Fara í efni

Úrgangur og meðhöndlun úrgangs

Verkefnið er hluti af Sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins 2020 – 2040 og fellur undir áhersluverkefni
„úrgangsmál og meðhöndlun úrgangs“ fyrir árin 2020 - 2023.

Markmið verkefnisins var að sveitarfélögin myndu skoða frekari samræmingu á úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu. Kortleggja átti stöðu endurvinnslu- og úrgangsmála hjá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Eins þurfti að gera mat á fýsileika þess að samræma úrgangsflokkun á höfuðborgarsvæðinu. Að lokum þurfti að leggja fram tillögur að aðgerðum til að samræma flokkun og áætla kostnað og fasaskiptingu. 

Ný lög í úrgangsmálum tóku gildi þann 1. janúar 2023 þegar breytingar urðu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og lögum um meðhöndlun úrgangs og úrvinnslugjald nr.162/2002.

Lagabreytingarnar hafa verið kallaðar einu nafni hringrásarlögin en markmið laganna var að draga úr myndun úrgangs og stuðla að myndun endurvinnslusamfélags.
Árið 2023 gekk SORPA og höfuðborgarsvæðið allt í gegnum umfangsmestu og veigamestu breytingar sem gerðar hafa verið á sviði úrgangsmeðhöndlunar á síðari árum. 

Helstu breytingar voru: 

  • Sama flokkunarkerfi gildir nú um allt land og er skylt að flokka úrgang í a.m.k. sjö flokka sem eru pappír, plast, lífúrgangur, textíll, málmar, gler og spilliefni.
    • Við heimili er safnað pappír, plasti og lífúrgangi.
    • Áfram er blönduðum úrgangi safnað við heimili þar sem ýmislegt endar þar sem á ekki heima í sérsöfnuðum úrgangi. 
    • Textíl, málmum, gleri og spilliefnum skal safnað með öðrum hætti, til dæmis á grenndarstöðvum, með sérstökum söfnunardögum eða öðrum átaksverkefnum. Bæta skal sérstaklega söfnun spilliefna og raftækja. 
    • Bannað er að urða eða brenna sérsöfnuðum úrgangi enda er markmiðið að koma honum til endurnýtingar eða endurvinnslu.

 

  • Sömu merkingar eru notaðar fyrir tunnur og ílát um allt land sem á að einfalda flokkun og gera hana skilvirkari.
    • Notast verður við samnorrænar merkingar.
    • Samnorrænu merkingarnar er einnig að finna á mörgum vörum sem sýnir í hvaða flokk umbúðirnar eiga að fara að notkun lokinni.

 

Árangur af þessum breytingum er mikill og var gott samstarf á milli Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, ásamt aðildarsveitarfélaga og SORPU. Breytingarnar gerðu SORPU kleift að hætta rekstri forvinnslulínu í móttöku- og flokkunarstöðinni í Gufunesi fyrir blandaðan úrgang á síðari hluta ársins, með tilheyrandi hagræði og sparnaði. Breytingarnar hafa líka í för með sér að SORPA getur nú í fyrsta skipti flutt út blandaðan úrgang til orkuvinnslu, sem áður innihélt mikið af matarleifum. Þær skila einnig því að nú getur SORPA afhent öllum sem vilja moltu úr GAJU, gas- og jarðgerðarstöð SORPU.