Breytingartillaga svæðisskipulags
Breyting á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 vegna endurskoðunar aðalskipulags Reykjavíkur og annarra sveitarfélaga.
Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins samþykkti á fundi sínum þann 19. apríl 2013 að auglýsa tillögu að breytingu á Svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 2001-2024 samkvæmt 24. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 7. gr. laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006. Breytingartillögurnar eru tilkomnar vegna endurskoðunar aðalskipulags Reykjavíkur og Kópavogs sem auglýstar eru á sama tíma og snerta landnotkun og skipulagstölur viðkomandi sveitarfélaga. Einnig eru gerðar breytingar sem heimila vikmörk á skipulagstölur allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Breytingartillagan ásamt umhverfisskýrslu og öðrum fylgigögnum verða til sýnis á skrifstofu SSH, Hamraborg 9 Kópavogi, hjá Skipulagstofnun, Laugavegi 166 í Reykjavík og á skrifstofum allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu frá og með 9. ágúst 2013. Gögnin eru einnig aðgengileg á heimasíðu SSH, www.ssh.is
Svæðisskipulagstillagan er kynnt samhliða tillögum að nýju Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024. Jafnframt eru kynntar athugasemdir og ábendingar Skipulagsstofnunar dagssettar 25. júní 2013 sem og athugasemdir sem bárust í forkynningu skv. 2. mgr. 23. gr. skipulagslaga, ásamt viðbrögðum við þeim.
Hver sá sem telur sig eiga hagsmuna að gæta er hvattur til að kynna sér tillögurnar.
Ábendingum og athugasemdum við tillögurnar skal skila skriflega til skrifstofu SSH, Hamraborg 9, 200 Kópavogi eða á netfangið ssh@ssh.is eigi síðar en kl. 15:00, föstudaginn 20. september 2013.
Vinsamlegast notið uppgefið netfang fyrir innsendar athugasemdir með tölvupósti.