurnýjun á girðingunni og er það metið á hverju vori. Á árinu 2024 var gengið til samninga við nýjan verktaka til að sinna viðhaldi og rekstri girðingarinnar.
Nánar


Úr myndasafni Kjósarhrepps

 

Kynningarmál

SSH standa reglulega fyrir kynningar- og umræðufundum fyrir kjörna fulltrúa á höfuðborgarsvæðinu og eftir atvikum aðra aðila eins og lykilstarfsfólk sveitarfélaganna í hlutaðeigandi málaflokkum og þingmenn höfuðborgarsvæðisins.

Á fundunum eru þau málefni sem eru efst á baugi kynnt og tekin til umræðu. Fundirnir eru almennt í fjarfundaformi og stefnt er að því að hver fundur sé aðeins klukkustundar langur. Þessir fundir hafa verið vel sóttir og er almenn ánægja með þá, en frá aðalfundi SSH 2023 hafa verið haldnir fundir til kynningar á eftirfarandi:

Markaðsstofa höfuðborgarsvæðisins verður til:
Inga Hlín Pálsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins kynnti tilurð stofunnar, stefnumörkun og helstu verkefni í þróun og markaðssetningu á árinu 2024. Einnig var fjallað um skýrslu sem unnin var um Segla höfuðborgarsvæðisins út frá leitaráhuga.

Borgarstefna til framtíðar:
Innviðaráðherra setti á árinu 2022 á fót starfshóp á grundvelli aðgerðar C.4 Borgarstefna í stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036, um að mótuð yrði stefna sem skilgreini hlutverk Reykjavíkurborgar sem höfuðborgar og stuðli að aukinni alþjóðlegri samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins og hins vegar hlutverk og uppbyggingu Akureyrar sem svæðisborgar sem geti boðið upp á aukna fjölbreytni í þjónustu, menningu og atvinnutækifærum. Ingvar Sverrisson formaður starfshópsins kynnti.

Kortlagning og notkun útivistarsvæða á höfuðborgarsvæðinu:
Eitt af áhersluverkefnum sóknaráætlunar höfuðborgarsvæðisins er að kortleggja fjölda útivistarsvæða á höfuðborgarsvæðinu og mæla notkun þeirra. Verkfræðistofan EFLA var fengin í verkið og Daði Baldur Ottósson, samgönguverkfræðingur Eflu, kynnti niðurstöðu vinnunnar, þ.á.m. spurningakönnun sem var unnin af Prósent um vinsælustu útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins og notkun þeirra.

Mannlíf, byggð og bæjarrými:
Leiðbeiningar um sjálfbært skipulag og samgöngur í þéttbýli: Um er að ræða samstarfsverkefni Skipulagsstofnunar og SSH sem er hluti af útfærslu stefnumörkunar um byggð og bæjarrými og birtist í landsskipulagsstefnu og í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Leiðbeiningarnar voru staðfestar af svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins í desember 2023 og staðið var fyrir kynningu hjá Skipulagsstofnun í janúar 2024. Magnea Þóra Guðmundsdóttir, arkitekt hjá Teiknistofunni Stiku kynnti verkefnið og Ólafur Arnarson, forstjóri Skipulagsstofnunar tók þátt í umræðum.

Niðurstöður verkefnis um uppbyggingu hátæknibrennslu:
Innleiðing hringrásarhagkerfis leiðir til þess að förgun úrgangs með urðun verður að mestu aflögð. Brennslugeta á Íslandi fyrir árið 2035 þarf, þegar allt er talið, að miðast við 140.000 tonn, eigi lausnin að geta þjónað hagsmunum allra landsmanna. Dr. Helgi Þór Ingason kynnti.

Innleiðing loftslagsstefnu og mæling á losun:
Í kjölfar undirritunar loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðisins gerðu SSH og umhverfis-, orku- og auðlindaráðuneytið samkomulag í þeim tilgangi að fylgja loftslagsstefnunni eftir, m.a. með ráðningu ráðgjafa til þess að aðstoða sveitarfélögin við að móta aðgerðir til samræmis við verkfærakistu loftslagsstefnunnar. Gerður var samningur við VSÓ ráðgjöf til að sinna verkinu. Herdís Sigurgrímsdóttir og Bryndís Skúladóttir ráðgjafar frá VSÓ kynntu skýrslurnar: Útreikningur á losun höfuðborgarsvæðisisn fyrir árið 2022 dags. maí 2024 og Innleiðing á loftslagsstefnu höfuðborgarsvæðsins dags. maí 2024.

Samgöngusáttmálinn – kynning um uppfærslu:
Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, ásamt öðrum fulltrúum sveitarfélaganna í viðræðuhópi, kynnti uppfærslu Samgöngusáttmálans.


Úr myndasafni Seltjarnarness

 

Samstarfs- og verkefnahópar

Samstarf sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu hefur m.a. einkennst af starfi ýmissa samstarfs- og verkefnahópa og nefnda sem unnið hafa á vettvangi SSH. Þessir hópar eru ýmist viðvarandi eða settir á laggirnar til að takast á við tímabundin verkefni.

Formlegar nefndir

Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins:
Svæðisskipulagsnefndin byggir á ákvæðum skipulagslaga og er skipuð tveim fulltrúum frá hverju aðildarsveitarfélagi og tveimur til vara.

Skólamálanefnd SSH:
Nefndina skipa fræðslustjórar aðildarsveitarfélaganna að Kjósarhreppi undanskildum. Hún starfar samkvæmt sérstöku erindisbréfi og er ætlað að vera samráðs- og samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á sviði fræðslumála.

Stefnuráð byggðasamlaganna:
Stefnuráð starfar á grundvelli viðauka við stofnsamþykktir Strætó bs. og Sorpu bs. og er skipað 20 fulltrúum, þremur frá hverju sveitarfélagi utan Reykjavíkur og fimm frá Reykjavík.

Seltjarnarnes
Myndir úr safni Seltjarnarnessbæjar

 

Viðvarandi samstarfshópar

Samráðshópur á sviði velferðarmála
Samráðshópur um vatnsvernd og vatnsnýtingu
Fagráð svæðisskipulags

Stjórnir, nefndir og hópar
vegna verkefna sem SSH taka þátt í og forsvarsaðilar þeirra:

Almenningssamgöngur - Innviðaráðuneytið
Betri samgöngur (stjórn)
Faghópur leiðarkerfis Stætó - Strætó bs.
Hringrásargarður á Álfsnesi - Reykjavíkurborg
Höfuðborgarstefna - Innviðaráðuneytið
Lyklafellslína - Landsnet
Norræn ráðherranefnd um byggðaþróun - Innviðaráðuneytið
Skipulagsmálanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga - Samband íslenskra sveitarfélaga
Skotíþróttir - val á framtíðarstaðsetningu
Sóknaráætlun - Tæknihópur um úrgangsmál - SSH
Sóknaráætlun - Forvarnir og geðrækt hjá unglingum - SSH
Stýrihópur um loftgæði á Íslandi - Umhverfisráðuneytið
Uppbygging skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins - SSH