Fara í efni

Ný þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2024

Lykilatriði i framfylgd Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2015-2040 er gerð þróunaráætlana. Með þeim er m.a. lögð áhersla á að samræma áætlanir sveitarfélaganna um uppbyggingu húsnæðis og samgönguframkvæmdir og miðla upplýsingum um uppbyggingaráform.

Ný þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið 2024 dregur fram að:
- Í gildandi aðalskipulagsáætlunum er gert ráð fyrir uppbyggingu 57.700 íbúða
- Staðfest deiliskipulag er fyrir 12.000 íbúðir
- Í vinnslu er deiliskipulag fyrir 11.000 íbúðir til viðbótar
- Mögulegt er að koma á markað að meðaltali 3.375 íbúðum á ári næstu fjögur ár

Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafa nú kynnt nýja Þróunaráætlun fyrir höfuðborgarsvæðið 2024. sem gildir fyrir næstu fjögur árin. Þróunaráætlunin er sú þriðja sem unnin er á grunni Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins: Höfuðborgarsvæðið 2040 og er vettvangur til að samræma áætlanir sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í húsnæðis- og samgöngumálum.

Þróunaráætluninni er einnig ætlað að miðla upplýsingum um stöðuna og uppbyggingaráform og eru helstu tölur þróunaráætlunar nú settar fram á aðgengilegan og skýran máta á nýrri vefsjá.

Í greiningu þróunaráætlunar, sem unnin var af VSÓ ráðgjöf, kemur fram að rúmar skipulagsheimildir eru fyrir hendi til að auka uppbyggingu á höfuðborgasvæðinu. Bæði liggur fyrir staðfest deiliskipulag fyrir 12.083 íbúðum og deiliskipulag fyrir 11.038 íbúðum til viðbótar er í vinnslu. Því er rými til að byggja meira en hefur verið gert að meðaltali síðustu ár, ef horft er til skipulagsheimilda: Mögulegt væri að hefja uppbyggingu á 3.375 íbúðum að meðaltali á ári, næstu fjögur árin, að því gefnu að fjármögnun, mannafli og tækjakostur standi til boða.

Fjölgun íbúa – vöxtur í íbúðauppbyggingu

Gert er ráð fyrir að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgi um á bilinu 6-16 þúsund fram til ársins 2027.

Áætlanir sveitarfélaga um íbúðauppbyggingu falla ágætlega að þeirri þróun en sem fyrr segir eru 12.083 nýjar íbúðir í staðfestu deiliskipulagi sem gætu rúmað allt að 30.000 íbúa, miðað við núverandi meðaltal íbúa í íbúð.

Þá má ætla að heildarfjöldi skipulagsheimilda í aðalskipulagi sveitarfélaganna geti hýst allt að 142.000 manns til viðbótar við núverandi íbúafjölda en þar er gert ráð fyrir uppbyggingu 57.700 íbúða.

Öll fyrirliggjandi uppbygging á sér stað innan gildandi vaxtamarka höfuðborgarsvæðisins og af áætlaðri uppbyggingu er 71% innan áhrifasvæðis Borgarlínu á samgöngu- og þróunarásum eins og þeir eru skilgreindir í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

28% byggingaheimilda eru 5 ára eða eldri

Búið er að úthluta 70% byggingarréttar (byggingarheimilda) þeirra íbúða þar sem deiliskipulag er samþykkt. Það samsvarar rétt um 8.500 íbúðum. Í einhverjum tilfellum er nokkuð langt síðan byggingarrétti fyrir ákveðna lóð var úthlutað en framkvæmdir hafa ekki hafist. Greining á aldri deiliskipulagsheimilda sýnir að 54% íbúðarheimilda (6.566 íbúðir) voru samþykkt á síðustu tveimur árum. Um 18% heimilda voru samþykkt í deiliskipulagi fyrir 3-4 árum og 28% heimilda eru 5 ára eða eldri.

Sjá nánar um þróunaráætlun.

Nánari upplýsingar má nálgast hjá Páli Björgvin Guðmundssyni, framkvæmdastjóra SSH, í netfangið pallbg@ssh.is.


Afmörkun og flokkun áætlaðra uppbyggingareita á höfuðborgarsvæðinu.

Vefsjá þróunaráætlunar 2024


Þróunaráætlun 2024