Fráveitumál höfuðborgarsvæðisins
Forathugun á fráveitumálum höfuðborgarsvæðisins
Verkefnið er eitt af áhersluverkefnum ársins 2024.
Markmiðið er að kortleggja og greina fráveitumál höfuðborgarsvæðisins, þar með talið framkvæmdir á svæðinu og rekstrarfyrirkomulag. Einnig er mikilvægt að greina þær kröfur sem löggjafinn leggur á herðar sveitarfélögunum í lögum og reglugerðum og stefnumótandi áætlunum.
Mikilvægt er fyrir höfuðborgarsvæðið að skoða og meta þarfir vegna fráveitna í komandi framtíð. Lagðar hafa verið fram upplýsingar um að þörf sé fyrir fjárfestingu í fráveitulausnum til ársins 2040. Þörf er á nákvæmari áætlanagerð um stærð þessa verkefnis fyrir sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Jafnframt þarf að greina helstu áhættuþætti sem haft geta áhrif á tilhögun og kostnað við fráveituframkvæmdir, m.a. út frá mögulega auknum kröfum um hreinsunfrárennslis og meðhöndlun úrgangsefna frá fráveitum.
Til þess að sveitarstjórnir geti tekið upplýstar ákvarðanir um verkefni af þessari stærðargráðu þarf að fara fram gagnaöflun og forathugun á málinu með það að markmiði að ná góðri yfirsýn yfir málið. Hvað einstaka löggjöf varðar er fyrst og fremst horft til þess að endurskoðun er að ljúka á tilskipun ESB um fráveitumál (Urban Waste
Water Treatment Directive) nr. 91/271/EEC. Hér á landi er sú tilskipun útfærð í reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Vinna viðendurskoðun þeirrar reglugerðar hefur staðið yfir í rúman áratug án þess að hafa leitt til endanlegrar niðurstöðu. Ljóst er því að töluverð óvissa er um hvaða breytingar verða gerðar á kröfum um hreinsun fráveituvatns á næstu árum en reikna má með að í tengslum við löggjafarvinnu verði m.a. horft til þess hvaða leiðir séu árangursríkastar til að draga úr örplastsmengun.
Ráðgjafahópur SSH var skipaður Páli Björgvini Guðmundssyni framkvæmdastjóra SSH sem leiddi starf hópsins ásamt ráðgjöfum frá VSÓ ráðgjöf.
Hópurinn fór yfir fyrirliggjandi skýrslur um stöðu fráveitumála hér á landi.
Niðurstaða og tillögur hópsins voru eftirfarandi:
- Megin ráðlegging ráðgjafarhópsins á þessu stigi er sú að óska eftir því að fá fulltrúa eða áheyrnarfulltrúa í samráðshópi sem mun verða til ráðgjafar við innleiðingu tilskipunarinnar hér á landi. Með því móti verði SSH tryggð bein aðkoma að vinnu við áhættumat og kostnaðar- og ábatagreiningu, ásamt mögulegum undanþágum eða aðlögun.
- Í hagsmunagæslu SSH þarf verkefnið að vera í forgangi á næstu árum. Tilefni er til þess að upplýsa aðildarsveitarfélög SSH reglulega um áætlaða fjárfestingaþörf og tryggja gott samstarf og upplýsingamiðlun á milli rekstraraðila fráveitna og SSH.
- Skoða ætti kosti þess að setja á fót rýnihóp á vegum SSH, skipaðan sérfræðingum sveitarfélaga í fráveitumálum, sem verði fulltrúa SSH í samráðshópi til aðstoðar í hagsmunagæslu og upplýsingamiðlun til sveitarfélaganna.
- Skoða ætti möguleika á að nýta rannsóknir og mögulega afla frekari vísindalegra gagna sem stutt geta við hagsmunagæslu SSH.