Fara í efni

Endurnotkun á textíl

Framleiðsla á fötum hefur nær tvöfaldast frá aldamótum og dregið hefur gríðarlega úr notkun hverrar flíkur. Hérlendis losar hver einstaklingur sig við 15-23 kíló af textíl á ári hverju. Hvað verður um allt þetta magn? Sveitarfélögin bera ábyrgð á söfnun og meðhöndlun þessa úrgangsflokks.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið veitti fé til sóknaráætlunarverkefnis sem hefði tengsl við hringrásarhagkerfið og loftslagsmál á höfuðborgarsvæðinu. Á grundvelli þess gerðu SSH og Sorpa bs. með sér samning um sérstakt tilraunaverkefni um endurnotkun á textíl. Samningurinn var undirritaður 30. ágúst 2024 og stendur verkefnið yfir í eitt ár.

Markmið verkefnisins er að stuðla að auknum innlendum endurnotum á textíl. Við vinnslu þess verður leitað leiða til að draga úr förgun textíls og útflutningi hans. Sorpa bs. sér því um að forflokka textíl sem safnast í hirðu sveitarfélaganna og miðla honum til aðila sem hafa áhuga á frekari nýtingu hans. Auk þess að fela í sér ábata fyrir umhverfið og lægri kostnað við afsetningu má því ætla að verkefnið komi sér vel fyrir góðgerðarfélög, hönnuði, frumkvöðla og sprotafyrirtæki. Þá standa vonir til þess að umfjöllun um verkefnið skapi aukinn áhuga á endurnotkun textíls og meðvitund um umhverfisþætti sem eru samfara aukinni textílneyslu.

Verkefnið gengur vel og verður árangur þess kynntur nánar með sérstakri skýrslu við lok þess.

 

Ýmsar uppákomur eru tengdar verkefninu og hinn 7.-13. október setti Textílbarinn upp búð, vinnustofu og sýningu í Góða hirðinum. Var gestum boðið að spreyta sig á ýmiss konar verkefnum með endurnotanlegum textil. 

Stofnendur og eigendur Textilbarnsins eru Hildigunnur Sigurðardóttir og Hrafnhildur Gísladóttir.