Fara í efni

Nýr svæðisskipulagsstjóri höfuðborgarsvæðisins

Ásdís Ólafsdóttir hefur verið ráðin í starf svæðisskipulagsstjóra höfuðborgarsvæðisins og fyrirhugað er að hún hefji störf í október nk.

Ásdís er með B.Sc. gráðu í byggingarverkfræði frá HÍ og M.Sc. gráðu í verkfræði með áherslu á samgöngur og skipulag frá Kungliga Tekniska högskolan (KTH) í Stokkhólmi.

Ásdís hefur farsæla reynslu af verkfræðistörfum innan samgöngu- og skipulagsmála. Hún hefur búið í Svíþjóð og starfað á verkfræði- og ráðgjafastofum og hjá sveitarfélögum á Stokkhólmssvæðinu. Nú síðast sem samgönguverkfræðingur og verkefnastjóri í þéttbýlasta sveitarfélaginu á því svæði þar sem hún kom m.a. að gerð áætlana fyrir umferð gangandi, betrumbótum gatnakerfis, þátttöku í deiliskipulagsgerðum og rýni tillagna m.t.t samgangna og umferðaröryggis. Ásdís var fulltrúi sveitarfélagsins í samstarfi og samskiptum við almenningssamgöngukerfi Stokkhólms (Trafikförvaltningen Stockholm) og nefndir innan sveitarfélagsins. Þá tók hún þátt í stærri verkefnum sem tengjast uppbyggingu léttlestakerfis og skipulags- og hönnunarverkefnum fyrir stór nýbyggð svæði.

Ásdís býr yfir mikilli og áhugaverðri reynslu sem mun nýtast SSH og sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu vel og hlökkum við til að fá hana til starfa.

Jón Kjartan Ágústsson fráfarandi svæðisskipulagsstjóri lýkur störfum hjá SSH í byrjun ágúst. Um leið og Jóni er óskað velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi er honum þakkað fyrir afar gott og farsælt samstarf.