Fara í efni

Útivistarvefur höfuðborgarsvæðisins

Verkefnið felur í sér að setja á laggirnar vef sem veitir upplýsingar um helstu útivistarsvæði á höfuðborgarsvæðinu, þ.á.m., innviði sem þar er að finna, tækifæri fyrir tómstundir, leiki, afslöppun og samgöngutengingar.

Útivistarvefurinn er hluti af sóknaráætlun höfuðborgarsvæðisins fyrir árin 2020-2024 þar sem heilnæmt umhverfi og heilbrigt líf er haft að leiðarljósi.

Viðmótsskissur - fyrstu drög:

Framkvæmdastjóri Um að gera ehf. og framkvæmdastjóri SSH undirrituðu þann 8. maí 2024 verksamning um hönnun, smíði og uppsetningu á Útivistarvef höfuðborgarsvæðisins. Vefnum er ætlað að gera útivistarmöguleika sýnilegri fyrir íbúa og gesti svæðisins og hvetja til aukinnar notkunar og áhuga á útivistarssvæðum, afþreyingarmöguleikum og annarri þjónustu.

Við sama tilefni undirrituðu Inga Hlín Pálsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins og Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH samkomulag um rekstur vefsins og áframhaldandi þróun hans innan markaðsstofunnar.

Samkvæmt Páli Björgvini verður útivistarvefurinn mikið framfaraskref fyrir íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins. ,,Hugmyndin er sú að útbúa einfalda síma- og veflausn til að bæta upplifun íbúa og gesta þegar þeir njóta hinna fjölmörgu útivistarsvæða, göngu- og hjólastíga sem er að finna á höfuðborgarsvæðinu öllu. Vefurinn verður þannig uppbyggður að á einfaldan hátt verður hægt að velja úr fjölda áfangastaða og rafrænna leiðarvísa um göngu- og hjólastíga að þeim. Við bindum miklar vonir við þennan vef sem er eitt af þessum sameiginlegu verkefnum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem gera svæðið í heild enn betra og skemmtilegra til búsetu.”


Páll Björgvin Guðmundsson framkvæmdastjóri SSH, Hilmar Kári Hallbjörnsson framkvæmdastjóri Um að gera ehf., Jóhanna Símonardóttir ráðgjafi Sjá ehf., Inga Hlín Pálsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu og Jón Kjartan Ágústsson svæðiskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins.