Samkomulag um að uppfæra samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins
Tilkynning frá IRN og SSH – 14. mars 2023:
Ríkið og sex sveitarfélög sem standa að samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins hafa ákveðið að hefja undirbúning að því að uppfæra sáttmálann og gera viðauka við hann.
Verkáætlun um uppfærsluna var samþykkt á fundi forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innviðaráðherra með bæjarstjórum sveitarfélaganna, borgarstjóra og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu fyrir helgi. Gert er ráð fyrir að hægt verði að undirrita viðauka við samgöngusáttmálann í sumar.
Það markaði tímamót þegar ríki og öll sveitarfélögin á svæðinu staðfestu þann 26. september 2019 sameiginlega framtíðarsýn og markmið fyrir samgöngur á höfuðborgarsvæðinu með undirritun samgöngusáttmálans. Um er að ræða mestu fjárfestingar í samgönguinnviðum í sögu svæðisins og uppbyggingin hugsuð fyrir alla samgöngumáta.
Samgöngusáttmálinn hefur þegar bætt samgöngur á svæðinu og aukið greiðleika þeirra. Mikilvægar framkvæmdir hafa klárast, s.s. á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, Suðurlandsvegi milli Vesturlandsvegar og Hádegismóa og á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ. Þá hafa einnig verið lagðir rúmlega 13 km af hjólastígum. Þá er stefnt að því að framkvæmdir við Fossvogsbrú hefjist á þessu ári.
Helstu áskoranir og verkefni framundan
Í undirbúningi að uppfærslu sáttmálans þarf að taka tillit til mikilla verðhækkana, einkum í verklegum framkvæmdum, sem hafa áhrif á kostnaðaráætlanir. Einnig verða einstök verkefni skoðuð, þar sem kostnaðaráætlanir voru vanáætlaðar. Kostnaðaráætlun vegna Sæbrautarstokks var t.a.m. ekki að fullu tilbúin þegar sem samgöngusáttmálinn var gerður.
Ýmis tækifæri felast einnig til uppfærslu sáttmálans, til að mynda með því að endurmeta mat á tekjumöguleikjum í kringum þróunarsvæði sem myndast vegna uppbyggingar stokka.
Ráðist verður í nokkur verkefni til að undirbúa viðauka við samgöngusáttmálann í samræmi við nýja verkáætlun.
Betri samgöngum verður falið að uppfæra framkvæmdatöflu sáttmálans, þ.m.t. tíma- og kostnaðaráætlanir. Einnig að meta áhrif stofnvega- og Borgarlínuinnviða m.t.t. markmiða um greiðar samgöngur, fjölbreytta ferðamáta, kolefnishlutlaust samfélag og umferðaröryggi. Á þeim grunni verði sett mælanleg undirmarkmið og árangursvísar.
Þá hefur Betri samgöngum verið falið að móta leiðir að bæta stjórnskipulag verkefnisins og einstakra verkefna.
Loks er stefnt að því að viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga klári drög að samningi um eflingu almenningssamgangna. Rekstur almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu verði tryggður með aðkomu sveitarfélaga og ríkisins.
Minnisblað um verkáætlun um uppfærslu og undirbúning viðauka (9. mars 2022)
Frétt um undirritun samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins (26. sept. 2019)
Opinbert hlutafélag stofnað um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgar-svæðinu (2. okt. 2020)